08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Jónas Jónsson:

Þetta er ekki alveg nýtt mál hér á þingi. Það hefur oft verið um það deilt hér, hvað síldarverksmiðjum bæri að borga í útsvar til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þar sem þær eru. Ég hallast að því, sem hv. l. þm. Reykv. sagði, að þar sem nú er nýbúið að breyta skattal., þá hefði verið réttast að láta þetta mál

bíða, þar til séð væri, hvaða framtíð bíður okkar og hvert straumarnir liggja.

Þá er það sú breyt. sem gerð var á frv. í Nd., að leyfa ótakmarkað byggingu og rekstur síldarverksmiðja. Ég býst við, að sjálfstæðismenn séu „principielt“ með þeirri breyt., því að þeir eru margir því fylgjandi, að sem minnstar hömlur séu á atvinnulífinu, en atvikin hafa nú samt hagað svo til, að sumir þessara manna hafa orðið að beita sér fyrir því, að hömlur væru lagðar á, svo sem hinni raunverulegu einkasölu, sem nú er á saltfiski, sem menn úr þessum flokki beittu sér fyrir og er mjög hliðstæð þessu, sem hér ræðir um. Þetta var brot á þeirri stefnu að hafa ótakmarkað frelsi til atvinnurekstrar, það var brot gegn þeim vilja að hafa frjálsa samkeppni á öllum sviðum, en þeir urðu að ganga þessa braut, af því að þetta frelsi var að drepa atvinnulífið.

Ég ætla ekki að fara inn á þá ósigra, sem þessir menn urðu fyrir um 1932, áður en fiskhringur inn kom, en þeim mönnum, sem halda því fram, að ríkið megi ekki blanda sér inn í neitt, vil ég benda á eitt. Í fyrra var ómögulegt að fá af stað nokkra síldarútgerð nema ríkið gerði út, það var orðið svo langt frá því, að það gamla góða frelsi væri lengur til. Það hefði einhvern tíma þótt ótrúlegt, en það var samt þannig, að útgerðin á því tiltölulega sæmilega ári í fyrra neitaði alveg að fara af stað, svo að stj. varð að skerast í leikinn. Sú frjálsa samkeppni, sem áður átti að vera undirstaða alls, var þarna brotin niður alveg gersamlega.

Ég hygg, að þeir, sem líta á þetta frá stefnusjónarmiði, verði að taka til athugunar, að tímarnir eru a. m. k. í bili breyttir þannig, að sú gamla frjálsa samkeppni nýtur sín ekki nú. Ef menn athuga bylgjuganginn í athafnalífi okkar Íslendinga, þá vekur það kannske hneigð til að viðhafa slíkar takmarkanir. Ef einhver maður dettur ofan á það að ganga vel í nýjum atvinnurekstri, t. d. smjörlíkisgerð, þá þjóta fjölda margir aðrir til, svo að atvinnureksturinn gengur niður aftur. Þetta kemur meðfram af því, að við höfum haft mestmegnis einn atvinnuveg í þúsund ár, síðan er farið inn á ótal nýjar leiðir, og kemur þá þetta þroskaleysi fram. Ég tek eitt dæmi viðvíkjandi síldarverksmiðju, sem sýnir, að nokkuð mikil hætta er á öfgunum. Það höfðu verið reistar fjórar síldarverksmiðjur á prívatgrundvelli, sem allar höfðu lent í vandræðum og orðið að leita til ríkisvaldsins. Sólbakki var einkafyrirtæki. Síðan tók Útvegsbankinn við verksmiðjunni og stórskaðaðist. Og landið neyddist til að kaupa verksmiðjuna miklu dýrar en vit var í og hefur stórskaðazt flest árin síðan. Svo get ég minnzt á fyrirtæki, sem ég var lítillega riðinn við í mínu kjördæmi, verksmiðjuna á Húsavík. Þar var byggð bryggja og svo stofnað hlutafélag, og gekk þetta vel fyrst í stað. Verksmiðjan var vel gerð, en aðstaða var að nokkru leyti óhentug þarna undir bakkanum. Fyrsta vorið sögðu forgöngumennirnir á Húsavík: Við treystum okkur ekki til að reka verksmiðjuna sem einkafyrirtæki. Svo er komið til mín sem þingmanns kjördæmisins, af því að ég studdi líka málið, þó að ég hefði satt að segja ekki mikla trú á því, — og ég er beðinn að biðja ríkisstj. að taka að sér verksmiðjuna. Svo liðu tvö ár. Þá kom ný beiðni um að reyna að fá ríkið til að kaupa. Síðan var það gert, og vildi þá svo til, að þá hafði verið gróði á þessari litlu verksmiðju fyrsta stríðsárið.

Verksmiðjan á Seyðisfirði var sett til að hjálpa kaupstað, sem erfitt átti uppdráttar gegn hnignun sjávarútvegsins. Sama var um Norðfjörð. Báðar þessar verksmiðjur lentu svo inni á banka. Og frá bönkunum er tilhneiging til að koma þeim inn á ríkið, af því að hvorki einstakir menn eða bankar vilja eiga þær. Mér er kunnugt, að Landsbankinn tapar stórfé á Norðfjarðarverksmiðjunni og yrði sáraglaður, ef ríkið vildi taka við henni.

Að vísu er það svo, að þessar verksmiðjur allar, á Sólbakka, Húsavík, Seyðisfirði og Norðfirði, gera talsvert gagn. En það er bara þetta, að þeir, sem standa svo fast á grundvelli hinnar gömlu samkeppni í iðnaði og atvinnurekstri, verða að athuga það, að ekki má við það una, að einstaklingar þjóti upp með sín einstaklingsfyrirtæki til þess að gefast svo upp á fyrsta ári. Í þessu álít ég liggja ákaflega mikla hættu í okkar mjög svo demokratiska þjóðfélagi. Og nú segja aðstandendur ríkisverksmiðjanna: Það er búið að setja upp á okkur verksmiðjur, sem okkur hefði aldrei dottið í hug að byggja, hvernig eigum við svo að láta þær keppa við aðrar verksmiðjur, t. d. á Svalbarðseyri og Skagaströnd? Svona getur ríkið orðið að sitja með flestar prívatverksmiðjur, sem fara á hausinn. Verksmiðjurnar á Djúpuvík og Hjalteyri eru náttúrlega byggðar á góðum stöðum.

Þetta er mjög athugandi fyrir alþm., hvort eigi að hjálpa beinlínis öllum, sem vilja stofna slíkar verksmiðjur og svo nota hið demókratíiska vald til þess að koma þeim að lokum yfir á ríkið.

Þá vil ég aðeins nefna eitt dæmi, sem mér finnst táknandi gagnvart Sjálfstil. Þegar Kveldúlfur var búinn að undirbúa stofnun Hjalteyrarverksmiðjunnar, var tregða hjá þáverandi atvmrh. um að veita leyfið. Ég neita ekki, að það komst inn í þetta nokkur pólitík. En ég bið menn að minnast þess, að þrátt fyrir það varð sú niðurstaðan, að leyfið var veitt, af því að það var ekki hægt að rökstyðja mótstöðu gegn slíku fyrirtæki, enda hefur fyrirtækið reynzt að bera sig vel. Þingið gekk í málið og það einmitt flokkur, sem átti í ákaflega harðri baráttu við Sjálfstil., ekki sízt við marga af þeim, sem stóðu að þessu fyrirtæki. Ég hygg þess vegna, að sjálfstæðismenn hafi ekki ástæðu til þess, eins og sakir standa, að gera ráð fyrir, að þessu valdi verði misbeitt. A. m. k. hefur Framsfl. ekki misbeitt sínu valdi, heldur stutt að því, að pólitískir andstæðingar fengju leyfi, sem þeir gátu fært full rök fyrir, að þeir ættu að fá. Og ég álít, að þetta mætti gjarnan standa fáein ár enn. Ég gæti vel hugsað mér að leysa þessi bönd, þegar stríðið er liðið hjá og atvinnuleysi kann að verða, en eins og sakir standa tel ég enga hættu að hafa þetta aðhald eins og það er. Og a. m. k. getur Sjálfstil. ekki borið okkur á brýn, að við höfum misnotað þetta pólitískt á þeirra mönnum.