06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

83. mál, landskiptalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Landbn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt að efni til, því að þær brtt., sem n. flytur á þskj. 351, eru mestmegnis orðabreyt. til lagfæringar á frv., en ekki efnisbreyt.

Landbn. lítur svo á, að þær brtt., sem gerðar eru í frv. frá eldri landskiptal., sem eru frá 1927, séu yfirleitt til bóta, enda eru þær brtt. byggðar á þeirri reynslu, sem fengizt hefur við Framkvæmd þeirra l. N. telur því rétt að samþ. frv.

Brtt. við 1. gr. frv. eru aðeins orðabreyt. við 1. tölul. Hins vegar tekur n. aftur brtt. á þskj. 351 við 3. tölul. frv. og ber aftur fram aðra brtt. á þskj. 377 um að orða um þennan 3. tölulið frv., því að n. telur, að betur fari að orða liðinn

þannig heldur en eins og lagt er til í brtt. á þskj. 351.

Hér er um nýmæli að ræða í þessum 3. tölul. frv., þar sem ákveðið er, að einn aðili hafi kröfurétt á því, að skipta skuli upp landi að nýju, þó að lögfest skipti hafi farið fram áður. En hins vegar er það þó lagt á vald matsmanna, hvort slíka kröfu skuli taka til greina eða ekki. Því aðeins mega þeir taka hana til greina, að úr þessu megi bæta hinum öðrum aðilum að skaðlausu. Lengra þótti ekki fært að ganga í þessu efni. En reynslan hefur leitt ótvírætt í ljós, að eldri skipti, sem hafa verið gerð lögum samkvæmt, hafa reynzt óhagkvæm í ýmsum atriðum og nauðsyn að laga þau. Þess vegna er það nauðsynlegt, að jafnvel þótt aðeins einn aðili, sem hér á hlut að máli, vilji skipta, þá geti hann gert kröfu til þess að ný landskipti fari fram. Þá hefur n. gert smábrtt. við 10. gr., sem er orðabreyt. um síðustu málsgr. þeirrar gr., en ekki veruleg efnisbreyt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, enda lýsti ég nokkuð við 1. umr., í hverju nýmæli þessa frv. felast. N. leggur til, að þessar smávægilegu brtt. við frv. verði samþ.