27.03.1941
Efri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

23. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta frv. er komið frá Nd. og er flutt þar af hv. þm. N.-Ísf. Efni frv. er, eins og sést af grg., að koma í veg fyrir, að næmir sjúkdómar berist til landsins. Það er engum vafa bundið, að þessi breyt. er nauðsynleg, ekki sízt eins og nú er háttað. Fyrri breyt. miðar að því, að fulltrúar utanríkismálaráðun. erlendis geri sér far um að fylgjast sem bezt með sóttarfari, hver í sínu umdæmi, og vera við því búnir að gefa skipstjórum, er sigla vilja til Íslands, leiðbeiningar þar að lútandi. Slíkar sóttir eru mjög tíðar og geta komið fyrir í hvaða landi sem er, og er nauðsynlegt, að tilkynningar um þær liggi fyrir hjá fulltrúum utanrmrn. og þetta tilkynnt, þegar slík hætta vofir yfir. Þetta hefur ekki verið nógu greinilega orðað, og er hér fært til skýrara máls og ákveðnari framsetningar.

Síðari brtt. miðar að því að tryggja umbúnað líka, sem flutt eru til landsins, svo að ekki geti stafað hætta af og sjúkdómar borizt til landsins á þann hátt.

Allshn. leggur til, að þetta mál verði samþ. óbreytt.