22.04.1941
Efri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

117. mál, skráning skipa

Frsm. (Magnús Gíslason) :

Þetta frv. er flutt af allshn. eftir ósk hæstv. fjmrh. og fjallar um breyt. á l. um skráning skipa. Breyt. er í því fólgin, að fyrir nafnbreytingar á skipum skuli greiða nokkurt gjald í ríkissjóð, en áður þurfti þess ekki. Ástæðan fyrir því, að frv. þetta er fram borið, eru ítrekaðar umkvartanir frá skipaskráningarstofu ríkisins um hinar tíðu og óþörfu nafnbreytingar skipa. Það hefur komið í ljós, að menn hafa ekki farið eftir fyrirmælum skipaskráningarl. um að sækja um leyfi til nafnbreytingar til skipaskráningarstofunnar, og enn fremur að tilkynningar um nafnbreytingar hafa borizt svo seint, að búið hefur verið að gefa út skráningarskírteini á annað nafn en eigandi hefur ætlazt til.

Loks hafa menn ekki skeytt um að sækja um samþykki skipaskráningarstofunnar og breytt nöfnum skipa upp á sitt eindæmi, og nafnið hefur þá ekki verið í samræmi við skjöl þau, sem út hafa verið gefin. Eftir að fiskiskipin fóru að sigla til Englands í haust með afla sinn, kom þetta sérstaklega í ljós, að nöfn skipanna voru oft og tíðum ekki í samræmi við skrásetningu, en þá var það nauðsyn, að öll skjöl væru í lagi.

Aðaltilgangur frv. er ekki að afla ríkissjóði tekna, heldur sá að reyna að draga úr hinum tíðu nafnbreytingum og að gera mönnum skiljanlegt, að þeim beri að sækja um nafnbreytingarnar í tíma.

Það má deila um það, hvort gjöld þessi séu óþarflega há, og má þá taka það til athugunar, en ég hygg, að 1. nái ekki tilgangi sínum að öðrum kosti.