09.04.1941
Efri deild: 34. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

78. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Ég gat þess við fyrri umr. málsins, að frv. hefði komið frá búnaðarþinginu, en n. hefði þá ekki athugað, hvort hún féllist á það í öllum atriðum eða gerði brtt. Síðan hefur n. haldið fundi um málið, og ber hún nú fram nokkrar breyt., sem allar eru smávægilegar, og eru ekki nema 2 af þeim efnisbreytingar. Fyrsta brtt. er gerð til þess að bæta úr því, að þar hefur sýnilega fallið niður orð, og þarf það ekki frekari skýringar við. Önnur brtt. er aftur á móti dálítil efnisbreyt., hvað a-lið snertir. Í frv., eins og það kom frá búnaðarþingi, var lagt svo fyrir, að ríkið skyldi koma upp uppeldisstöð fyrir stóðhesta. Úr þessu er svolítið dregið með því að hafa þetta aðeins sem heimild. B-liður er ekki annað en orðabreyting, sem n. þótti fara betur á. Þriðja brtt. er sömuleiðis allt orðabreyt., — Þó mætti kannske segja, að ofurlitlu munaði með d-lið. Í frv. stóð, að þau hross, sem sýndu sérstaklega góða frammistöðu, skyldu fá viðurkenningu, en hér er sagt : „Þau, sem fram úr sköruðu.“ Það kann að vera að ofurlítil efnisbreyt. sé í 4. till. Eins og málið kom frá búnaðarþingi var lagt til, að allar greiðslur eftir búfjárræktarl. væru greiddar með dýrtíðaruppbót

eftir vísitölu, kauplagsnefndar, en hér er lagt til, að verðlaunaveitingar á sýningum verði undanskildar dýrtíðaruppbót. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera brtt. að frekara umræðuefni.