02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Út af því, sem hv. 4. landsk. þm. sagði síðast, vil ég taka það fram, sérstaklega í sambandi við þann samanburð, sem hann var að gera á tryggingarfélögum í Vestmannaeyjum, að ríkið hefur stutt Vestm. með stórfé til þess að byggja örugga höfn. Það er ekki víða á landinu, sem þessu er hægt að koma við, en það er alveg eins mikil nauðsyn á því að tryggja fiskiflota manna á stöðum, þar sem hafnarskilyrði eru ótryggilegri og lakari.

Nú er það ekki undarlegt, þó að þeim félögum, sem hafa aðeins eina höfn að tryggja báta í, farist betur heldur en félögum, sem bera ábyrgð á bátum í hafnleysum á kannske 10–20 stöðum til og frá um landið.

Meðan Samábyrgðin hafði frjálsar tryggingar, varð hún einnig að hafa fiskiskip í tryggingum víðs vegar um landið. Það er erfitt að hafa það eftirlit, sem þarf til þess, að slíkt geti borið sig. En nauðsynin er alveg jafnmikil fyrir því að veita útgerðarmönnum og fiskimönnum tryggingu á bátum sínum. Stofnunin var sett á fót af ríkinu einmitt með það fyrir augum, að einhver varð að hlaupa undir þennan þunga bagga. Það er því ekki nema eðlilegt, að Samábyrgðin hafi haft erfiðan rekstur til þessa dags, ef maður lítur á, hver hafnarskilyrðin eru og hafa verið hér á landi, þó að ekki væri nema sú hætta, sem fiskiskipin eru í, þegar þau eru í höfnum og þegar þau eru að lenda.

Ég held, að hv. 4. landsk. þm. hafi ekki hugleitt eins og skyldi þann mikla mismun, sem er á þessu á höfnum yfirleitt og þeim stað, sem hann er kunnugastur. Í Vestmannaeyjum er yfirleitt mjög góð höfn, og allir bátar lenda á sama stað.

Ég held ég þurfi svo ekki að svara ræðu hans neitt frekar. Hann sagðist greiða atkv. gegn frv., og það gerir kannske ekki svo mikið til, en ég efast ekki um það, að þegar hann er búinn að kynna sér þetta mál, sem hann virðist vera mjög ókunnugur, þá muni hann, ef kostur vær í á því, verða alveg ákveðið með því.