06.05.1941
Efri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

80. mál, búreikningaskrifstofa ríkissins

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Frv. þetta um búreikningaskrifstofu ríkisins, sem nú er hér til 2. umr., var flutt af landbn. Nd., var samþ. óbreytt í Nd. og er nú hingað komið. Landbn. hefur orðið sammála um að mæla með, að frv. nái fram að ganga, en þó með nokkrum breyt., fyrst og fremst vegna þess, að eins og frv. barst hingað til d., var það ósamrýmanlegt eldri l., því að í 1. gr. 1. frá 1936, sem látið var óbreytt, var svo ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands skyldi leggja skrifstofunni til nauðsynlegt starfsfé, en í 2. gr. samkv. frv. er svo skipað fyrir, að ríkissjóður skuli greiða þetta tillag. N. sá, að þessu varð að kippa í lag, og leggur því til, að 1. gr. frv. verði breytt þannig, að hún verði í samræmi við 1. gr. l., og fyrst koma varð með breytingar, töldum við einnig rétt að setja hámark á þá upphæð, sem greiða skal til þessarar skrifstofu, og leggjum til, að það verði 5 þús. kr.

Ég verð að segja það frá mínu brjósti, að ekki sé neitt nauðsyn nú frekar en aðra tíma til að safna búreikningum, nema síður sé, því að þótt búreikningum sé safnað nú, þá er nú svo hagað um flesta hluti, að þeir búreikningar, sem gerðir væru á þessum tímum, væru ekki eins sterkur grundvöllur fyrir seinni tíma útreikning eins og ef þeir væru gerðir á venjulegum tímum, en samt sem áður töldum við, af því að allur kostnaður eykst nú mjög mikið, að rétt væri að hækka framlagið til þessarar skrifstofu upp í allt að 5 þús. kr., því að við gerðum ráð fyrir, að annaðhvort hætti skrifstofan að starfa eða hún eyði sem svarar þessu fé.

Ég skal taka fram, að niður hefur fallið ein lína úr till. okkar, sem þar átti að sjálfsögðu að vera, sem sé: 4. gr. laganna orðist svo. — Við töldum óþarft að fara að leggja í þann kostnað að bera fram brtt. um það á sérstöku þskj., og ef enginn mælir því í gegn, þá megi skoða slíkt sem leiðréttingu.

Þá berum við fram brtt. við 2. gr. Eins og frv. er nú, þá er gert ráð fyrir, að búreikningaskrifstofan hafi eftirlit með skólabúum og öðrum ríkisbúum, og eftir því virðist óhjákvæmilegt, að sá, sem stendur fyrir þessari skrifstofu, ferðist á milli búanna, og yrði hann þá að fá ferðakostnað, en það töldum við ekki rétt og vildum, að hann hefði aðeins með höndum endurskoðunareftirlit með reikningum búanna, sem væru sendir á skrifstofuna. Þetta vildum við, að kæmi skýrt fram, svo að ekki yrði neitt þref út af því, að ætlazt væri til, að greiddur væri ferðakostnaður til forstöðumanns skrifstofunnar.