05.03.1941
Neðri deild: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

38. mál, vátryggingarfélag

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Það, sem. hv. Þm. Ísaf. sagði um hættuna vegna tundurduflanna, er alveg rétt, hún er ekki lítil. En það mun nú venjulega verða sú raunin á, að ef skip rekast á tundurdufl, þá týnist þau með öllu, og mun því í flestum tilfellum fara svo, að hinn almenni „assurance“ verði að borga þau. Að stríðstryggingar eru ekki teknar með upp í þessi lög, er sökum þess, að ekki er hægt að samrýma þær þessum tryggingum. Um þetta hefur verið rætt í Samábyrgðinni, en ekki virzt vera hægt að fá lausn á því á þennan hátt, því að stríðstryggingarnar eru svo dýrar, að skipaeigendur mundu alls ekki rísa undir þeim. Þær fást ekki nema í Englandi, og það alls ekki með hægu móti, því að Englendingar eru mjög tregir til þess að taka skip í slíkar tryggingar, vegna hinnar gífurlegu stríðshættu. Það kemur náttúrlega ekki til mála, að félögin geti tryggt þetta. Slys af þessum ástæðum mundu langlíklegast verða við loftárásir á bátahafnir, þar sem farizt gætu tugir skipa í einu. Ekkert íslenzkt félag hefur fjárstyrk til að taka á sig slíka áhættu, nema að örfáum hundraðshlutum. Tryggingin yrði því að vera hjá ríkinu eða erlendum stofnunum, en þar munu slíkar tryggingar nú vera svo dýrar, að flestir mundu veigra sér við að kaupa þær. Mér þykir furða, að lánsstofnanir landsins skuli ekki hafa hreyft málinu. Áhætta þeirra er e. t. v. meiri en nokkurs annars aðila. Engin rödd hefur þó heyrzt úr þeirri átt.

Það, sem hv. þm. Ísaf. sagði um kostnað félaganna af dráttarhjálp, hlýtur að vera hugboð eitt hjá honum, hann getur ekkert ákveðið um það vitað. En þegar manni berast í hendur skýrslur, sem sýna svart á hvítu, að allt að 1/3 útlagðs kostnaðar er fyrir dráttarhjálp, verður þetta ekkert smámál. Ef hv. þm. fengi daglega 5–10 þús. kr. reikninga fyrir verk sem hann hefði sjálfur getað látið vinna fyrir 300–500 kr., skipti hann kannske um skoðun. Þetta hefur komið fyrir dag eftir dag, að skip eða bátar, sem hafa talstöðvar og gætu náð til útgerðarmanns síns, hafa fengið togara eða önnur skip, sem kosta 500–1000 kr. á klst., til að draga sig í land, og það jafnvel til þess eins að geta komizt sem fyrst út á miðin aftur. Þeim dettur ekki í hug að leita þá fyrst til útgerðarmanns eða tryggingarfélagsins. Slíkt þarf að koma í veg fyrir. Það er ekki von, að hv. þm. Ísaf. sé kunnugt um þetta, en okkur er það kunnugt.