03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

106. mál, iðnlánasjóður

Jón Ívarsson:

Hv. 6. landsk. sagði, að ég hefði játað, að nú þegar væru komnir á margs konar tollar. Þetta er rétt. Hann vildi draga það út úr orðum mínum, að fyrst svo væri, þá væri rétt að bæta fleiri tollum við. En ég nefndi þessi gjöld til að benda á, að þetta væri óheppilegt. Ég benti á, að a. m. k. tvö af þessum gjöldum, viðskiptagjald og innflutningsleyfisgjald, væru miðuð við það sérstaka ástand, sem nú væri, en þetta nýja gjald, á aftur á móti að standa áfram, og er það í samræmi við það, sem ég hélt fram, að óheppilegt sé að bæta við fleiri gjöldum, sem innheimt væru á sama grundvelli. Í sjálfu sér ættu að vera þessir tveir tekjustofnar, verðtollur og vörumagnstollur, en ekki fleiri tollar, og tel ég því mjög óheppilegt, ef ætti að bæta við, þó að ekki væri nema ½–1% aukaverðtolli, enda þótt tilgangurinn sé góður. Stefna þessi er óheppileg, einkum vegna framkvæmdar tollheimtunnar.

Önnur atriði, sem hann minntist á, þarf ég ekki að fara nánar út í, en vil aðeins geta þess, að ég álít till. um að gefa út handhafavaxtabréf heppilega til þess að sjóðurinn geti betur náð tilgangi sínum en verið hefur.