02.05.1941
Efri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Jónsson:

Ég er nú afar hræddur um, að jafnvel með þeirri nýju viðbót, sem felst í skrifl. brtt. hv. 1. þm. N.-M., standist brtt. á þskj. 318 illa, því að eftir orðanna. hljóðan á sá, sem innheimtir, að hafa bæði launin og innheimtuþóknunina, sem eru þessi 2%, því að það stendur þannig í frv., ef brtt. bætist aftan við : „Oddviti skal hafa að launum um árið 10 kr. fyrir fullan tug hreppsbúa, og auk þess minnst 2% — tvo af hundraði — af innheimtum útsvörum, sé hann innheimtumaður, ella sá, sem innheimtuna annast“.

Það er alveg rétt hjá hv. frsm., að ég er sammála um tilganginn með orðalagi 1. gr. frv. Það er rökrétt, að oddvitanum ber þetta fyrir full oddvitastörf. En ræki hann þau ekki öll, hvað þá? (BSt: Það verður samkomulag). Nú má fela öðrum bréfaskriftir og fjallskil, og á þá sá, sem það gerir, ekki að fá neitt fyrir það? Nei, ég skil það þannig, að oddvitanum ber 10 kr. og 2% af innheimtum útsvörum. Eigi að losa hann við eitthvað af þessum störfum, hlýtur það að vera algert samkomulag. Það er oddvitinn, sem einn hefur þá borgaralegu skyldu að sjá um, að þessi störf séu innt af hendi, en feli hann það öðrum, hvort sem það eru skriftir, innheimta eða annað, ber honum að borga það, og hlýtur það alltaf að verða eftir samkomulagi, hvað hann borgar fyrir það. Ef mönnum líkar eitthvað illa við hann, þá skeður ekkert voðalegra en það, að hann hefur þessar krónur þangað til kosið verður næst. Ég hafði skilið þetta svo, að ef ágreiningur yrði um þetta, þá hefði oddvitinn þessa innheimtu. En í flestum tilfellum er það auðvitað samkomulagsmál. Ég er á móti því að taka það beinlínis fram, að þessi 2% skuli fara til þess manns, sem er falið Þetta sérstaka starf oddvitans. Er sérstök ástæða til að taka þetta fram um þetta sérstaka starf? En svo þar að auki held ég, að hv. þm. verði að bæta um brtt. sína, ef hún á að verða tvímælalaus.