29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög

Magnús Jónsson:

Herra forseti! Það er þingmannsréttur að fá orðið til að bera af sér sakir, og þá hlýt ég að hafa rétt til að fá að bera fram þakkarávarp til hv. þm. Borgf. fyrir þann ritdóm, sem hann felldi áðan um bók mína, Pál postula, og taldi hana ganga næst biblíunni og meira að segja líkjast mjög nál. fjvn., sem hann mun meta mest allra rita sem stendur. (PO: Það er hver góður fyrir sinn hatt). Ég hef skrifað margar bækur síðan og datt ekki í hug að fá nú um síðir ritdóm um þessa bók, og það í sjálf Alþingistíðindin. Því ber ég fram þakkir mínar.

Ég verð að mótmæla því, að við þessa umr. hafi ræður mínar ekki átt við. Um fjárlög er höfð önnur meðferð en mál almennt, þar sem nál. fjvn. er lagt fram áður en 1. umr. lýkur. Tilgangurinn með því hlýtur að vera sá, að hin almennu atriði þessa máls megi ræða áður en 1. umr. er slitið. Hvorki hv. þm. Borgf. né hæstv. forseti geta neitað, að það sé þinglegt, er ég ræði um nál. almennt og stefnu þess í fjármálum.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði tekið aftur ummæli mín um nál. Ég er svo brjóstgóður, að ég held ég verði að lofa honum að lifa í þeirri sælu trú, ef það skyldi vera honum sáluhjálparskilyrði. Hann sver nú og sárt við leggur, að í ræðu sinni hafi hann sagt hið sama og standi í nál. Mér virðist hins vegar, að í nál. standi allt annað. (PO: Það er biblíuskýring.) En hafi orðin í nál. átt að þýða þetta, sem hann segir, er það ágætt, og ber sú skýring svo af biblíuskýringum sem nál. af ritningunni á sinn hátt.

Nefndin er að bollaleggja um fjárl. 1941. Það sýnir, að henni hefur komið til hugar, að féð, sem um ræðir, yrði notað á þessu ári, enda þótt ég skildi ummæli hennar svo, að hún gerði ráð fyrir að ráðstafa fénu strax, trúa ekki síðari þingum fyrir því, en geyma það til framkvæmda síðar. Mér skildist, að minni hl., sem skrifaði undir með fyrirvara; hefði álitið, að féð ætti tvímælalaust að geymast. Og þá vil ég taka undir orð n. um óvissuna. Við vitum ekki, nema þau tíðindi kunni að gerast, að á fénu þurfi að halda til að bæta úr einhverjum váveiflegum hlutum, sem borið getur að höndum hvenær sem er, jafnvel áður en þessi dagur er liðinn. Og það hygg ég affarasælast að styrkja ríkisstj. til þess að eiga í ríkissjóði eins ríflegan varasjóð og kostur er á til að nota, þegar þrengist um atvinnuskilyrði í landinu. Það verður að mestu gagni bæði heildinni og þeim, sem vinnunnar njóta.