05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég hef ekki ástæðu til annars en þakka fjvn. fyrir meðferð hennar á frv. samkv. brtt. og nál., sem lagt hefur verið fram. Í sambandi við fyrsta þátt nál., þar sem rætt er um ráðstafanir á handbæru fé ríkissjóð skv. yfirliti um hag ríkissjóðs á síðastl. ári, og þau ummæli hv. frsm., að n. kysi helzt, að ríkisstjórnin hefði ekki algert einræði um ráðstafanir á því fé, vil ég vekja athygli á, að til eru l. um jöfnunarsjóð ríkisins frá 1932, þar sem settar eru sérstakar reglur um það, þegar tekjur ríkissjóðs fara verulega fram úr áætlun, og yrði ríkisstj. bundin við fyrirmæli þeirra laga.

Hins er ekki að dyljast, að n. hefur í till. sínum um ráðstafanir á þessu fé farið talsvert lengra en gert er ráð fyrir í þessum lögum. Ég skal ekkert um það segja, hvort ástæða sé til að fara eftir þeim fyrirmælum óbreyttum, en tel hins vegar ekki heimild til þess að fara í bága við gildandi lagaákvæði. Annars skal ég ekki gera þessar till. n. að frekara umræðuefni, því að ríkisstj. hefur ekki enn haft tækifæri til þess að taka afstöðu til þeirra. En það er enginn vafi á því, að stjórnin mun gera sér far um að fara eftir óskum n. svo sem unnt er.

Nú ber hins vegar þess að gæta, að þó að nokkuð þætti tvísýnt um afkomu ársins 1942 og jafnvel yfirstandandi árs, þegar fjárlfrv. var lagt fram hér á þingi, þá getur engum dulizt, að nú er enn þá tvísýnna um hvort tveggja. Eins og við vitum, hafa siglingar stöðvazt nú um hríð, og enn þá vitum við ekki, hvernig til tekst um aðdrætti til landsins á næstunni. Af þessu leiðir, að allt er í óvissu um tekjur ríkissjóðs af innfluttum vörum til landsins, allar tolltekjur. Það gæti vel farið svo, jafnvel þó við vitum, að allmikill tekjuskattur muni falla til ríkissjóðs á þessu ári af tekjum síðastl. árs, að afgangurinn yrði minni heldur en menn hefðu búizt við, jafnvel svo, að það gæti verið þung áminning um það að fara enn varlegar í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1942 heldur en fram að þessu hefur verið búizt við, að ástæður leyfðu. Ég er ekki með þessu á nokkurn hátt að áfellast n. fyrir afgreiðslu hennar á frv. Því fer fjarri, að ég hafi nokkra ástæðu til að gera ágreining við hana um þær till., sem hún hefur komið með, miklu frekar mætti segja, að eftir því, sem allt virtist horfa við þá, hafi hún farið miklu frekar varlega í sakirnar heldur en hitt.

Eins og hv. frsm. skýrði frá, þá leggur n. til, að gjöld ríkissjóðs verði aukin um 1.6 millj. kr. Þar af eru 600 þús. kr. leiðrétting á áætlun um verðlagsuppbót. Af þeirri rúmri millj., sem þá eru eftir af hækkunartill., sé ég, að 830 þús. munu vera til verklegra framkvæmda samkv. 13. gr. og 112 þús. samkv. 16. gr. Það eru þá ekki miklar upphæðir, sem fara til annars en þarflegra hluta, sem n. leggur til, að lagt verði í. Ég skal taka það fram út af sumum hækkunartill., að í frv. var að vísu gert ráð fyrir nokkurri hækkun til ýmissa þeirra hluta, sem n. vill gera, en það er náttúrlega matsatriði hjá hverjum og einum, hvað eigi að verja miklu fé á hverjum tíma, jafnvel til nauðsynlegustu hluta. Samkv. frv. var t. d. gert ráð fyrir því að auka framlög til nýrra þjóðvega um 100 þús. kr. Nefndin leggur til, að það hækki enn um 186 þús. Framlög til hafnagerða og lendingarbóta eru að mestu leyti nýjar till. frá n. Ég skal í sambandi við þetta taka það fram, að fyrir fjármálaráðuneytinu lágu ekki neinar till. um fjárframlög til þessara hluta, og hefur það líklega stafað mest af því, að menn hafa ekki búizt við, að fært yrði að leggja mikið í slíkar framkvæmdir á næstunni, og ég tel að sjálfsögðu ekki neina ástæðu til að amast við því, að þær fjárveitingar verði settar inn í fjárlögin. Þar sem n. hefur látið haldast heimildina til ríkissjóðs til að lækka ólögbundnar greiðslur úr ríkissjóði, eins og í frv. fyrir yfirstandandi ár stóð, þá er náttúrlega síður en svo ástæða til að amast við því. Hins vegar verður að gera sér ljóst, að maður veit lítið, hverju fram vindur um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, eins og ég hef áður tekið fram. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja mjög um þetta frekar. Af einstökum till. hef ég tekið eftir því, að n. hefur lagt til breyt. um styrk til verzlunarskólanna, sem óvenjuleg eindrægni virtist vera um á síðasta þingi, þ. e. a. s., að styrkur úr ríkissjóði til þessara skóla yrði veittur í hlutfalli við nemendatölu, eins og yfirleitt tíðkast um styrk til skóla. Nefndin leggur til, að þetta sé fært í gamla horfið, að framlögin til þessara skóla verði jöfn. Ég tel þetta ekki sanngjarna breyt. og teldi réttara að halda uppteknum hætti um fjárveitingu til þeirra.

Hækkun n. á styrknum til skálda og rithöfunda um 10 þús. tel ég í sjálfu sér sanngjarna. Ég skil það þó ekki þannig, að þetta eigi að vera eins konar verðlagsuppbót á þessa styrki, því mér er skylt að taka það fram, að verðlagsuppbót hefur verið greidd á þessa styrki, ef til vill með lítilli heimild, en það þótti ekki verða hjá því komizt vegna þeirra mörgu manna, sem hafa þessa styrki svo að segja eingöngu sér til framfærslu. Ég lít því svo á, að þessi hækkun miði frekar að því að veita menntamálaráði frjálsari hendur um styrkveitingar, og er það þá líka í samræmi við till. n. um að fella niður styrkinn til þriggja ákveðinna manna, sem ráðuneytið hefur greitt styrk samkvæmt tilmælum menntamálaráðs, vegna þess að menntamálaráð vildi síður veita styrk til manna, sem sæti áttu í því.

Ég held það séu nú varla fleiri till. frá n., sem ástæða er til fyrir mig að gera að umtalsefni, og held, að ég geti með þessu látið útrætt um málið að þessu sinni. Ég vildi þó vekja athygli á því, að ég er hræddur um, að í uppgerðinni síðast í nál. muni koma fram einhver skekkja, sem þá leiðréttist að sjálfsögðu, þegar frv. verður prentað upp.