06.03.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú gefið yfirlit um afkomu ríkissjóðs á árinu 1940. Samkvæmt því hefur tekjuafgangur orðið kr. 4.875 milljónir, og er það óvenjumikill rekstrarafgangur. Hæstv. ráðherra hefur einnig skýrt frá því, að tekjur ríkissjóðs hafi farið á síðastl. ári nálega 8 millj. króna fram úr áætlun, en gjöldin farið um kr. 3.7 millj. fram úr áætlun, — eða öllu heldur rúmar 3 millj. króna, þar sem eigi verður talið, að framlag til jöfnunarsjóðs sveitar- og bæjarfélaga sé umframgreiðsla í sjálfu sér, enda þótt það sé nú talið með gjöldum, en hafi í fjárlögunum verið fært til frádráttar tekjum.

Í sambandi við þessa fjárhagsafkomu ríkissjóðs vakna ýmsar spurningar, og þó sú fyrst og fremst, hverjar séu hinar eiginlegu orsakir þess, að afkoman er svo miklum mun betri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og tekjuafgangurinn óvenjulega ríflegur.

Hæstv. fjmrh. hefur að vísu svarað þessari spurningu að verulegu leyti, en ég mun þó ræða þetta atriði nokkuð.

Útgjöld ríkissjóðs á rekstrarreikningi síðastl. ár hafa numið 21,6 millj. kr., en árið 1939 námu þau 19,5 millj. kr. og árið 1938 kr. 17,8 millj. Útgjöld síðasta árs hafa því verið um 2 millj. kr. hærri en rekstrarútgjöld ríkissjóðs árið 1939, og 3,7 millj. kr. hærri en árið 1938.

Að vísu er það auðsætt þegar af þessum tölum, að tekjuafgangurinn á ekki rætur sínar að rekja til lækkunar á heildarútgjöldum ríkissjóðs, þar sem þau fara ört hækkandi. Þó er rétt, að þetta atriði sé athugað nánar, vegna þess að talsverð útgjaldahækkun hefur orðið vegna styrjaldarinnar, og skiptir því máli í þessu sambandi, hvort eldri útgjöld ríkissjóðs hafi verið lækkuð til þess að mæta nýjum hækkunum.

Ég hef kynnt mér nokkuð, hversu þessu er háttað, og þó sérstaklega hvaða útgjaldaliðir það eru, sem á árinu 1940 eru lægri en þeir voru árin 1938 og 1939. Við þessa athugun hefur komið í ljós, að aðeins örfáir útgjaldaliðir hafa orðið lægri vegna niðurskurðar árið 1940 en hin tvö fyrrnefndu ár, og eru þessir liðir helztir: Tillag til Byggingar- og landnámssjóðs hefur verið lækkað um 75 þús. kr., tillag til Eimskipafélags Íslands hefur verið lækkað um 82 þús. króna, tillag til verkfærakaupasjóðs um 35 þús. og tillag til fiskimálasjóðs hefur lækkað um 200 þús. kr. miðað við árið 1939, en 300 þús. kr. miðað við 1938.

Þetta eru því í aðalatriðum þær lækkanir, sem gerðar hafa verið árið 1940, miðað við það, sem áður var og nokkru máli skiptir. Má vera, að einhverjir smærri liðir hefðu getað talizt hér með, en þeir eru þá svo smáir, að ekki tekur að telja þá upp.

Á móti þessum lækkunum koma svo ýmsir nýir útgjaldaliðir, er komið hafa til sögunnar eða hækkað á árinu 1940, enda þótt þeir standi ekki í sambandi við styrjöldina. Hirði ég eigi að telja þá upp, en drjúgum munu þeir vega á móti þeim útgjaldaliðum, er niðurskornir hafa verið og greindir voru áður.

Þá er og rétt að geta þess, þótt það verði ekki beinlínis til niðurskurðar talið, að útgjöldin til strandferða ríkissjóðs hafa nær horfið á árinu 1940. Stafar þetta sumpart af því, að nýja Esja hefur reynzt mjög hagkvæm í rekstri, og sumpart af hækkunum á far- og farmgjöldum strandferðaskipanna. Einnig kemur hér til greina, að Súðin hefur, vegna utanlandssiglinga, verið rekin með ágóða á árinu í stað taps áður. Hefur rás viðburðanna mestu ráðið um það, að þessi útgjaldaliður hefur horfið.

Þá hefur framlagið til landhelgisgæzlu lækkað um ca. 150 þús. kr., sem sumpart stafar af minnkaðri landhelgisgæzlu og sumpart af því, að annað varðskipið hefur verið leigt til fiskveiða- með mjög verulegum ágóða.

Það liggur því fyrir, að útgjöld ríkisins hafa ekki lækkað frá því, sem verið hefur, þótt frá séu teknar hækkanir vegna stríðsins.

Það verður ljóst af því, sem sagt hefur verið, að hinn mikli tekjuafgangur á rætur sínar eingöngu að rekja til þess, hve tekjur ríkissjóðs hafa far ið fram úr áætlun. Mun aðeins eitt dæmi til þess, að tekjur ríkissjóðs hafi farið jafnmikið fram úr áætlun, og það var árið 1924, þegar þær voru áætlaðar 8 milljónir, en reyndust 16 milljónir.

Vil ég þá fara nokkrum orðum um ríkistekjurnar og aðdragandann að þeirri gífurlegu aukningu, sem nú hefur orðið á þeim.

Árið 1934 var tekjuhalli á rekstri ríkissjóðs, sem nam um 1,8 millj. króna. Á því ári byrjuðu Spánverjar að loka saltfisksmarkaði okkar, þótt eigi kæmi þá þegar verulega að sök. Næstu ár eftir voru á margan hátt mjög örðug, og er óþarfi að rifja upp þá sögu enn einu sinni. Hún hefur svo oft verið sögð. Innflutningurinn fór minnkandi, einkum á hátolluðum vörum, og verzlunarviðskipti landsins við útlönd námu í heild árlega aðeins 100–120 millj. króna. Jafnframt varð ríkissjóður að taka á sig þungar byrðar vegna atvinnuleysisins og margháttaðra fjárhagsvandræða í landinu, og þar að auki á sama tíma framlög til nýrra atvinnugreina. Samtímis þessu varð að snúast við því að stöðva tekjuhallarekstur ríkissjóðs. Til þess að mæta öllu þessu varð óhjákvæmilegt að gerbreyta tolla- og skattakerfi landsins. Til þess að afla ríkissjóði nægilegra tekna varð að hækka skattstigana, vegna þess hve tekjur almennt lækkuðu, og tolla á ýmsum aðfluttum varningi var óhjákvæmilegt að hækka, til þess að vega upp tolltapið, er fram kom vegna takmörkunar á innflutningi. Enda þótt heildartekjur ríkissjóðs, eða sjálf skattabyrðin, ykjust ekki verulega, þá hækkuðu skattstigar og tollstigar.

Smátt og smátt komst skatta- og tollalöggjöfin á þessum árum í það horf, að hún tryggði ríkissjóði, þrátt fyrir margháttaða erfiðleika, nægilegar tekjur til þess að standast útgjöldin og hafa þó talsverðan afgang árlega til afborgana af skuldum. Þannig var tekjuafgangur ársins 1938 kr. 1,76 millj.

Það var öllum ljóst, að undireins og árferði batnaði og tekjur landsmanna ykjust frá því, sem verið hafði um nokkurt árabil, þá mundu tekjur ríkissjóðs, að óbreyttri tolla- og skattalöggjöf, aukast stórkostlega. Skatta- og tollalöggjöfin var miðuð við að afla ríkissjóði nægra tekna í mjög erfiðum árum og undir þeim kringumstæðum, að innflutningi ýmissa neyzluvara væri haldið í lágmarki.

Eftir að þjóðstjórnin var mynduð, árið 1939, voru samin fjárlög fyrir árið 1940. Gerðu menn sér þá að sjálfsögðu ljóst, hvers við mundi þurfa um skatta- og tollaálögur. Á því þingi var samþykkt ný tollalöggjöf, sem miðuð var við, að ríkissjóður hefði eigi minni tolltekjur en áður var, og þar með raunverulega framlengd öll gildandi tollaákvæði. Jafnframt voru framlengd öll ákvæði um beina skatta, er áður höfðu gilt. Í hinni nýju tollalöggjöf var gerð sú breyting frá eldri ákvæðum, að verðtollur skyldi reiknast af verði varanna að viðbættum flutningskostnaði til landsins. En fjármálaráðherra var jafnframt heimilað að reikna eigi toll af hærri flutningsgjöldum en tíðkuðust fyrir styrjöldina.

Í reyndinni mun nýja tollskráin hafa gefið ríkissjóði meiri tekjur en eldri tollákvæði hefðu gert. Veldur því hækkun flutningsgjaldanna á síðastl. ári, eða réttara sagt eftir að stríðið skall á.

Þannig er forsaga þeirrar skatta- og tollalöggjafar, sem á síðastl. ári hefur aflað ríkissjóði hinna miklu umframtekna, og þarf engan að undra, þótt tekjur ríkissjóðs yxu drjúgum, þegar þess er gætt, að tekjulöggjöfin öll er miðuð við öflun nægilegra tekna í ríkissjóð við allt önnur og gerólík skilyrði en þau, er fyrir hendi voru á síðastl. ári. Þannig hefur inn- og útflutningur á árinu 1940 numið um 200 millj. króna samtals, í stað 100–120 millj. kr. undanfarin ár, og öll innanlandsviðskipti aukizt stórkostlega og þjóðartekjurnar væntanlega vaxið í hlutfalli við þessar tölur, og vel það. — Í þessu sambandi má geta um það, að þrátt fyrir mikla erfiðleika við að ná í vörur hefur innflutningur ýmissa hátollaðra vara aukizt.

Sem dæmi um þróun viðskiptanna yfirleitt má nefna, að ágóði af tóbakseinkasölunni hefur numið síðastl. ár 1,45 millj. kr., í stað 660 þús. árið 1939, og ágóði áfengisverzlunar ríkisins hefur hækkað úr 1,825 millj. kr. í 2,641 millj. króna.

Á heimsstyrjaldarárunum 1914–1918 og næstu árum þar á eftir var fjárhagur ríkissjóðs mjög bágborinn. Ríkissjóður var rekinn með halla ár eftir ár og vanrækt að afla fjár til þess að standast gjöldin. Reyndist þessi hallarekstur ríkissjóðs hættulegur afkomu þjóðarinnar í heild á því tímabili. Eins og nú horfir ætti ekki að vera hætta á því, að sú saga endurtaki sig, og veldur því tolla- og skattalöggjöf sú, sem komið hafði verið á áður en þessi styrjöld hófst. Ætti að vera auðvelt að koma í veg fyrir slíka þróun, eins og nú horfir að minnsta kosti, og ættu menn að minnast þessarar reynslu frá síðasta stríði, jafnframt því sem menn endurskoða nú á þessu Alþingi þá löggjöf, sem tekjur ríkissjóðs eru byggðar á.

Þegar litið er á áhrif stríðsins á hag ríkissjóðs, þá verður eigi annað sagt en að þau hafi verið mjög hagstæð enn sem komið er. Tekjur hafa aukizt stórkostlega og nokkur lækkun orðið á sumum gjaldaliðum, vegna stríðsins, eins og t. d. tillagi til strandferða og landhelgisgæzlu. Hins vegar hafa ýmsir útgjaldaliðir að sjálfsögðu hækkað allverulega af sömu orsökum, t. d. laun embættismanna, vegna verðlagsuppbótarinnar, en heildarhækkun útgjaldanna nemur þó ekki neitt svipaðri fjárhæð og aukning teknanna.

Ríkissjóður hefur ekki orðið fyrir neinum sérstökum óhöppum af völdum styrjaldarinnar, og vegna hins óvanalega góðæris og hagstæða atvinnuástands hefur áreiðanlega verið minni ánauð um fjárframlög úr ríkissjóði en nokkru sinni fyrr á síðari árum, og getur vel orðið svo enn um skeið.

Hins vegar er áríðandi, að menn geri sér grein fyrir því nú þegar, að eftir styrjöldina má búast við, að þetta viðhorf breytist gersamlega, — þá má gera ráð fyrir, að tekjustofnarnir bregðist og að um leið aukist þörfin fyrir framlög úr ríkissjóði, til þess að mæta atvinnuþörf landsmanna og til þess að styðja margs konar framfarir, sem óhjákvæmilegt verður að hrinda í framkvæmd að styrjaldarlokum.

Mun ég víkja að þessu síðar í sambandi við afkomuhorfur á þessu ári og ráðstafanir í því sambandi.

Í fjárlagafrumv. fyrir árið 1942, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir um 21 millj. króna, útgjöldum á rekstrarreikningi, og er það um hálfri millj. lægri fjárhæð en gjöldin reyndust árið 1940, en rúmlega 3 millj. meira en rekstrarútgjöldin árið 1938 og um 1,6 millj. kr. hærra en þau reyndust 1939.

Að sjálfsögðu má þó gera ráð fyrir, að gjöldin reynist hærri en ráð er fyrir gert í frumvarpinu, en þó verður í raun réttri engu spáð um viðhorfið á árinu 1942.

Annars er ekki veruleg ástæða til þess að gera fjárlagafrumvarpið fyrir 1942 að umræðuefni, eins og það liggur fyrir, þar sem útgjaldahlið þess mun í höfuðdráttum vera eins og gildandi fjárlög og fjárlögin fyrir árið, sem leið, að því undanskildu, að gert er ráð fyrir nokkrum hækkunum vegna aukinnar dýrtíðar og hækkunar á verðlagsuppbót starfsmanna.

Samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir, að útgjöld síðustu ára standi yfirleitt óbreytt, að viðbættum hækkunum vegna styrjaldarinnar og talsvert auknum kostnaði við almenna starfrækslu ríkisins.

Sérstök ástæða er til þess að taka það fram, að óhjákvæmilegt virðist að hækka framlög til verklegra framkvæmda, t. d. vegamála, sem svarar auknum kostnaði við framkvæmdir. Séu sömu upphæðir veittar til þessara framkvæmda nú eins og verið hefur, þá eru framlögin raunverulega lækkuð frá því, sem þau eru nú.

Framsóknarmenn munu beita sér fyrir hækkuðum framlögum til atvinnuveganna í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna fyrir 1942, ekki sízt til nýbýlaundirbúnings og ræktunar yfirleitt og endurbyggingar sveitabæja, en ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þau atriði nánar, en kem að þeim síðar í öðru sambandi.

Annars hljótum við að gera ráð fyrir, að endurskoðuð verði í ársbyrjun 1942 þau fjárlög, sem nú eru samin, — svo langt er frá því, að Alþingi hafi nú í raun réttri nokkra hugmynd um, hvað henta muni því ástandi, sem þá verður komið á.

Þá vil ég víkja nokkuð að fjármálahorfum á þessu ári og þeim viðfangsefnum, sem skapazt hafa vegna þess, hve allt viðhorf hefur gerbreytzt frá því að Alþingi, sem sat snemma á árinu 1940, gekk frá fjárlögum fyrir þetta ár, og annarri löggjöf, sem snertir afkomu ríkissjóðs.

Á þessu þingi verður skattalöggjöfin endurskoðuð. Fyrst og fremst verður að gerbreyta þeim lögum, sem nú eru í gildi um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja. Breytingin verður að vera fólgin í því, að útgerðarfyrirtæki og útgerðarmenn greiði skatta og útsvör til jafns við aðra landsmenn, en að útgerðinni verði um leið gert kleift að nota það tækifæri, sem nú gefst, til þess að greiða upp gömlu töpin og safna nokkrum varasjóðum til þess að standast þau töp, sem því miður munu óhjákvæmileg verða að stríðslokum, og til þess að endurnýja skipastólinn. Jafnframt verður að gera breytingar á skattalöggjöfinni, sem hindri, að beinu skattarnir þyngist á mönnum með vaxandi dýrtíð og lækkandi verðgildi peninga, miðað við verðlag. Fyrst og fremst ber að hækka verulega persónufrádráttinn frá því, sem nú er. Væri og sanngjarnt, að skattar á miðlungstekjur og minni yrðu lækkaðir, þar sem skattar á þeim tekjum, sem nú mega teljast í meðallagi, hafa verið talsvert háir undanfarin ár, vegna fjárhagsörðugleika þjóðarinnar. Þá er loks tvímælalaust rétt og sanngjarnt að lögleiða stríðsgróðaskatt á hæstu tekjurnar eftir að tillit hefur verið tekið til rekstrartaps útgerðarinnar undanfarin ár og stofnað til eðlilegra varasjóða.

Enn fremur er nauðsynlegt að athuga tollalöggjöfina með tilliti til þess, hve allar ástæður hafa nú gerbreytzt síðan hún — var lögleidd, þó eigi sé nema rúmt ár síðan. Ber þá sérstaklega að athuga, hvort eigi er tímabært að lækka eða fella niður tolla á brýnustu nauðsynjavörum, og yrði það þá einn liðurinn í þeim ráðstöfunum, sem Alþingi hlýtur að gera til þess að vinna gegn dýrtíðinni í landinu. Þá virðist sjálfsagt, að eigi sé lengur innheimtur verðtollur af þeirri hækkun á farmgjöldum, sem stafar af styrjöldinni.

Á slíkum tímum, sem nú eru, hlýtur Alþingi að setja markið miklum mun hærra um afkomu ríkissjóðs en á venjulegum tímum. Ekki er við annað unandi en að verulegur hluti af þeim stríðsgróða, sem þjóðinni hefur borizt, verði notaður til þess að bæta fjárhag ríkisins og til þess að gera ríkissjóði kleift að leggja fram mikið fé til nytsamlegra framkvæmda í þágu alþjóðar, þegar tímabært verður.

Það er nú þegar auðséð, að eftirköst styrjaldarinnar hljóta að verða alvarleg fyrir Íslendinga. Sá uppgangur, sem nú hefur orðið um skeið, á sér tvær meginorsakir: hátt fiskverð og margs konar viðskipti við setuliðið, sem hér dvelur.

Allir muna enn, hversu hér var ástatt um fiskverzlun og fiskframleiðslu fyrir rúmu ári síðan. Það má nú hiklaust gera ráð fyrir, að þegar stríðinu er lokið og fiskveiðar hefjast almennt á ný, þá sæki í sama horfið í þeim efnum. Geta menn þá gizkað á afleiðingarnar, þegar þess er gætt, hvert kaupgjald verður þá orðið hér á landi, eftir því, sem horfir í þeim málum.

Allir vonumst við eftir því, að hernám landsins eigi sem skemmstan aldur og að sá tími komi, að enginn erlendur her dvelji á Íslandi. Hins vegar þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að við brottför setuliðsins falla niður margs konar viðskipti og atvinna, sem ýmsir byggja á eins og nú standa sakir.

Undanfarið hefur verið margt og mikið talað um flutning fólks í bæi og kauptún úr sveitum landsins. Aldrei hefur meiri hætta verið slíkum flutningi samfara en einmitt nú. Það er beinn þjóðarvoði, ef menn yfirgefa nú staðfestu sína í sveitum landsins, flykkjast til sjávar og ætta sér að byggja framtíð sína á þeirri bráðabirgðavelgengni, sem nú er svo mikið talað um og byggð er á háu þorskverði, sem allt í einu hríðlækkar, og Bretavinnu, sem vonandi hverfur fyrr en varir, vegna brottfarar setuliðsins.

Það verður að vinna gegn þessari þróun með ýmsu móti, og m. a. með miklu stórfelldari átökum í nýbýla- og ræktunarmálum, bæði í sveitunum sjálfum og við sjávarsíðuna, en áður hafa þekkzt hér á landi, þótt mikið hafi verið að gert áður.

Að því leyti, sem ekki er unnt að koma slíkum ráðstöfunum beint í framkvæmd nú, vegna skorts á vinnuafli og efni, verður að safna fé til þeirra af stríðsgróðanum og þeirri peningagnægð, sem fyrir hendi er. Unga fólkið í landinu verður að vita það nú þegar, að ætlunin er að sinna nýju landnámi svo um munar, og þá er hægt að ætlast til þess af því, að það láti ekki stundarhagnað þann, sem nú er fáanlegur, trufla framtíðarfyrirætlanir sínar.

Stríðsgróðann verður að festa, til þess að ríkissjóður verði þess megnugur að leggja fram að lokinni styrjöldinni verulega fjármuni í þá baráttu, sem þá verður háð gegn atvinnuleysi og erfiðleikum og til þess að koma á jafnvægi eftir það umrót og los, sem styrjöldin og hernám landsins virðist ætla að hafa í för með sér.

Þá er ekki annað sjáanlegt en að styrjaldarárin verði að mörgu leyti kyrrstöðuár. Allar horfur eru á því, að nýsköpun í atvinnumálum verði lítil og að fjármunir muni í þess stað safnast fyrir sem innieignir erlendis. Má þá nærri geta, hvers við muni þurfa um öflun nýrra atvinnutækja og almennar framfarir, þegar þessu tímabili lýkur.

Verði því tækifæri sleppt, sem nú er fyrir hendi til þess að efla sjóði af stríðsgróðanum og því fjármagni, sem nú er í umferð yfirleitt, þá verður ríkissjóður févana, þegar til á að taka, og það af þeirri einföldu ástæðu, að þegar kreppan byrjar, lækka tekjur ríkissjóðs, einmitt þegar framlaga hans verður mest þörf.

Nú vill svo vel til, að skatta- og tollalög þau, sem í gildi eru, minnka mjög líkurnar fyrir því, að Alþingi vanrækti þetta tækifæri, og þar að auki virðist vaxandi skilningur á því, að breyta þurfi skattalöggjöfinni, til samræmis við breyttar ástæður og að festa beri verulegan hluta stríðsgróðans til sameiginlegra þarfa og til þess að koma þjóðnytjamálum í framkvæmd.

Hljóti skattamálin sómasamlega lausn á þessu þingi, svo sem verður að vera, ætti fjárhagsafkoma ríkissjóðs að verða enn betri á. þessu ári en 1940, — ef ekki henda einhver alveg sérstök óhöpp. Er auðséð, hvers vænta má, þegar þess er gætt, að á þessu ári verða á lagðir og innheimtir beinir skattar af tekjum ársins 1940, og um leið hins, hver afkoma ríkissjóðs var árið 1940, enda þótt tekjuaukning þess árs ætti rætur sínar að rekja nær eingöngu til hækkana á tollum og einkasölutekjum. Hækkun á tekjum vegna beinu skattanna er því nær alveg ókomin fram enn.

Eins og nú háttar um rekstur atvinnuveganna og horfur eru um atvinnu yfirleitt, er ekki ástæða til þess að auka framlög til verklegra framkvæmda á þessu ári, nema þá til samræmis við kauphækkanir. Hins vegar væri réttmætt að gera einstakar undantekningar vegna sérstaklega áríðandi framkvæmda, þar sem nægilegt fé er fyrir hendi, svo sem vegalagninga á nokkrum stöðum, þar sem koma þarf heilum byggðarlögum í samband við mjólkurbú o. s. frv., en gæta verður þess vandlega, að opinber vinna dragi vinnuaflið ekki um of frá framleiðslustörfum um hásumartímann.

Rekstrarafgangur ríkissjóðs á þessu ári verður því mjög mikill, ef að líkum lætur. Ég álít því rétt og nauðsynlegt, að á þessu Alþingi verði sett sérstök lög um ráðstöfun þeirra umframtekna, sem. fyrirsjáanlegar eru á þessu nýbyrjaða ári. Mér finnst, að ákveðinn hundraðshluti af umframtekjunum ætti að leggjast í sérstakan sjóð, til þess að standast kostnað við þau framfaramál, sem efst hljóta að verða á baugi með þjóðinni, þegar tímabært þykir að hefjast handa um framkvæmdir yfirleitt. Vil ég í því sambandi enn nefna nýbýlamálið og ræktun við kauptún og kaupstaði, — nýtt landnám í sveit og við sjó, — endurbyggingu sveitabæja, rafmagnsmál sveitanna, sandgræðslu og skógrækt, endurnýjun bátaflotans og skipaflotans, efling fiskimála- og fiskveiðasjóðs, rannsóknir á náttúruauðæfum landsins og skilyrðum til þess að hagnýta þau. Mætti fleiri telja, en þessi eru þau mál, er að mínum dómi hljóta að eiga að ganga fyrir, og sum hefur verið aðkallandi að leysa nú um mörg ár, en fjármagn skort til þess að taka á þeim sem skyldi.

Þeim hundraðshluta af umframtekjum ríkissjóðs, sem ekki gengi til þessara framkvæmda, yrði varið til lækkunar á skuldum ríkisins. Þannig væri hið óvænta góðæri, sem nú er, notað jöfnum höndum til þess að bæta afkomu ríkissjóðs og undirbúa framtíðina.

Þannig væru ráðstafanir gerðar til þess, að hið gífurlega fjármagn, sem mönnum hefur í hendur borizt með alls óvæntu móti og í stærri mæli en nokkur dæmi eru til áður í sögu þjóðarinnar, verði ekki allt eyðslueyrir, heldur verði ríflegur hluti þess notaður til þess að bæta og fegra líf þjóðarinnar.