29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög

Pétur Ottesen:

Ég vil enn mótmæla því hjá hv. 1. þm. Reykv., að ræðu minni og nál. hafi í nokkru borið á milli. Ég vil gjarnan festa í umr. þingtíðinda málsgr. þá úr nál., sem tekur af allan vafa um það, sem þessi hv. þm. efast mest um. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „... Þá hefur nefndin gert það að tillögu sinni, að féð, fjárveitingarnar í fjárlögunum, að viðbættum þeim upphæðum, sem í tillögunum greinir, verði lagt til hliðar og geymt, þar til betur byrjar um framhald þessara verka.“

Það er vitanlega óþarfi að fara um þetta fleiri orðum. Ræður mínar um þetta mál eru í fullu samræmi við það, sem í nál. stendur, og er það ekkert þakklætisvert. Er misskilningur hv. þm. á þessu atriði þar með leiðréttur. Vænti ég þess að fá fulla viðurkenningu fyrir að hafa ekki skorazt undan að ræða við hv. þm. um þetta atriði, því að raunverulega lá það nú ekki fyrir utan umræðurnar, þó að óvenjulegt sé að hefja umr. um nál., fyrr en við 2. umr.