12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

83. mál, landskiptalög

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Landskiptalögin frá 1927 hafa að mörgu leyti þótt ónóg. Hafa þeir sérstaklega orðið varir við það, sem þurft hafa að framkvæma landskipti á grundvelli þeirra laga. Hin síðari ár hafa starfsmenn Búnaðarfélagsins, einkum jarðræktarráðunauturinn, ákaflega oft verið kvaddir til aðstoðar, þegar landskipti hafa átt sér stað. Þeir hafa því iðulega rekið sig á, hvað helzt hefur vantað í lögin og hve erfitt hefur verið að skipta landi eftir þeim. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að Búnaðarfélag Íslands hefur látið gera uppkast það, er hér liggur fyrir, sem búnaðarmálastjóri og formaður Búnaðarfélagsins fluttu í Nd. Það fór óbreytt í gegnum þá d. og ágreiningslaust með öllu.

Sem dæmi um erfiðleikana, sem á því hafa verið að skipta landi, skal ég taka dæmi eins og það liggur greinilegast fyrir á eina hlið. Á jörð einni í Rangárvallasýslu, þar sem að gömlu lagi áttu að vera jafnir helmingar — helmingaskipti —, er ábúandinn á öðrum helmingnum búinn að fjórfalda sitt tún og rækta alla móa í kringum túnið, sem ræktanlegir eru án framræslu. Hinn ábúandinn hefur aftur á móti ekkert stækkað sitt tún. Nú eru þessir helmingar orðnir gerólíkir að mati, þó að landskipti eigi að vera jöfn. Ef bein skipti ættu að fara fram milli þessara tveggja aðila, þá er ekkert til í lögum, sem segir til um, við hvað eigi að miða, hvort miða eigi við það, sem núna er, eða við gamla daga, áður en ræktunin var hafin. En nú er í þessu frv. ákveðið að miða við jarðamat frá 1861 og skipta eftir því, þar sem því verður við komið.

Það eru annars hrein undur, hvað menn sætta sig enn þá við að hafa land sameiginlegt. Það eru undur, að enn þá skuli vera til tún, sem 5 menn hafa til afnota sitt árið hver, og svo er ekkert gert að túninu, því að enginn telur það sitt tún. Þess vegna væri þörf á að gera meira til að ýta undir landskipti heldur en gert er með þessum lögum. Hér er ekkert gert til þess að ýta undir þau, en hins vegar sett ákvæði til Þess að þau geti farið eðlilegar og betur fram, þegar óskað er eftir þeim.

Ég held, að reynslan muni sýna, að eitthvað kunni að vanta í þessi lög, þegar fara á að skipta eftir þeim, en það er þó búið að taka fyrir ákaflega marga annmarka, sem mestum árekstrum hafa valdið í framkvæmdinni hingað til.

Landbn. þessarar hv. d. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Að vísu hefur einn hv. nm. verið fjarverandi, og er afstaða hans ekki kunn, en þó tel ég víst að hann mundi hafa verið með því að láta þetta frv. halda áfram óbreytt í gegnum þessa hv. d.