05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég á hér engar brtt. og þarf því ekki að tala fyrir þeim. En ég hef skrifað undir nál. frá samvn. samgm. með fyrirvara, og mun ég gera grein fyrir því. Það eru tvö atriði, sem ég er ósamþykkur, og mun ég koma með brtt. um þau við 3. umr. Ég er ósamþykkur hinum nm. um það að veita styrk til báta, sem fara hver á eftir öðrum sömu leið. Það er t. d. veittur styrkur til þess að fara á milli Siglufjarðar og Sauðárkróks í tvennu lagi, þ. e. a. s. fyrst til Skagafjarðarbáts, og er sá styrkur hækkaður nokkuð, og í öðru lagi er veittur aukastyrkur til Fljótabáts, sem ekki hefur verið áður, en fer nokkuð af sömu leiðinni, sem Sauðárkróksbáturinn á að fara. Að þessu leyti er ég ósamþykkur nál., og getur vel verið, að ég komi með brtt. um það við 3. umr.

Í öðru lagi vil ég sérstaklega nefna Fagranesið, sem siglir sömu leið og báturinn, sem fer til Borgarness. Þarna fara tveir bátar sömu leiðina, og er ætlun n. að styrkja þá báða. Nú hagar að vísu svo til, að sá bátur, sem hefur flutt fólk til Borgarness, getur ekki, a. m. k. mikinn hluta úr árinu, annazt daglega mjólkurflutninga af Akranesi, og vegna þessa var Fagranesið á sínum tíma tekið upp með styrk í stað báts, er áður sótti mjólk í Hvalfjörð. En nú er talað um það, að fólksflutningarnir í sumar leggist um Akranes, og verði svo, þarf Fagranesið ekki styrk, og ,fái það hann engu að síður, ætti að skylda það til að flytja mjólkina 1942 með óbreyttum flutningsgjöldum.

En það, sem ég vildi tala um fyrst og fremst, er það fé, sem ætlazt er til, að greitt verði á þessu ári eftir nokkurs konar aukafjárl. Ég vil ákveðið benda á það, að nú hagar ákaflega misjafnt til í landinu. Sums staðar er eftirspurnin eftir vinnuafli það mikil, að verkafólk er ekki til til þess að vinna brýnustu nauðsynjaverk, en á öðrum stöðum hagar þannig til, að fólkið hefur ekki enn flutt sig neitt til til þess að leita eftir þessari vinnu, en vinnur í þess stað að framleiðslunni.

Ég legg mikla áherzlu á það, að það verði unnið mikið að verklegum framkvæmdum á þeim stöðum, þar sem fólk er enn nægilegt, svo að það flytjist ekki einnig þaðan, og þá þangað, sem eftirspurnin er mest eftir vinnukrafti og þá um leið burt frá framleiðslunni. Ég vil benda á það, að ég tel ekki rétt að nota þessa aukafjárveitingu, nema það sé nauðsynlegt til þess að halda fólkinu áfram í sveitunum, en í hverri sveit er fleira og færra fólk, sem vantar vinnu að vorinu. Þá vinnu þarf það að fá í vor, til þess að það fari ekki annað í vinnuleit og tapist svo frá framleiðslunni að sumrinu og komi alls ekki aftur heim í átthagana. Þetta vil ég mjög ákveðið biðja stjórnina að athuga, og það vel.

Þá vil ég telja það mjög illa farið, að fjvn. gengur nú meira inn á þá braut að fela í fjárl. ýmsar upphæðir undir einum lið, sem ætti að vera sundurliðaður. Þegar byrjað var á þessu, var það sundurliðað í nefndaráliti; svo var t. d. um brúargerðir, laun til skottudýralækna, laun til vegaverkstjóra, barnakennara, sem ekki komu undir lífeyrissjóð, og ýmislegt fleira. Þetta hélzt um nokkur ár. En nú er þessu hætt. Til brúargerða er ætluð ein upphæð, og maður fær ekkert að vita, hvaða brýr á að byggja. Er ekki rétt, að Alþ. fái að sjá, hvaða ár það eru, sem ætlazt er til, að verði brúaðar fyrir þetta fé? Ég get sagt það til dæmis, að í fyrra fékk ég bréf frá einum manni, sem hafði orðið einn af þeim, sem fá laun á þennan hátt, sem skottudýralæknir á ákveðnum stað í S.- Múlasýsln. Stjórnarráðið hafði ekki hugmynd um, hvort þessi maður væri einn á þessum lið, og gat ekki gefið upplýsingar um það. Svo varð ég að bíða, þangað til fjvn. kom saman og staðfesti þetta, og skrifaði ráðun. bréf um það, að þessi maður hefði komið til greina. Þetta er engin afgreiðsla og er allt öðruvísi en það á að vera. Ef þetta á að vera til þess að spara umr., þegar verið er að fela þessi nöfn, má ekki minna vera en að það komi fram í nál., a. m. k. í framsögu, hvernig þessir liðir eiga að sundurliðast.

Hið sama gildir um einkasíma í sveitum. Hvar á að leggja þá 1942 fyrir það fé, sem til þeirra er ætlað, og hver á að ákveða það? Er það Alþingi, fjárveitinganefnd, ríkisstjórn eða bara símamálastjóri?

Hverjir hafa gögn í höndunum til að taka á móti því fé? Ég veit það ekki; hv. fjvn. veit það kannske og gerir till. um það til ríkisstj., hverjir það eiga að vera. Það væri mjög æskilegt, að hv. fjvn. sundurliðaði þessa liði, svo að menn þurfi ekki að verða í vandræðum með það að sjá, hverjir hafa komið til greina og hverjir ekki. Það þarf einnig að vera hægt að sjá, hvaða ár á að brúa. Ég gæti nefnt fleiri dæmi en eitt um það, að það hefur verið varið til brúa miklu minna fé, og þó af Alþingi ákveðið, hvaða ár skyldi brúa, en síðan farið var að fela þessa liði. Það er þingið, sem á að segja um þetta, en ekki fjvn. á bak við tjöldin.

Í öðru lagi tel ég varhugavert, þó að vel ári fyrir ríkissjóðinn með tekjur, að leggja stórar upphæðir til fyrirtækja, sem svífa í lausu lofti. Enginn veit, hvar framkvæmdir eins og hafnargerð við Faxaflóa eiga að vera, það er aðeins sagt, að hún eigi að vera einhvers staðar við Faxaflóa. Fjvn. hefur ekki heldur hugmynd um það, hvort 250 þús. kr. nægja til þessara framkvæmda. Það hefur alltaf verið venja, að legið hafi fyrir áætlanir, og ákveðið, á hvaða stað skyldi hefja framkvæmdir, en ekki veitt fé bara út í loftið. Ég tel það mjög misráðið að veita stórfé á þeim stöðum, þar sem einstakir menn eiga landið. Framkvæmdir verða til þess að hækka lóðir landsins í kring á tiltölulega fáum árum, og féð, sem varið var til hafnargerðarinnar, hverfur inn í landverðið og auðgar landeigendur. Síðasta Alþ. samþ. þáltill., sem fór í þá átt að fela stj. að athuga, hvað hægt væri að gera til þess að fyrirbyggja, að grætt yrði á svona framkvæmdum, sem koma. eiga almenningi að notum. Mér virðist stj. ekkert hafa gert, a. m. k. liggur það ekki fyrir enn. Ég tel það varhugaverða stefnu, að veita stórfé til hafnargerðar, þegar höfnin er í eigu einstakra manna, og hitt tel ég einnig sérstaklega vitavert, að veita fé til hafnargerðar, sem enginn veit, hvar á að standa og því síður hvað kostar.

Þá vil ég gera dálitla aths. við það, að ákveðið er, að Lárus Rist fái laun fyrir sundkennslu. Ég viðurkenni hans hæfileika og hans starf sem sérstaklega óeigingjarnt og þarft fyrir sundíþróttina. En eins og liðurinn er orðaður gæti það leitt til þess, að margir aðrir sundkennarar gætu átt rétt til slíkra launa. Þess vegna hefði ég talið eðlilegra, að viðurkenningin til Lárusar væri í öðru formi, t. d. að honum væru veitt laun til að kenna sund við garðyrkjuskóla. Þá kem ég næst að því, að ríkið ættar að stofna til landbúnaðarverkfærasafns á Hvanneyri. Ég teldi miklu réttara, að það yrði á Hólum í Hjaltadal. Hér eru uppi till. um það að varðveita gamla bæi. Bærinn á Hólum er einn gamli bærinn, sem ætti að varðveita og koma fyrir í svona safni. Er einnig tilvalið að framkvæma þessar tvær hugmyndir í einu, að varðveita gamla bæinn og hafa verkfærasafn þar. N. áætlar að veita þúsund kr. til verkfærasafnsins. Við 3. umr. mun ég koma með brtt. um það, að verkfærasafnið verði að Hólum.

Þá þykir mér gæta tvískinnungs í því, ef þingið ætlar að halda áfram að styrkja einstaka sjúkrasjóði. Ég veit ekki, hvers vegna sjúkrasamlagslögin voru sett, ef nú á að fara að styrkja einstaka sjóði, sem standa utan við þau. Þetta eru að vísu smávægilegar upphæðir í hvern stað, en það eru engin heilindi í svona vinnubrögðum.

Ég vænti þess svo, að þessar aths. verði teknar til athugunar, að þessi liður, sem nú er hafður í einu lagi, verði sundurliðaður. Ég vænti þess að fá að sjá það í framhaldsnál., og tel ég það mikilsvert, því sannast að segja er það að öðrum kosti annað tveggja, að n. telur sig hafa ástæðu til þess að fela eitthvað fyrir þm., eða þá hitt, að hún hefur tilhneigingu til þess að ráða ein þeim málum, sem þingið á að ráða. En ég vona, að hvorugt sé, heldur stafi það af gleymsku n. eða athugaleysi, að hún hefur ekki látið þingið vita, hvernig þessir liðir eiga að sundurliðast.