16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Ég vil leyfa mér að rifja upp með fáum orðum gang þessa máls. Þegar ég flutti þetta frv. á öndverðu þingi, var efni þess hið sama og nú. Það var flutt til að koma í veg fyrir, að ákvæði um gjaldskyldu síldarverksmiðja kæmu óréttlátt niður. Þá hafði ég sérstaklega í huga einn stað á landinu, þar sem starfrækt er ein stærsta síldarverksmiðja ríkisins, og vildi girða fyrir, að bændur hreppsins þyrftu að taka á sig allverulega útsvarsbyrði fyrir þorpið, sem myndast um verksmiðjuna. Hv. sjútvn. féllst á málið með einni smábreyt., sem mér þótti ekki skipta máli. Einn af nm. flutti brtt. um allt annað efni, og var hún þó samþ., en Ed. felldi hana síðan niður. Að öðru leyti var þessi hv. nm., 5. þm. Reykv. (SK), fylgjandi frv. eins og n. öll, og skil ég ekki, að hann skuli geta snúizt móti því nú, er það liggur fyrir í upprunamynd sinni. Með því að fullvíst má telja, að það yrði sama og að fella frv., ef brtt. á þskj. 529 yrði samþ., vil ég skora á hv. 5. þm. Reykv. að taka hana aftur, og væri mér það kærast, en að öðrum kosti vil ég eindregið biðja þá þm., sem eru með frv., að greiða atkv. gegn brtt.