05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, fjárlög

Jón Ívarsson:

Það eru aðeins tvö atriði í till. fjvn., sem ég vildi leita upplýsinga um. Má vera, að það sé vegna þess, að ég er ókunnari gangi mála hér á þingi en aðrir hv. þm., enda hef ég verið hér skemur. Annað atriðið er c-liður við 13. gr., til hafnargerðar við sunnanverðan Faxaflóa, 250 þús. kr. Af því að hér er um stóra upphæð að ræða og ég er ókunnugur þessu, þá þætti mér æskilegt að fá frekari upplýsingar um þetta áður en til atkv. er gengið, enda þótt hér kunni að vera um nauðsynlegt fyrirtæki að ræða. Mér virðist „við sunnanverðan Faxaflóa“ vera rúmt hugtak, og því væri gott að fá um þetta nánari skýringar og greinargerð um þann undirbúning, sem kynni að hafa farið fram þessari hafnargerð víðkomandi. Hitt atriðið er undir d-lið við sömu gr., til hafnargerðar við Lónsfjörð, 10 þús. kr. Mig langar til þess að spyrja um, hvort hér á að veita fjártillag úr ríkissjóði án þess að nokkuð sé lagt fram frá öðrum þeim, sem hlut eiga að máli. Ég tel sjálfsagt, að allir hlutaðeigendur fái að vita um þetta, og þá einnig þingm., áður en þeir eiga að greiða atkv. um fjáveitinguna. Mörg fjárframlög til hafnargerða eru þannig, að tilskilið er, að viðkomandi bæjarfélag eða hreppsfélag leggi eitthvað tiltekið fram á móti ríkissjóðstillaginu, en hér er ekkert um það greint, og vil ég því óska skýringa um það.