05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög

Ísleifur Högnason:

Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að ég mundi gera skil einni brtt. okkar, við 15. gr. fjárlfrv., um styrk til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna, að styrkurinn verði hækkaður upp í 250 þús. kr. Í hinu upprunalega fjárlfrv. er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á þessum lið. Gegnir það furðu, að þess skuli ekki hafa verið gætt í upphafi, að þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, þurfa að njóta dýrtíðaruppbótar sem aðrir. Ég sé reyndar, að í brtt. fjvn. er þessi liður hækkaður í 90 þús. kr., en það nær vitanlega engri átt að hækka ekki lífeyri skálda og listamanna nema um 12%, þegar vísitalan hefur hækkað um 50%. Ef þessi liður hefði átt að haldast óbreyttur með tilliti til aukinnar dýrtíðar, hefði hann átt að vera 120 þús. kr. — Nú er það vitað, að tekjur ríkissjóðs fara langt fram úr áætlun, en fjárveiting til skálda og listamanna hefur verið skorin mjög við neglur á undanförnum árum; er því þessi hækkun vel verjandi.

Þá kem ég að hinu atriði till., að breyta til um það, hverjir skuli hafa úthlutun styrksins á hendi. Tvö undanfarin ár hefur menntamálaráð úthlutað styrknum. Ég þykist ekki fara með neinar öfgar, þegar ég segi, að óréttlætið við úthlutun þessarar fjárveitingar fer stöðugt vaxandi, sem er ekki að undra, þegar formaður menntamálaráðs, hv. þm. S.-Þ., er maður, sem mjög leikur á tveim tungum, hvort hægt sé að taka alvarlega. (Forseti hringir.) Nægir í því sambandi að vísa til ummæla hans í síðasta tölublaði Tímans, sem eru svo gróf og fjarri öllum sanni, að mig furðar á, ef framsóknarmenn fyrirverða sig ekki fyrir að hafa þennan mann í formannssæti flokksins stundinni lengur. (Forseti hringir): Ég hef ekki gengið lengra í ummælum mínum en algengt er hér á þingi, og ef ég hefði þingtíðindin hér við höndina, gæti ég sannað hæstv. forseta, að hv. þm. S.-Þ. hefur margsinnis viðhaft hér verri orð.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég taka dæmi úr umræddri grein máli mínu til sönnunar, að það sé ekki vansalaust að láta formanni stærsta þingflokksins líðast slík skrif, en Alþingi hafði þá, sem kunnugt er, mótmælt handtöku og brottflutningi þriggja íslenzkra þegna, þar á meðal eins alþm.

Hv. þm. S.-Þ. segir í upphafi greinarinnar, að Alþ. hafi gert skyldu sína að mótmæla handtökunni. Sjálfur uppfyllti hv. þm. ekki þá skyldu, því að hann stökk burt af fundi ásamt hæstv. atvmrh., áður en gengið var til atkvæða. — Síðar í greininni reynir hann að draga úr mætti mótmæla Alþingis með því að saka þann flokk, er hér átti hlut að máli, um þá glæpi, að það væri óverjandi, ef satt væri, að hafa þessa menn. lausa í þjóðfélaginu.

Hv. þm. segir t. d. í umræddri grein, með leyfi hæstv. forseta : „Þeir hafa (þ. e. kommúnistar, og á hann þar við Sósíalistafl.) reynt að frysta tilfinningu landsmanna fyrir þjóðerni og sjálfstæði.“ — Og enn segir hann : „Þegar þjóðinni dauðlá á, að sjómenn gætu fengið vernd við störf sín, prédikuðu kommúnistar, að sjómenn ættu að vera verndarlausir og réttdræpir, hvar sem til þeirra næðist.“

Það er formaður stærsta flokksins á Alþ., sem leyfir sér að viðhafa slíkar fullyrðingar og í þeim tilgangi að gera að engu þau mótmæli, sem Alþ. hafði samþykkt fyrir viku síðan. Ég nenni ekki að hafa yfir allan þann orðaflaum, smekkleysur. og ósannindi, sem þm. ber á borð fyrir þjóðina í þessu blaðaskrifi, en ég treysti því, að þeir þm., sem meintu eitthvað með mótmælunum, geri ráðstafanir til þess að forða Alþingi frá þeirri smán í framtíðinni, að slíkur áróður sé liðinn gegn samþykktum þess.

Áður hefur verið getið þeirrar óhæfu, að blað utanríkismálaráðherrans skuli viðhafa sams konar málflutning.

Ég vænti, að þm. fallist á að taka styrkveitingar þessar úr höndum menntamálaráðs og fá þær réttum aðilum, sem eru bandalag íslenzkra listamanna og háskólaráð. Eru mörg fordæmi fyrir því, að slíkar styrkveitingar eru fengnar í hendur þeim samtökum, sem þeirra eiga að njóta, t. d. Búnaðarfélagi Íslands, verklýðsfélögum o. fl.