17.04.1941
Efri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég hef eiginlega engu við þetta að bæta. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svar um þetta og býst við, að það nægi til þess, að ekki þurfi að bera fram brtt. um þetta, þar sem hann er sammála því, sem einnig kom fram í samningunum um þetta mál, að þessi stríðsgróðaskattur yrði frádragshæfur ásamt öðrum tekjusköttum.

Ég vil svara hv. þm. Hafnf. því, að það er sjálfsagt, að n. taki þetta til athugunar, en ég býst við, að það yrði að halda því ákvæði, að það mætti aldrei koma nema ákveðinn hluti, t. d. 25% af stríðsgróðaskattinum, á niðurjöfnun útsvara. Hitt er annað mál, hvort það er ákveðið í l., að hinn hluti skattsins rynni til þess bæjarfélags, sem um er að ræða.

Ég get sagt það, ekki sem frsm., heldur frá mér persónulega, að ég hef í raun og veru hugsað mér að bera fram brtt. í þá átt, að það af skattinum, sem ekki félli þannig til bæjarfélagsins upp í útsvör, rynni inn á reikning þess hjá ríkissjóði og væri varið til einhvers þess, sem mætti verða til þess að styrkja útgerðina.

Mér finnst það ekki nema sanngjarnt, að þau félög, sem þannig greiða 1/4 hl. útsvara með þessum hætti, og þar að auki verulega fúlgu, að þessu yrði varið sérstaklega til einhvers þess, sem væri útgerðinni til hagsbóta og náttúrlega þá einnig viðkomandi stað, þar sem það yrði til þess að gera slíkan atvinnuveg hentugri og meira arðberandi á þeim stað. Ég býst þess vegna við því, að það sé sjálfsagt, að n. taki þetta til greina, og það er sömuleiðis algerlega frjálst þm. að bera fram frá sjálfum sér brtt. um þetta atriði.