29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Fjhn. hefur nú athugað þetta frv., og, eins og sjá má á nál. hennar á þskj. 277, mælti hún með því með lítils háttar breyt.

Þetta frv. miðar að því að ráða nokkra bót á launakjörum hreppsnefndaroddvita, og álítur fjhn., að það sé hin mesta þörf á því að gera svo, því að það er vitanlegt, að störf hreppsnefndaroddvita aukast ár frá ári, og meðfram vegna löggjafar, sem kemur frá Alþingi, og annarra ráðstafana. Það er t. d. ekki lítið, sem störf hreppsnefndaroddvita hafa aukizt við matvælaskömmtunina, sem var tekin upp í stríðsbyrjun.

Laun þessara starfsmanna hafa verið lítil og voru ákveðin fyrir 14 árum þannig, að þau skyldu vera 5 kr. fyrir hvern fullan tug hreppsbúa og önnur ekki. En víða hefur það verið svo, að hreppsnefnd hefur með samþykki hlutaðeigandi sýslunefndar ákveðið hreppsnefndaroddvitanum innheimtulaun af útsvörunum, og hefur það bætt töluvert úr skák.

Þetta frv. gengur út á það að hækka hin föstu laun hreppsnefndaroddvita um helming, þannig að þau verði 10 kr. á ári fyrir hvern fullan tug hreppsbúa, en auk þess skuli greiða þeim 2% af innheimtum útsvörum. Nú er fjhn. kunnugt um það, að einstaka oddvita hafa áður af hreppsnefnd og með samþykki hlutaðeigandi sýslunefndar verið ákveðin hærri innheimtulaun en 2%. Með því að samþykkja frv. óbreytt, gat því farið svo um suma oddvita, að kjör þeirra bötnuðu ekki neitt, því þó að fasta þóknunin hækki um helming, þá kynni hundraðshlutinn af útsvörunum að lækka, ef skilja mætti þetta ákvæði í 1. gr. frv. um 2% þannig, að þetta væri fast gjald. Það skyldi greiða 2%, hvorki meira né minna.

Þessi litla breyting, sem fjhn. ber fram, er þá aðeins um það, að auk þess sem launin eru hækkuð upp í 10 kr. fyrir hvern fullan tug hreppsbúa, beri oddvitum minnst 2% af útsvörunum í innheimtulaun. Það verður þá eins og áður að því leyti, að það verður komið undir samningum við hreppsnefndina og hlutaðeigandi sýslunefnd, hvort oddvita verður greitt meira en 2%. Vildi n. koma í veg fyrir, að þetta væri skilið sem hámark.

Verði frv. að l. með þessum breyt., þá ber að greiða oddvitanum 10 kr. fyrir hvern fullan tug hreppsbúa og 2% af innheimtum útsvörum, ef ekki eru ákveðin hærri innheimtulaun.