08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þessi umr. hefur orðið nokkru lengri en við hefði mátt búast. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en þar sem umr. hafa leiðzt út á það svið, sem raun hefur á orðið, þykir mér hlýða að gera nokkra grein fyrir minni afstöðu innan n., þó að ég hafi ekki skrifað undir nál, með fyrirvara. En áður en ég vík að því, vil ég segja örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Reykv., án þess að ég vilji vekja nokkrar deilur um það.

Mér skildist á honum, og eins á hv. frsm., að nokkur sigurhljómur væri í rödd þeirra yfir því, að nú væri ætlazt til, að þetta ákvæði væri fellt burt. Ég skal ekki um það dæma, hvað mikill sigur það er. Ég ætla ekki að fara út í sögu þessa máls frá upphafi, en vil aðeins benda á, að þegar þessu máli var fyrst hreyft hér á þingi, mætti það afskaplegri andstöðu margra hv. þm., að nokkuð væri gert af hálfu ríkisins í þessum síldarverksmiðjubyggingarmálum. Það var talið eins og einhver fjarstæða að láta sér detta í hug að reisa svo mikilvirk og dýr mannvirki. Reynslan sýndi, að hér þurfti virkilegt framtak alþjóðar, og einkafyritækin hafa svo farið síðar inn á þessa braut og vilja nú sitja ein að krásinni.

Viðvíkjandi því, að felld sé niður heimild um afskipti ríkisstj. af aukningu verksmiðjanna, vil ég taka fram, að ég álít, að „principielt“ sé rétt, að stj. hafi þessa heimild, til þess að ekki sé farið út í hreinar öfgar í þessari atvinnugrein frekar en öðrum, og það var meiningin á sínum tíma með þessum verksmiðjulögum. Við þekkjum þess dæmi, að ef einhvern tíma er gróði á einhverjum atvinnurekstri, vilja allir leggja inn á þá braut, án þess að gera sér grein fyrir, hvort það er hollt fyrir þjóðina eða hvort framtíð er í slíku. Af þessum ástæðum held ég, að hugmyndin hafi verið alveg rétt, að stj. hefði vald til að hamla á móti óeðlilegum vexti á þessu sviði. En svo hefur það skeð, að ég veit ekki til, að stj. hafi notað þetta vald sitt nema aðeins í eitt skipti, en það var, þegar Siglufjörður bað um aukningu á sinni verksmiðju, en því var neitað, og ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að það hafi ekki verið rétt gert, og það gæti því verið dálítið hæpið, að þessi heimild sé í höndum stj., kannske til þess eins að beita einhvern aðila misrétti, en ég sé ekki, að svo þurfi alltaf að vera, þó að svo hafi orðið í eitt skipti.

Mér er ljóst, að ef flokksbróðir minn, sem á sæti í þessari d., hefði verið hér nú, mundi hann hafa verið hér á öndverðum meiði við mig, svo að við atkvgr. hefðu okkar atkv. sennilega komið til með að éta hvort annað upp. Ég vil ekki nota mér, að hann getur ekki verið hér til að taka þátt í afgr. málsins. Mun ég því sitja hjá við atkvgr. um 1. gr. og láta skeika að sköpuðu, hvað um hana verður.