03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

106. mál, iðnlánasjóður

Jón Ívarsson:

Þessi brtt. á þskj. 328, frá hv. þm. V.-Húnv. og mér, felur það í sér að fella niður ½% gjaldið af innfluttum vörum, en að ríkissjóðsframlag komi í þess stað. Hv. þm. V.-Húnv. hefur lýst þessari brtt. okkar, og hef ég þess vegna litlu við það að bæta. En brtt. byggist á því, að það sé heppilegast, að tollalöggjöfin sé sem einföldust. Nú er nýbúið að setja lög um tollskrá, og á öll tollheimta að verða einfaldari í framkvæmd en áður, og ég álít, að tollarnir eigi að vera aðeins tvenns konar, verðtollur og vörumagnstollur, og þar við látið sitja. En nú þegar eru komin þessu til viðbótar viðskiptagjald ½%, innflutningsgjald ½%, og gjald til rafmagnseftirlits ríkisins, og gerir þetta tollalöggjöfina erfiðari í framkvæmd. Það má segja, að innflutningsleyfisgjaldið og viðskiptagjaldið sé vegna sérstaks ástands og falli niður, ef það ástand breytist, en ef iðnlánasjóðsgjaldið er sett, helzt það áfram. Hvað það snertir að slá á útrétta hönd iðnrekenda um tillagið til iðnlánasjóðs, þá er þeim það vitanlega heimilt að leggja það fram af frjálsum vilja, hvort sem það er lögákveðið eða ekki. En ég tel ákaflega hætt við, að þótt í byrjun mætti líta á þetta gjald sem framlag frá iðnrekendunum sjálfum, þá mundi það fljótlega færast yfir á neytendur varanna, og yrði framlagið þá orðið neyzluskattur.

Ég álít rétt, að iðnlánasjóði sé veitt heimild til þess að gefa út handhafavaxtabréf eins og brtt. á þskj. 308, sem þrír hv. þm. bera fram, fer fram á. Iðnlánasjóður getur þá starfað meira að því að veita hagkvæm lán, ef hann fær aukið lánsfé.