06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

123. mál, læknisvitjanasjóður

Helgi Jónasson:

Ég þarf litlu við að bæta það, sem hv. frsm. hefur tekið fram. Ég vil þakka n. fyrir fljóta afgreiðslu þessa máls og vona, að það fái góðan byr hér í hv. d.

Það er tekið fram í grg. frv., hvað nú er víða orðið kostnaðarsamt að vitja læknis. Enda þótt samgöngur hafi batnað, er það svo, að kostnaður er meiri en áður við læknisvitjanir. Alþingi hefur viðurkennt þetta og veitt árlega í fjárl. styrk til ýmissa héraða, en sá styrkur er mjög af handahófi. Sum héruð hafa orðið vel úti og hafa fengið ríflegan styrk, önnur hafa orðið út undan. Frv. þetta er fram komið til að gefa öllum héruðum, sem þess óska, kost á að mynda læknisvitjanasjóði með þriðjungsframlagi frá héraðinu og 2/3 úr ríkissjóði.

Mitt læknishérað er stórt og víðlent og því um miklar vegalengdir að ræða í sambandi við læknisvitjanir, enda er það svo, að stundum kostar bíll upp í 80 kr., og allir sjá, hvað það er óbærilegt gjald fyrir fátæka bændur. Þetta frv. er að vísu ekki stórtækt. Við leggjum til, að einnar kr. framlag komi á hvern héraðsbúa utan þess hreppsfél., sem læknir situr í, úr ríkissjóði. Við þorðum ekki að tiltaka hærri upphæð, enda hafa sumir viljað hækka þetta. Ég mun ekki hafa á móti því, en við vildum sem sagt fara gætilega í sakirnar. Þess er því að vænta, að a. m. k. verði samþ. sú upphæð, sem í frv. er tekin til.