03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ísleifur Högnason:

Herra forseti! Hv. flokksbróðir minn, 1. landsk. (BrB), flutti brtt. á þskj. 202 við þetta frv., þegar það var til umr. í Ed. Þessar brtt. fjölluðu m. a. um frádrátt útgerðarfyrirtækja og um hærri persónufrádrátt en frv. tiltekur. Eins og fram kom í umr., voru samtök með stjfl. um, að þær fengju engan byr. Af þessum ástæðum og fleiri og endurteknum yfirlýsingum ýmissa þjóðstjórnarmanna leiðir það, að ég þykist ekki þurfa að bera hér fram um sinn brtt. í sömu átt. Þá liggur fyrir sú brtt. á þskj. 342, að persónufrádráttur sé jafn alls staðar á landinu, og er hann nokkuð . rífkaður. Tel ég þessa brtt. standa til bóta. Ég álít, að verðlagsmunur Reykjavíkur og ýmissa staða á landinu hafi mjög breytzt hin síðari ár og að víða annars staðar sé orðið jafndýrt að lifa og í Reykjavík, ef miðað er við allar aðstæður. Fæði og leiga er að vísu ódýrara í sveitum, en aðbúnaður allur er þar þó miklu lakari en í kaupstöðunum.

Það væri ástæða til að minnast á harmatölur hv. 5. þm. Reykv. (SK) um ástand útgerðarinnar, ekki aðeins fyrir stríð, eins og mætti að nokkru til sanns vegar færa, heldur um „fjárkröggur“ Þeirra núna og undanfarin missiri. Kvartanir yfir erfiðleikum útgerðarinnar ná ekki neinni átt. Milljónir á milljónir ofan hafa verið gefnar útgerðarmönnum með því að halda gengi krónunnar í óeðlilegu hlutfalli við ensk pund, eingöngu fyrir ráðríki og til hagnaðar lítilli klíku í ríkisstj. og í kringum hana. Milljónirnar, sem fáein fyrirtæki hafa fengið að raka saman, verða aðrar stéttir að borga beint og óbeint, þótt síðar verði, — líklega verður það einkum verkamanna- og millistéttin, sem fær að blæða.

Ég mun greiða brtt. á þskj. 342 atkvæði og frv. í heild sakir þeirrar takmörkunar, sem það gerir á skattfrelsi stórfyrirtækja, þótt tillögur okkar sósíalista hafi verið ofurliði bornar af þjóðstjórnarþm.