02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Gísli Guðmundsson:

Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar málið var hér til 3. umr. fyrir nokkrum dögum. Það, sem ég vildi segja þá, var, að ég taldi það ekki rétt, sem stóð í frv., að það væri flutt af meiri hl. sjútvn. Að vísu eru það 3 menn af 5, sem eru flm., en málið hafði ekki verið tekið fyrir á nefndarfundi á. venjulegan hátt. Ég kvaddi mér því hljóðs vegna þess, að ég ætlaði að bera fram þá ósk, að málinu yrði vísað til n., til þess að það yrði tekið til meðferðar á venjulegan hátt, af því líka, að hér er um fjárhagsmál að ræða. Síðan umr. var frestað, hefur verið fundur í sjútvn., en hann var ekki boðaður og ég var þar ekki við. Þess vegna hef ég ekki sem nefndarmaður átt kost á að fjalla um frv., og fyrir mér er málið enn á umræðustigi, án þess að það hafi fengið nefndarmeðferð.

Ég vil skjóta því til flm., einkum hv. 5. þm. Reykv., hvort hann teldi ekki, að komið gæti til mála, að lægri upphæð nægði en í frv. er gert ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir ½ milli. kr. á 10 árum. Ég hef ekki flutt brtt. um þetta, m. a. af því, að ég bjóst ekki við, að málið yrði á dagskrá nú, en ég vildi gjarnan heyra álit hv. 5. þm. Reykv., sem er aðalupphafsmaður þessa frv.