12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

123. mál, læknisvitjanasjóður

Magnús Jónsson.:

Ég ætla ekki að andmæla þessu frv. Það getur vel verið að full ástæða sé til að stofna slíka sjóði sem þessa. Ég vil aðeins benda á í sambandi við þetta frv. og reyndar fleiri mál, sem liggja fyrir þinginu nú, að það er hálfóviðkunnanlegt að vera að stofna til svona sjóða, samhliða því, sem frestað er framkvæmdum svipaðra laga með sérstökum 1. í bandorminum svokallaða, og lægi nær, að það væri borið fram frv. um það að hætta þeim frestunum. Þar er að ræða um sjóði, sem ætlazt er til, að lagt sé fé til á hverju ári, en sem með bandorminum er a. m. k. dregið úr eða jafnvel alveg frestað greiðslu til á þessu og þessu ári. Og svo á sama tíma, sem þetta er gert, finnst mér dálítið hjákátlegt að vera að stofna til þess, að ríkissjóður greiði í nýjan sjóð á meðan aðrir sjóðir, sem fyrr voru stofnaðir og ákveðið er að leggja fé til árlega, eru ekki leystir úr álögum. Ég býst við, að ef þrengir að hag ríkissjóðs, verði það svo, að slíkum sjóðum sem þessum verði bætt við bandorminn og sagt, að á þessu ári skuli ekki greiða þetta tillag.

Það var frv. á ferðinni um það að leggja allmikið fé til Samábyrgðarinnar. Ég held, að ég hafi hreyft því þá, að það væri einkennilegt að ákveða það á sama tíma sem árlegum greiðslum, ákveðnum með 1. fyrir löngu síðan um stofnfé Landsbankans, 100 þús. kr. á ári, er frestað.

Ég vildi mælast til þess, að hæstv. Alþ. athugaði þetta, að ekki verði sett mikið af slíkum sjóðum á stofn á meðan það sér sér ekki fært að leysa úr álögum stofnsetta sjóði, sem eiga að fá fé úr ríkissjóði, en er frestað fjárframlagi til þeirra ár frá ári.