29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Það er rétt hjá hv. þm., að aðeins meiri hl. sjútvn. flutti þetta frv., en meiningin var að fá n. alla til fylgis við það. Ég sem hvatamaður að því taldi nauðsynlegt, að frv. yrði afgr. sem fyrst frá sjútvn. En hv. þm. A.-Sk. var þá ekki í bænum, þegar umr. fóru fram í n., og samflokksmaður hans vildi fá að hugsa sig um. Þegar svo tíminn leið og hv. þm. A.-Sk. var lengur í burtu en við höfðum vænzt, fór ég fram á það við hv. samnm. mína, að n. flytti málið, en hv. þm. N.-Þ. var ekki enn þá búinn að ákveða sig í þessu efni. En sökum þess að mjög var nú liðið á þingtímann, sá ég ekki fært að fresta lengur að koma málinu á framfæri. Af þeirri ástæðu fluttum við 3 nm. frv., sem vorum frá upphafi ákveðnir í að láta það koma fyrir þingið. Að öðru leyti vil ég taka fram, að frv. þetta er flutt í samráði við hæstv. atvmrh., sem er yfirmaður þessarar stofnunar, og ástæðan fyrir flutningi þess er í fáum orðum þessi.

Félag það, sem hér er um að ræða, heitir Samábyrgð Íslands og er stofnað fyrir 30 árum. Í raun og veru var hér ekki um félagsskap að ræða, heldur ríkisstofnun, sem tók að sér frjálsar vátryggingar á minni og stærri fiskiskipum. Þá var skipastóll landsmanna lítið annað en árabátar og skútur. Starfssvið félagsins var þess vegna ekki mikið, enda byrjaði það með ekki neitt. Það barðist í bökkum nokkur fyrstu árin, og mjög lengi hefur fyrirtækið verið rekið þannig, að rekstrarhalli hefur verið á því. Þess vegna hefur það átt minna en ekki neitt og ekki átt fyrir skuldum. Þetta gat forsvarazt vegna þess, að fyrirtækið hafði ríkisábyrgð og mjög takmarkað verksvið, þar sem mjög margir af fiskibátum landsins voru alls ekki vátryggðir, og auk þess margir; sem ekki voru vátryggðir hjá Samábyrgðinni. En nú varð sú breyting á, að Samábyrgðinni var gert að skyldu að endurtryggja öll fiskiskip, allt að 250 smál. Af þessari ástæðu stækkaði verksvið fyrirtækisins mikið. Sökum þess að samkv. sínum l. hafði það ekki heimild til að bera meiri áhættu en sem svaraði 15 þús. kr. á hvert skip, var skiljanlegt, að mikinn meiri hluta þeirra varð að endurtryggja erlendis, þar sem ekki var til innlent félag, sem gæti tekið þar við. Til þess að geta fengið sæmileg kjör við endurtrygginguna, þarf félagið að geta sýnt endurtryggjanda, að áhættan sé ekki mikil, og líka þarf að sýna fram á það, að rekstur þess hafi gengið sæmilega undanfarið. Nú vitum við það, að vegna styrjaldarinnar er komið mikið rask á tryggingarmálin eins og annað. Samábyrgðin, sem að mestu leyti hefur endurtryggt í Danmörku, hefur orðið að skoða huga sinn, hvort tryggingar í herteknu landi muni vera öruggar og til frambúðar. Nú verðum við að útvega þessar tryggingar annaðhvort frá Englandi eða Ameríku, helzt í Englandi. En menn eru nú nokkuð hátt uppi með áhættuna á sjónum, og því ekki hægt að fá bærileg kjör hjá tryggingarfélögum fyrir fiskiskip. Eitt af því, sem gerði mögulegt að fá viðunandi kjör, er það, að hægt sé að sýna fram á, að áhættan sé ekki mjög mikil. Ef félagið eða stofnunin þarf að gefa skýrslu um, hvernig rekstur þess hefur gengið að undanförnu, og það kemur í ljós, að stofnunin hefur ekki borið sig fjárhagslega og á ekki fyrir skuldum, getum við ekki búizt við að fá góð kjör. Ég hef nú skýrt frá því hér, hvaða ráð Samábyrgðin verður að taka, til þess að koma væntanlegum samningsaðilum sínum á þá trú, að óhætt sé að endurtryggja með þeim iðgjöldum, sem nú eru.

Við skýrðum frá, að þetta væri ríkisfyrirtæki. Það eins og gefur því styrkari svip. Við vorum svo heppnir að geta sagt það líka, að tvö síðustu árin hafa gefið rekstrarafgang. Lengra gátum við ekki farið. Þetta er enn í samningum, og ég veit ekki, hve lengi það verður svo, en ef stofnunin væri spurð í dag, hvernig fjárhagur hennar sé, yrði að svara, að hún ætti varla fyrir skuldum. Það hafa ekki verið gerðir upp reikningar síðasta árs til fullnustu, en þeir sýna í fyrsta sinn, að félagið á fyrir skuldum. En það, sem af er þessu ári, hefur verið svo erfitt fyrir stofnunina, að enginn vafi er á, að eins og sum félögin hafa beinlínis orðið gjaldþrota eða réttara sagt komizt í greiðsluþrot, eins mun það standa svo í dag, að Samábyrgðin eigi ekki fyrir skuldum. Um leið og verður að viðurkenna þetta, er það víst, að það er óviðkunnanlegt, að tryggingarstofnun eigi ekki fram yfir skuldir. Það ber líka að líta á það, að stórum erfiðara er að fá bærileg kjör hjá endurtryggingarfélögum erlendis fyrir illa stætt fyrirtæki en vel stætt. Ég tel það nauðsynlegt fyrir Samábyrgðina að eignast stofnfé, og það er yfirsjón, að ekki var gert ráð fyrir því um leið og starfssvið hennar var aukið með bátaábyrgðarl. frá 1938. Úr þessu er verið að bæta með frv. því, sem fyrir liggur. Það er reynt að bæta úr því, að tryggingunni er gert að skyldu að tryggja öll fiskiskip landsins, án þess að fjárhagur hennar sé styrktur að neinu leyti.

Þó að Samábyrgðin hafi þessa ríkisábyrgð á 800 þús. kr., er það smátt, ef stóróhöpp ber að höndum. Það er líka óheppilegt, að ekki megi út af bera, án þess að leita þurfi á náðir ríkissjóðs. Loks er það nauðsynlegt, að Samábyrgðin sé það vel stæð, að hún geti hjálpað bátaábyrgðarfélögunum, ef þau ber upp á sker fjárhagslega.

Ég tel mér skylt að gefa þessar skýringar og aðrar, sem um er beðið. Hv. þm. A.-Sk. skýrði mér frá, að hann hefði ekki getað séð hag Samábyrgðarinnar nema til ársloka 1936, vegna þess að láðst hafði að birta reikninginn í Stjtíð. Ég gat nú ekki tekið reikninga félagsins upp fyrir þessi ár, en ég get sagt frá því, hvernig þetta hefur verið í aðalatriðum. Ég hefði viljað skýra frá þessu á sjútvn.fundi í morgun, en formaður n. þurfti að vera á 3 fundum fyrir hádegi, svo að nefndarfundur féll niður.

Árið 1936 var hagur Samábyrgðarinnar svo, að það vantaði kr. 65541 á, að hún ætti fyrir skuldum. Í árslok 1937 vantaði kr. 110700, 1938 kr. 70585, en í árslok 1939, sem er síðasta árið, sem birtur er reikningur um, vantar 2697 kr. á, að Samábyrgðin ætti fyrir skuldum. Það ár er bezta ár Samábyrgðarinnar. Veðurfar er sérstaklega hagstætt og þar af leiðandi lítið um skaða. Árið næstliðna hefur verið fremur gott ár, en eins og ég hef tekið fram, hefur þetta ár verið erfitt vegna óhagstæðs veðurfars og hækkandi verðlags. Þá hefur og útgerðin verið rekin með miklum. hagnaði, og því hafa komið alveg óþekktar kröfur til Samábyrgðarinnar fyrir óbeint tjón. Ég skal skýra það í fáum orðum. Þegar skip verður fyrir skaða af öðru skipi, þarf ekki aðeins að. greiða viðgerðarkostnað, heldur og óbeint tjón, vegna þess að skipið, sem hefur orðið fyrir skaða, getur ekki gengið til veiða. Þetta hefur skapað Samábyrgðinni mikil útgjöld nú, á meðan svo standa sakir, að mikill gróði er á útgerðinni. Eins líf er annars dauði í þessu efni.

Þá hef ég ekki fleiri skýringar að gefa, en ef einhver vill spyrja, mun ég reyna að leysa úr. Ég vil mælast til, að hv. þm. A.-Sk. haldi ekki

fast við ósk sína að stöðva málið og láta það fara aftur til n. Bæði er það ekki réttmætt, þó að einn þm. sé forfallaður, að stöðva málið þess vegna, og svo stendur svo sérstaklega á hér, að ekki er hægt að vita, hvað langur tími vinnst til að starfa að þingmálum hér eftir, en þetta mál er enn í fyrri d. og á eftir að ganga til Ed.

Ég þori ekki, af því að þetta er bráðnauðsynlegt mál, að eiga á hættu að tefja það neitt. Ég vil fara fram á, að það verði látið ganga áfram til Ed., og vona ég, að það geti orðið í góðu samkomulagi við hv. þm. A.-Sk.