25.02.1941
Neðri deild: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti! Ég hef áður flutt frv., sem gekk í sömu átt og þetta frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á 14. gr. síldarverksmiðjul., og náði það að vísu ekki fram að ganga af sérstökum ástæðum.

Eins og hv. þm. mun vera kunnugt, hefur það ákvæði verið í 1. síldarverksmiðja ríkisins, að þær skuli undanþegnar tekju- og eignarskatti til ríkisins og útsvari til bæjar- og sveitarfélaga.

Fyrir nokkru starfaði mþn. að athugun tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Hafði hún meðal annars til meðferðar þetta ákvæði, og lagði mþn. til, að þessu ákvæði væri breytt að því er við kemur útsvarsskyldu, þannig að á síldarverksmiðjur ríkisins skyldi leggja svo kallað framleiðslugjald. Mþn. lagði til, að þetta gjald yrði 1% af söluverði framleiðslunnar. Í meðferð Alþ. breyttust till. mþn. svo, að gjaldið lækkaði niður í ½%, og enn fremur var sett það skilyrði, að gjaldið mætti ekki fara fram úr 25% af álögðum útsvörum. viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags.

Nú er það svo, að í flestum stöðum, þar sem ríkið rekur síldarverksmiðjur, hefur þetta ákvæði um 25% ekki nein áhrif. Á Siglufirði kemur það ekki til greina, að gjaldið verði svo tiltölulega hátt, því að Siglufjörður er svo stór bær, að ¼ hluti útsvara nemur þar hærri upphæð en framleiðslugjaldinu. Á Húsavík og Sólbakka mun þetta ekki heldur skipta neinu máli. Hins vegar er einn hreppur, sem þetta ákvæði kemur algerlega niður á, og ég tel mjög óeðlilega og ósanngjarnlega; það er Presthólahreppur, þar sem Raufarhafnarverksmiðjan er rekin. Eins og nú stendur, eða síðan verksmiðjan á Raufarhöfn var reist, nemur þetta gjald allmiklu meiru en ¼ af útsvörum, sem hreppurinn getur lagt á, og verður hann því, vegna þessara ákvæða, af fjárupphæð, sem hann munar allverulega um. Ég get hins vegar ekki álitið, að hún skipti verulegu máli í þeirri miklu umsetningu sem síldarverksmiðjur ríkisins hafa. Raufarhöfn er vaxandi þorp og sennilega mjög vaxandi á næstu árum, einmitt vegna þeirra framkvæmda, sem þar hafa orðið, þ. e. a. s. verksmiðjubygginganna. Í sambandi við það hljóta að koma til greina á næstunni ýmis opinber gjöld, sem ómögulegt er að komast hjá. Vinnutími verksmiðjanna er ákaflega stuttur; ekki nema 2–3 mánuðir á ári í venjulegu ári. Og á þessum stað er mjög lítið um aðra atvinnu, Þannig að þarna hlýtur að aukast fátækraframfæri. Og meira að segja á árinn sem leið, sem var þó vafalaust miklu betra ár fyrir þorpið heldur en hægt er að. gera sér von um að verði yfirleitt, sáust greinilega spor í þá átt, að fátækraframfærið mundi aukast. Þar sem svo mikið er um að vera nokkurn hluta ársins, eins og þarna, verður óhjákvæmilega að gera ýmsar opinberar framkvæmdir. T. d. er engin vatnsveita fyrir þorpið í heild. Og óhjákvæmilegt verður að gera eitthvað af götum og eitthvað annað til hagræðis fyrir íbúa þorpsins og þá, sem þar eru um síldveiðitímann. Það er ekki sanngjarnt, að bændur í öðrum hluta hreppsins leggi á sig aukabyrði til þess að standa straum af þessum útgjöldum. Þess vegna finnst mér öll sanngirni mæla með því, að sá rekstur, sem þarna á sér stað, standi að verulegu leyti straum af þeim útgjöldum, sem þarna þurfa að vera, a. m. k. að svo miklu leyti, að ekki þurfi verulega að sækja tekjur til þess út fyrir þorpið. Það má vel vera, að einhverjir kynnu að álíta, að nokkur hætta gæti verið á því, að þessu fé, sem þannig yrði aflað hjá síldarverksmiðjum ríkisins, yrði varið til einhvers, sem ekki snerti þorpið. En ef menn óttast það, sem ég tel ástæðulaust, þá er mjög einfalt úrræði til þess að komast hjá því, þ. e. að skipta Presthólahreppi og gera Raufarhöfn að sérstöku hreppsfélagi, og ég hygg, að það mundi engum andmælum sæta heima í héraði, ef það teldist nauðsyn að gera slíkt.

Ég hef ekki fyrir mér nákvæmar tölur um framleiðslu síldarverksmiðju ríkisins á Raufarhöfn, en vitanlegt er það, að tölur ár síns 1940 gefa ekki hugmynd um það, hvernig þær tölur mundu verða að jafnaði, því að ég geri ekki ráð fyrir, að menn geti hugsað sér, að framleiðslan verði að jafnaði eins og hún var síðastliðið sumar eða verð eins hátt og þá. En á síðasta ári hefði ½% gjaldið orðið 25–30 þús. kr. Það er ekki stór upphæð miðað við alla umsetningu síldarverksmiðja ríkisins, og þó yrði gjaldið í meðalárum vafalaust mun lægra.

Ég hef lagt til, að skilyrðið um 25% af álögðum útsvörum falli niður, og ég vona, að hv. d. fallist á, að slíkt sé ekki ósanngjarnt og að það sé ekki ástæða til þess fyrir þetta stóra fyrirtæki, síldarverksmiðjur ríkisins, að hafa þessa upphæð af fátæku hreppsfélagi.

Þegar ég flutti frv. um þetta efni síðast, var í meðferð þingsins bætt inn í það ákvæðum um annað mál nokkuð óskylt, og af þeim ástæðum var frv. fellt í. Sþ. En mínar till. voru samþ. hér í hv. d., og vænti ég þess, að hv. d. hafi nú einnig skilning á þessu máli.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.