31.03.1941
Efri deild: 27. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

66. mál, eftirlit með sjóðum

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti! Það munu nú vera liðin 5 ár síðan eftirlitsnefnd þingsins með opinberum sjóðum tók til starfa, og hefur hún unnið að því árum saman að safna skýrslum um þá sjóði, sem hafa haft staðfesta skipulagsskrá frá konungi. Þeirri söfnun er nú lokið fyrir meira en ári síðan og er búið að skjalfæra þá sjóði, sem munu hafa fengið konunglega staðfestingu á skipulagsskrá, og eru þeir 452 talsins til ársloka 1939, og nærri hálf áttunda milljón það fé, sem í þeim er.

Það var svo komið, þegar byrjað var á þessu starfi n., að einstaka sjóðir voru að heita mátti gleymdir, og lá niðri starfsemi þeirra margra. Síðan byrjað var á þessari skýrslusöfnun, hefur að ýmsu leyti batnað skipulagið á sjóðunum, og munu þeir, að ég hygg, allir vera farnir að starfa nú samkvæmt starfsskrám sínum.

Þó að þessir sjóðir séu margir, þá eru aðrir fleiri gjafasjóðir til, sem ekki hafa fengið neina staðfesta skipulagsskrá og eru því verr komnir en hinir, sem skipulagsskrár hafa fengið. Stjórn þeirra nokkurra er í handaskolum, og fyrirmæli eru því nær engin frá gefendum þeirra um það, hvernig starfsemi þeirra skuli háttað. Sjóðir þessir liggja hjá stofnunum og einstaklingum úti um land, og starfsemi þeirra mun vera lítil eða engin. Einstaka slíkir sjóðir munu vera horfnir. Ýmsir aðrir þeirra eru að gleymast, þó að féð sé fyrir hendi, eða lítur út fyrir, að þeir muni gleymast.

Nú var einum manni úr eftirlitsn. falið að athuga, hverjir sjóðir þessir væru. Það kostaði mikinn tíma, og ekki var hægt að gera eftir þeirri athugun nema bráðabirgðayfirlit. En tala slíkra sjóða, sem víst var um, voru 344 sjóðir, sem þegar hafa verið skrásettir af eftirlitsn., og eru á þriðju milljón eignir þessara sjóða.

Við, þeir þdm. Ed., sem sæti eigum í eftirlitsn., komum með frv. um breyt. á 1. frá 1935 um eftirlit með sjóðum, er fengið hafa konungsstaðfestingu á skipulagsskrá, þess efnis, að hinir aðrir sjóðir, sem ekki hafa fengið konungsstaðfestingu á skipulagsskrá, en ættu eftir eðli sínu að hafa hana, kæmu einnig undir eftirlit þessarar sömu n. Ætlunin með þessu er alls ekki sú að fara að rugla þar neitt um vilja gefenda slíkra sjóða eða breyta til um þá starfsemi, sem þessir sjóðir, samkvæmt till. gefenda, eru farnir að hefja, heldur að líta eftir, að þeir geti framkvæmt þá starfsemi, sem þeim. var upphaflega ætlað. Fyrir þá, sem ætla að stofna slíka sjóði, teljum við það tryggingu fyrir réttri meðferð þeirra, að ríkið geri eitthvað til þess að fylgt sé starfsreglum þeim, sem gefendur þeirra ætlast til að sjóðirnir fylgi. Með því móti er áreiðanlegt, að ýmsir, sem annars af ótta við glundroða í meðferð slíkra sjóða hikuðu við að gefa fé til þeirra, munu frekar gefa fé til þeirra hugðarefna, sem þeir hafa áhuga á og vilja styrkja.

Með þessu frv. er ekki ætlazt til að taka undir eftirlit sjóði félaga, sem þau kynnu að hafa stofnað og starfrækja enn, svo sem sjóði verklýðsfélaga, sem miða að kjarabótum, eða styrktarsjóði, sem félög stofna fyrir sína félaga, heldur sjóði, sem stofnendurnir eru búnir að láta hverfa frá sér og flestir eru komnir í annarra hendur.

Hér í frv. eru sett fyrirmæli um það, að þeir menn eða stofnanir, sem hafa þessa sjóði undir höndum, sem nú á að bæta undir eftirlitið, semdi fyrir lok ársins 1941 gjafabréf eða stofnskrá, svo að þá þegar væri hægt að taka þá undir eftirlitið.

Í 1. gr. hefur fallið úr ákvæði, sem þar átti að vera, um það, að eftirlitsmenn skuli á ári hverju senda Alþingi og fjármálaráðun. skýrslu um sjóði þessa. Munum við bera fram brtt, við frv. um þetta. Okkur þykir það of mikið verk að semja árlega skrá yfir alla sjóðina, þó að einstöku sinnum verði að gera það.

Ég vonast til þess, að hv. þd. sjái, að það er nauðsyn á þessari breyt. á l., sem frv. fjallar um, og muni því taka þessu máli vel. Vil ég svo óska þess, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til allshn., þar sem einn af eftirlitsnm. á sæti í þeirri n.