17.04.1941
Efri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Bjarni Snæbjörnsson:

Mig langaði til að segja aðeins fáein orð í sambandi við þetta frv., og vil sérstaklega benda á eitt atriði, sem hv. frsm. kom dálítið inn á. Í 2. gr. er mælt svo fyrir, að hlutaðeigandi sveitarfélag skuli fá 40% af þeim stríðsgróðaskatti, sem þar er á lagður, en þó ekki meira en nemur 25% af niðurjöfnun útsvara í sveitarfélaginu á því ári. Fórust hv. frsm. þannig orð, að ekki næði nokkurri átt, að hann rynni óskiptur í bæjarsjóð, og gæti svo farið, að bæjarbúar þyrftu ekki að greiða neitt útsvar. Nú er það svo, að í bæjarfélögum, þar sem stórútgerð er, hafa mörg þeirra lítinn annan tekjustofn. Þau hafa safnað skuldum á þeim tímum, sem rekstur útgerðarinnar gekk illa, og orðið að láta sitja á hakanum ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir vegna fátæktar. Þess vegna finnst mér það ekki nema sanngjörn krafa, þegar slík höpp koma fyrir ríkissjóðinn, að nokkuð renni umfram það, sem beint er nauðsynlegt, til bæjarfélaga, sem svo er ástatt um.

Það getur vel verið, að n., sem hefur þetta til athugunar, og þeir menn, sem taka að sér að semja um þetta mál, hafi ekki veitt því næga athygli, að svo er hægt að búa um, að útsvörin þyrftu samt sem áður ekki að lækka, en að það væri skylda, að gjaldendur greiddu sín útsvör, en þannig væri búið um hnútana, að stríðsgróðaskatturinn kæmi að haldi viðkomandi bæjarfélagi sem hver annar happagróði til að bæta aðstöðu þeirra í fjárhagslegu tilliti eða í því tilliti að styðja útgerðina í baráttu hennar, sem hlýtur að koma seinna meir, þegar styrjöldinni er lokið, t. d. með því að búa betur í haginn fyrir hana með hafnarbótum eða lendingarbótum eða ýmsu öðru slíku. Það mætti t. d. hugsa sér að leggja þennan afgang, ef menn eru hræddir við að setja full 40%, eins og þarna er um mælt, að setja aðeins 25% og afgangurinn væri svo settur í sér stakan sjóð, sem væri svo notaður í þarfir bæjarfélagsins, einmitt af þessum sérstöku ástæðum, annaðhvort til að grynna á skuldum félagsins eða gera nauðsynlegar, verklegar framkvæmdir í bænum, sem gætu komið bæjarbúum eða útgerðinni að gagni, en bærinn gæti ekki ráðizt í nema hann hefði aukafé.

Ég býst við því, að ég komi með brtt. á svipaðan hátt og ég hef minnzt á nú, en þar sem ég hef hlerað það, að það eigi að flýta þessu máli, þá vildi ég gjarnan og mælist eindregið til þess, að n. tæki þetta til athugunar á næsta fundi sínum, þó að ekki væri búið að útbýta brtt. hér í deildinni fyrir þann fund, hvort ekki væri hægt að haga því svo, að sveitarfélágið eða viðkomandi bæjarfélag fengi þessi 40%, án tillits til þess, hvað jafnað er niður á bæjarbúa, en svo væri um hnútana búið, að ekki þyrfti að óttast það, að útsvör almennings lækkuðu þrátt fyrir það.