30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

99. mál, sjómannalög

Gísli Guðmundsson:

Það er viðvíkjandi ræðu hv. þm. V.-Húnv., að ég vildi segja hér nokkur orð. Það var út af ályktun fiskiþings. Það mál hefur verið til athugunar í sjútvn., og hef ég þar sérstaklega athugað um heilbrigðisvottorð sjómanna. Fiskiþing skorar sem sé á Alþ. að setja ákvæði um, að berklaskoðun fari fram sjómönnum a. m. k. einu sinni á ári. Málið hefur verið rætt við landlækni, og hann hefur ráðfært sig við berklayfirlækni. Nú í dag sendi landlæknir sjútvn. bréf um þetta, þar sem hann segir, að í berklavarnarl. sé heimild fyrir slíkri skoðun og tekur fram í bréfinu, að honum og berklayfirlækni hafi komið saman um að leggja til, að þetta yrði gert, að svo miklu leyti sem það er framkvæmanlegt. Ég tel því, að þetta atriði málsins sé í góðum höndum og hef þess vegna ekki flutt brtt. þá, sem ég hafði gert ráð fyrir að flytja. — Mál þetta hefur ekki verið til meðferðar í sjútvn. síðan bréfið kom frá landlækni.

Ég tel, að það gerði ekki svo mikið til, þótt málið yrði ekki afgreitt á þessum fundi, því ég sé, að ýmis mál, mjög mikilvæg, eru ekki komin lengra áleiðis en þetta mál.