29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Aðeins örfá orð. — Ég ætla ekki að þrátta við hv. 1. þm. Reykv. um þetta mál, því að ég er sömu skoðunar og ég var í gær, að umr. á þessu stigi hafi snúizt um allt annað en æskilegast var. Ég held, að þessar umr., sem fram hafa farið um nál. fjvn., sýni það glöggt, hvað það hefur að þýða að halda sig við form. Nú vil ég á engan hátt fullyrða neitt um það, hvort nál. þetta sé formlega séð til umr. eða ekki, en sé nál. tekið til umr., þá hljóta till. að vera það einnig. Ég vil ekki heldur þrátta neitt um dagskrána við hv. 1. þm. Reykv., en ég held, að nál. sé getið á dagskránni aðeins til staðfestingar á því, að nú sé tími kominn til að vísa málinu áfram. Eitt er víst, að síðan 1934 hef ég fylgzt með umr. um fjárl. á Alþingi, og framh. 1. umr. hefur næstum eingöngu snúizt um fjármálastjórnina á síðastl. ári, ef til vill að einhverju leyti um frv. sjálft, en ekki um álit og till., sem fyrir lágu og ekki hafði verið talað fyrir. En nú var það svo, að hv. 1. þm. Reykv. fannst engin ástæða til að minnast á fjármálastjórn síðastl. árs, og má vel vera, að þess hafi ekki verið þörf, þrátt fyrir það, sem áður hefur tíðkazt um meðferð þessara mála.

Vera má, að hv. þm. hafi grætt eitthvað á þeim umr., sem fram hafa farið. Þær hafa eingöngu snúizt. um till. þær; sem getið er um í nál. og fjvn. hefur sent hæstv. ríkisstj. til athugunar. En mitt álit er, að miklu réttara sé fyrir hv. þm., ekki sízt fjvn., að skilja ekki svo við þetta þing, að hún geri ekki einhverjar áætlanir eða l. um, hvað gera skuli við það fé, sem umfram kann að verða þær tekjur, sem fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir. Annars ætla ég ekki að tala meira um þetta atriði að sinni, en mun gera grein fyrir málinu í heild í framsöguræðu minni. En ég vil segja hv. 1. þm. Reykv. það, að ég er ekki sá fyrirhyggjumaður að semja ræðu, sem ég veit ekki, hvenær á að flytja, enda verður hún hvorki svo flókin eða löng, að langan tíma þurfi til undirbúnings.

Ég sé ekki ástæðu til að svara ræðu hv. form. fjvn., enda talaði hann frá sínu sjónarmiði, sem hann var líka sjálfráður um. Hv. þm. N.-Þ. taldi, að í frv. og í till. fjvn. væru gerðar of lágar áætlanir um fjárframlög til verklegra framkvæmda, miðað við vaxandi dýrtíð. Má segja, að komið hafi fram nokkuð skiptar skoðanir á þessu efni, þar sem hv. 1. þm. Reykv. veitti fjvn. ámæli fyrir of háar áætlanir í þessu skyni og taldi, að hún sæi ekki fótum sínum forráð. En fjvn. telur ekki auðvelt atriði að ákveða tekjur og gjöld ársins 1942, og er sammála um að reyna eftir megni að fara gætilega í sakirnar. Við vitum nú ekki, hve mikil dýrtíð verðum 1942, þó að líkur séu til, að hún verði mikil og mikið fé þurfi því til verklegra framkvæmda. Enn hefur ekki verið haggað við heimildinni til að draga úr ýmsum fjárframlögum ef þörf krefur. Enn fremur lætur n. skína í það í nál., að Alþ. hafi ráðrúm til þess á næsta þingi að ráðstafa því fé til verklegra framkvæmda, sem umfram kann að verða, en vill áætla gætilega í fjárlögum. Þannig lítur fjvn. á málið, og ég vona, að þetta verði þau endanlegu sjónarmið, sem fjárlögin verða afgr. eftir á þessu þingi.