29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög

Ísleifur Högnason:

Þegar þessi, fundur var settur, var ég ekki var víð, að hæstv. forseti gæfi skýringu á því, hvers vegna hér færu ekki fram útvarpsumr., en samkv. þingsköpum er skylt að gera það. En það má segja, að svo megi illu venjast, að gott þyki, því að síðan þjóðstjórnin tók við, hefur þessi regla verið þverbrotin, og í krafti meiri hluta þings hefur hún þannig brotið lög og rétt stjórnarandstæðinga. Ég ætla samt sem áður nú þegar að mótmæla þessu og krefjast skýringar, hvers vegna eigi ekki að útvarpa áframhaldsumr. eins og lög standa til og venja hefur verið. Ég sé, að hér er enginn þingkosinn ráðh. staddur, heldur aðeins einn, sem situr hér í óþökk alþjóðar, en með leyfi þjóðstjórnarinnar og þingmeirihlutans (Forseti hringir.), svo að það þýðir ekki mikið að hefja hér eldhúsdagsumr. fyrir hennar störf, en það veit alþjóð, að þessi þjóðstjórn hefur ekki stjórnað betur en það, að nægt tilefni er til að deila á hana fyrir framferði hennar. Annars er í blaði hæstv. atvmrh. í morgun yfirlýsing um, að sú íslenzka stj. muni ekki hafa mikil völd, heldur mun það vera Bretinn, sem ræður hér mestu, og þó er það einkennilegt, ef stj. og forseti Sþ. hafa ekki ráð yfir útvarpinu, þar sem það er leyft, að Jósef Göbbels fái aðgang að útvarpinu þrisvar á dag til að boða andbrezkan áróður, þegar Bretar Hér á landi banna blað stjórnarandstæðinga og þar að auki taka ritstjóra blaðsins og þm. höndum og flytja af landi burt. Í þessu blaði, Morgunbl., blaði hæstv. atvmrh., sér maður á grein, sem þar birtist í morgun, að það hefur enginn hugur fylgt máli hjá ríkisstj., þegar mótmælin gegn handtökunni voru borin fram. Þeir, sem lesa þessa grein um handtökurnar, sjá óheilindin, sem bak við hana liggja, því að í greininni er næstum afsakaður verknaður Bretanna í garð alþm. og ritstjórnar Þjóðviljans með því, að það er sagt, að blaðið hafi skrifað ógætilega og óheppilega, þó að enginn rökstuðningur fylgi þeim ummælum að neinu leyti eða nein sönnun á hendur ritstjórnarinnar. Enn fremur er þar talað um, að það hafi verið óheppileg aðferð, sem Bretarnir hafi haft, og muni ekki ná tilgangi sínum, að múlbinda stjórnarandstöðuna og flytja af landi burt helztu menn úr andstöðu ríkisstj. Aumingjalegri mótmæli en þessi hef ég ekki lesið. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að fara hér með niðurlag þessarar Mbl.-greinar:

„Almenningi verður það vafalaust ljósara en áður, að við búum í hernumdu landi. En við erum varnarlausir. Við getum aðeins mótmælt. Alþingi hefur þegar mótmælt. Ríkisstjórnin ætlar að mótmæla. Öll þjóðin mótmælir.“

Gerðir ríkisstj. í þessu máli hafa ekkert verið annað í rauninni en blekking, til þess að strá sandi í augun á fólkinu. Ég tek ekki af skarið um það, að af meiri hl. hv. þm. hafi mótmælin verið borin fram af óheilindum. En af blaði atvmrh., sem ég verð að álíta, að túlki skoðanir hans í stjórnmálum landsins, verð ég að álíta, að þessi mótmæli séu útþurrkuð með þessari druslulegu yfirlýsingu í niðurlagi greinarinnar.

Það hefur verið tæpt á því í hinum einkennilegu eldhúsumr. hér í dag, að með gjaldeyrismálin muni ekki allt vera með felldu og að fjármálaástandið sé ekki eins glæsilegt og tölur sýna. En það liggur í augum uppi, að með gjaldeyrisl. er fyrsta sporið stigið til þess að fullnægja kröfu stórútgerðarinnar til þess að draga til sín aukinn hluta af gróða landsmanna. Þegar stríðið byrjaði og fiskverðið hækkaði, var þörfin eða ástæðan fyrir lækkun krónunnar úr sögunni, og gróðinn valt í milljónum yfir útgerðina. En með því að öll völd í þessu máli virtust í höndum atvmrh. og jafnvel ráðin yfir Landsbankanum, þá uggðu bankarnir ekki að sér, en létu hann ráða því að borga upp skuldir Kveldúlfs, meðan þetta háa verð var á afurðunum og peningarnir því í lægra verði en á venjulegum tímum. Á stuttum tíma voru þessar skuldir borgaðar upp og stórgróði kominn í nokkurra manna hendur í landinu, en gildi krónunnar móts við sterlingspundið hefur verið allt of lágt. Nú er svo komið, að gildi sterlingspundsins á frjálsum markaði vestan hafs mun ekki vera yfir 7 til 8 kr. í íslenzkum peningum. En hér er það enn þá skráð á kr. 26.22, og sjást engin merki þess, að það eigi að breyta út frá þeirri venju, sem verið hefur um skráningu sterlingspundsins, og hlýtur það að enda með því, með áframhaldandi falli þess, að dýrtíðin mun fara hraðvaxandi, og mætti því komast svo að orði, að hún sé í byrjun. Mér þykir ekki ólíklegt, að ísl. kr. eftir 1 til 2 ár verði orðin helmingi minna virði en hún er í dag. Þá gefur auga leið, hve mikið er byggjandi á þeirri fjárhagsáætlun fyrir ríkissjóð, sem Alþingi er nú að ganga frá fyrir árið 1942. Og það er ekki að undra, þótt fjvn. og þingfl. yfirleitt verði í vandræðum með að skýra og mæla með till. sínum til þingsins um fjárframlög á næsta ári, vegna þess hve allt er í óvissu með sömu áframhaldandi stjórn bankanna og fjármálin í landinu yfirleitt.

Þegar við sósíalistar fórum yfir fjárlfrv. fyrir tveim dögum, komum við með till. um, að hækka mætti útgjöld ríkissjóðs um 35% til að halda áfram verklegum framkvæmdum, og finnst mér þetta koma að miklu meira liði heldur en niðurskurður um 35%, því að það má búast við, að krónan haldi áfram að hrapa, og hrapið verði gífurlegra síðar heldur en verið hefur. Og ef valdið verður í höndum Breta um þetta, en ekki ríkisstj., getur farið svo, að íslenzka krónan verði einskis nýt hér á landi og að við verðum að fara að nota sterlingspund sem gjaldmiðil.

Auðvitað raskar þetta óeðlilega gengi peninganna öllum efnalegum hlutföllum í landinu. Stóreignamenn nota peningana til þess að kaupa t. d. jarðir, sem ættu að vera margfalt hærra verði seldar, þegar tekið er tillit til hins lága gengis, en eru ekki metnar eftir sama mælikvarða og peningarnir, þannig að sanngjörn sala gæti farið fram, og braskið gengur úr hófi fram. Þetta tjón kemur að lokum niður á bændunum og smáeignamönnum, sem láta villast af þessum falska gjaldmiðli, sem ísl. krónan er nú.

Það virðist nú vera vilji hæstv. Alþ. að ná inn sköttum af stórgróðanum, hvernig sem því máli reiðir nú af að lyktum. En takmarkanir í sambandi við það og fleiri ákvæði, sem í frv. felast,. eru að mínu áliti svo mjög hliðholl stórútgerðinni, að ég tel vafasamt, hve mikið ríkissjóður fær í tekjur af þessu, því að stórútgerðin á að fá að draga frá skattskyldum tekjum sínum svo mikið tap undanfarinna ára, sem hlýtur að geta valdið því, að þetta geti orðið svo framkvæmt, að ríkið fái sama og engar tekjur af stórgróða útgerðarinnar.

Loks mótmæli ég því, að hér fara ekki fram útvarpsumr., og krefst þess af hæstv. forseta, að þær verði látnar fara fram. Og þær afsakanir, að Bretar banni þær, met ég að engu, meðan fasistinn Göbbels fær að túlka sitt mál í íslenzka útvarpinu þrisvar sinnum á dag.