17.03.1941
Neðri deild: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Ég á brtt við frv. á þskj. 69. Hv. flm. frv. hefur stungið upp á því, að ég taki till. mínar aftur til 3. umr., og stæði mér á sama um það, ef það skipti einhverju máli. Mér skildist á hv. flm., að hann óttaðist, að till. mundu tefja þennan fund, ef ég tæki þær ekki aftur til 3. umr. En nú veit ég ekki, hvort nokkrar umr. yrðu um þær, og vildi ég, að það kæmi í ljós. Er hér ekki nema eitt mál á dagskrá, svo að ekki er mikil hætta á, að fundur verði mjög langur.

Ég þarf ekki að ræða langt mál um brtt. þessar. Ég tel þessi ákvæði 1. frá 1938, sem um er að ræða, ekki mikilsverð, og legg því til, að þau falli niður. Ætti ekki að vera eftirsjón að þessum gr. Önnur er um það, að ekki sé heimilt að reisa síldarverksmiðjur, nema með leyfi atvmrh., en hin er um það, að ríkið skuli hafa forkaupsrétt að síldarverksmiðjum, sem einstaklingar vilja selja. Ég tel, að nú sé svo komið, að beinlínis sé æskilegt, að menn reisi síldarverksmiðjur, ef þeir vilja, því að nú færist allt í það horf að reyna að vinna útflutningsvörurnar sem mest hér heima. Ástæður útvegsmanna eru rýmri nú en verið hefur um nokkur undanfarin ár, og er ekki ólíklegt, að þeir mundu yfirleitt vilja leggja fé í það að tryggja, að vörurnar yrðu unnar meira innanlands en áður hefur verið. Um hina gr. 1., sem fjallar um forkaupsrétt ríkisins, er það að segja, að hún getur ekki byggzt á öðru en því, að ríkið vilji leggja þennan atvinnurekstur undir sig, en ég held, að þeirri skoðun sé alltaf að minnka fylgi, að ríkið eigi að fást við svo áhættusaman atvinnurekstur.

Ég læt svo nægja þessi fáu orð, og ef ekki eru aðrir, sem gera þurfa athugasemdir, þá. vænti ég þess, að málið verði afgreitt á þessum fundi.