05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það eru tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Hið fyrra er um framlag til byggingar brúa.

Mér virðist það ekki rétt, að fjvn. ein fái að ráða öllu, er að því lýtur. Mér virðist, að það ætti að leggja slíkt fyrir þingið, því ég vil einnig hafa tillögurétt í því.

Hitt atriðið er till. um 250 þús. kr. til hafnargerðar við sunnanverðan Faxaflóa. Hæstv. atvmrh. sagði í sinni ræðu, að þessi höfn væri hugsuð nokkuð á annan veg en aðrar hafnir. Þetta ætti að verða nokkurs konar landshöfn.

Nú er svo, að aðkomubátar, sem stunda sjó hér við Faxaflóa á vetrarvertíð, þurfa að gjalda mjög hátt viðlegugjald til þeirra, sem landið eiga, og jafnvel hefur þetta keyrt svo úr hófi fram, að allur sá hagnaður, sem þeir höfðu af aflanum, fór í þetta, og þeir gengu slyppir og snauðir frá borði. Þess vegna þyrfti, ef þetta ætti að vera fríhöfn, að tryggja það, að eigi færi allur hagnaðurinn í eintóm viðlegugjöld og væri gleyptur af landeigendum. Þetta ætti hv. fjvn. að taka til athugunar. — En hitt skil ég ekki, hvernig hæstv. atvmrh. ætlar að tryggja öryggi Keflavíkurbátanna, úr því að höfnin á ekki að verða þar.