03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Kristjánsson:

Við hv. 7. landsk. þm. (GÞ) eigum hér sameiginlega brtt. á þskj. 338, þar sem farið er fram á það, að fé nýbyggingarsjóðanna megi vera í innieignum útgerðarmanna á biðreikningi sterlingspunda.

Það er svo um þetta frv., að það eru ekki margir ánægðir með það. En hér er talið, að samkomulag sé á milli flokkanna um lausn þessara mála, og tjáir vitanlega ekki að halda uppi ádeilum á þetta frv. Og rétt er það, að þess er aldrei að vænta, að hver geti fengið sitt, þegar menn með svo ólík sjónarmið eiga að sættast.

Þessi litla brtt. okkar ber vott um, að við flm. gerum ekki ágreining um aðalefni frv., en tökum aðeins þetta eina atriði út úr. En ástæðan er sú, að ákvæðin um nýbyggingarsjóðina eru þau furðulegustu í þessu frv., en auk þess algert nýmæli í þessum efnum.

Ef það væri venja útgerðarmanna að hlaupa burt frá rekstrinum, þegar illa lætur í ári eða á móti blæs, en rísa svo upp eins og gorkúlur á haug, þegar betur árar, þá mætti segja, að ekki væri óskiljanlegt, þótt fram kæmi lagaboð í líkingu við ákvæði þessa frv. um nýbyggingarsjóðina. En nú er það hins vegar á allra vitorði, að útgerðarmenn héldu út hvernig sem áraði, og það meira að segja eftir að þeir höfðu tapað öllu. Þegar þessi reynsla er að baki, má það kallast alveg furðulegt að mínu áliti, að Alþingi fari að stimpla þessa menn með svona ákvæðum. Sú ásökun, sem felst í þessu, er í senn furðuleg og ómakleg. Og það er eins móðgandi og ókurteist og það er óheppilegt og ósanngjarnt að vera alltaf að skyrpa framan í þá menn, sem standa fyrir jafnþýðingarmiklum og umfangsmiklum framkvæmdum fyrir þjóðféfagsheildina.

Nú höfum við hv. meðflm. minn ekki séð okkur fært eða viljað hrófla við neinum aðalatriðum máls, sem samkomulag er orðið um milli flokka. En þegar menn hafa sætt sig við stofnun nýbyggingarsjóðs með þeirri stórkostlegu móðgun, sem útgerðarmönnum er þar sýnd, fullkomnu vantrausti á því, að þeir fari vel og hyggilega með eigið fé, finnst okkur ekki hæfa að bæta þar á ofan óþörfu tjóni, sem fyrirtæki þeirra hlytu að bíða af því, ef mikill hluti af útflutningsverðmætum þeirra er látinn frjósa inni á biðreikningum, þvert ofan í eldri lög, og þau mega ekki nota það fé í nýbyggingarsjóð, heldur verða að taka annað fé, líklega að láni, til að leggja í nýbyggingarsjóð, sem svo verður kannske álíka arðlítill og pundin á biðreikningunum eru nú. Þegar svo langt er komið, að hið opinbera beinlínis gerir mönnum að skyldu að eiga eignir sínar arðlitlar erlendis, er ekki hægt að krefjast þess með nokkurri sanngirni, að þau leggi einnig fyrir stórupphæðir innan lands allt að því vaxtalausar.

Það væri mjög freistandi að rekja þetta mál allt til rótar. Það er vafalaust flestum í fersku minni, að 10–11 ár eru liðin, síðan það var viðurkennt, að útgerðarfélögin væru farin að tapa á rekstrinum, og að tapið hélt stöðugt áfram. Menn, sem höfðu horn í síðu þeirra, sögðu, að tapið stafaði af óreiðu. Réttsýnni menn vissu, að ástæðurnar voru margar og allt aðrar og að álögur hins opinbera á fyrirtækjunum voru of þungar til þess, að þau fengju undir risið. Rannsóknir voru gerðar, niðurstöðurnar lagðar fyrir Alþingi, en það hafðist ekki að. Þannig stóð, unz af því hafði leitt dvínandi framleiðslu, rýrnandi opinberar tekjur af sjávarafurðum og sköttum á útgerðarfyrirtækjum, stórfellt atvinnuleysi og vá fyrir dyrum hjá miklum hluta þjóðarinnar. Þá raknaði Alþingi við og vildi veita útgerðinni fríðindi í sárabætur. Þau voru fólgin í eins konar skattfrelsi, þannig að af hugsanlegum gróða næstu 5 ára mættu útgerðarfélögin bæta sér tap síðastl. áratugs án þess að gjalda af því skatt. Bæði ég og aðrir töldu þetta einskisvert, nema árferði batnaði. Það eru lítil fríðindi að gefa þeim eftir skatt, sem engar skatttekjur eiga. Á hinn bóginn var von um hagnað, ef árferði og markaður batnaði. Og svo varð. Útkoma s. 1. árs varð stórkostlegur hagsmunarekstur. En hvernig brást Alþingi þá við? Mér virtist sem hagnaður útgerðarinnar væri talinn einhver mesti háski, sem hér hefði steðjað að. Hún var bara farin að græða! Það varð náttúrlega að taka þessi fríðindi af henni strax, svo að þau kæmu henni ekki að gagni. — Slík aðferð mundi hvergi standast fyrir dómstólum. Ef manni væru ákveðin eftirlaun eða slysabætur og Alþingi afnæmi þær greiðslur með lögum, væru það auðsæ svik og lögbrot. Eins er þetta í hlutarins eðli. — En afnám þessara fríðinda er þegar ákveðið, og þýðir ekki um að tala. Aðeins viljum við, sem stöndum að brtt., koma í veg fyrir, að ákvæðunum um nýbyggingarsjóð geti orðið misbeitt þannig, að fyrirtæki, sem á hundruð þúsunda erlendis, sé neytt til að taka stórlán innan lands og e. t. v. verði því komið í kröggur og jafnvel gert gjaldþrota á svo sem 10 þús. kr. víxli, af því að lánsstofnanir fást ekki til að yfirfæra þá upphæð. Mörg slík dæmi mætti hugsa sér.

Þó að lánsstofnanir fáist e. t. v. ekki til að lána út á innieignir á biðreikningum, má yfirleitt telja þær sæmilega örugga eign. Þess vegna skil ég ekki, að ríkið geti haft verulega á móti því að leyfa, að mikill hluti af fé nýbyggingarsjóða sé þar geymdur. Ég veit ekki betur en óhjákvæmilegt sé að fá skip til endurnýjunar flotanum byggð erlendis og þá hvergi fremur en í Englandi, þegar að því kemur, að það verður hægt. Hví þarf þá að geyma fé til þeirra hluta í arðlausum sjóði hér heima, meðan annað fé verður að liggja á biðreikningum í Englandi?

Við teljum nokkurn veginn útlátalaust að breyta þessu atriði, en það getur haft stórkostlega þýðingu fyrir útgerðina og gert margt viðráðanlegra en ella mundi fyrir útgerðarmenn.