15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

79. mál, landnám ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég var ekki svo nærstaddur, að ég gæti gert neinar athugasemdir við frv. í þeim umr., sem fram hafa farið um það utan þings. Enda átti ég þar ekki aðgang að. En eftir því, sem grg. hermir, renna sterkar stoðir undir þetta frv., þar sem það er flutt fyrir hæstv. ríkisstj. og hefur verið athugað og samþ., að mig minnir að sé tekið fram hér í grg., af framfærslun. ríkisis og sömuleiðis af búnaðarþingi.

Maður skyldi nú ætla, að eftir þessa athugun mundi löggjöf um jafnmikilvægt efni og landnám í sveitum landsins vera í samræmi við skoðun og vilja þess fólks, sem nú byggir sveitirnar. En ég er í mjög miklum vafa um, að svo sé. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á því, að það er mjög athugunarvert að skella mjög afleiðingaríkri löggjöf á, og yfir verulegan hluta landsmanna, án þess að nokkur trygging sé fyrir því eða einu sinni nokkrar líkur fyrir því, að þessi mál hafi verið nokkuð athuguð af fólkinu sjálfu, sem við þetta á að búa.

Það lætur ákaflega vel í eyrum að tala um landnám. En það er vel hægt að nota falleg orð í alveg rangri merkingu. Á að skilja þetta nafn þannig, að sveitir landsins séu ekki numdar, og að það fólk, sem nú er í sveitunum, séu frumbyggjar í sama skilningi eins og talað er um frumbyggja í nýlendum, sem eiga að víkja fyrir innflytjendum, sem meiri menningu hafa að flytja og meiri þroska? Það liggur ákaflega nærri að ætla, að þessi hugmynd liggi á bak við nafnið á þessu frv., nema svo sé, að nafnið hafi nú orðið til svona af einhverri tilviljun og eigi kannske ekki beinlínis við um þá hlið málsins sem sagt er hér, að hafi verið athuguð af framfærslun. og búnaðarþingi og svo hæstv. ríkisstj. En það er ekki nema eðlilegt, að mér og öðrum komi til hugar, að þegar ríkið ætli að fara að hefja landnám í sveitunum, þá liggi það til grundvallar, að þeirra álit sé, að þeir, sem fyrir eru í sveitunum, séu svo lítilfjörlegir, að landið megi telja auðn eða þar sé ekki um meiri menningu að ræða en hjá frumbyggjum.

Hér er gert ráð fyrir tvenns konar landnámi, skilst mér, þ. e. landám til ræktunar við kaup- staði og sjávarþorp, og í öðru lagi að hefja landnám uppi í sveitunum sjálfum. Hér er náttúrlega ákaflega ólíku saman að jafna, því að kringum bæi og þorp er víða mikið af löndum, sem annaðhvort eru ekki notuð eða ræktuð, kannske fyrir framtaksleysi fólksins, sem þar býr, eða fyrir þær sakir, að einstaklingar eiga þessar lendur og halda þeim kannske fyrir sjálfa sig þannig, að fólkið í þorpinu nýtur þeirra ekki. Aftur á móti geri ég ráð fyrir, að sveitirnar séu yfirleitt fullskipaðar. Ég veit ekki, hvort menn gera sér yfirleitt grein fyrir því, hvaða skilyrði til þess þarf að geta rekið sæmilegan búskap, — búskap með góðri afkomu. Það eru tvö höfuðskilyrði fyrst og fremst. Fyrsta skilyrðið er náttúrlega það, að sá búskapur, sem rekinn er, sem er vafalaust mest nautgripa- og sauðfjárbúskapur, hafi möguleika til að afla fóðurs og nægilegt beitiland og í öðru lagi nægileg markaðsskilyrði, svo að hægt sé að koma afurðum þessa búskapar í sæmilegt verð. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hvað síðara atriðið snertir, þá hafa verið afar mikil vandræði með afurðasölu, svo ríkið hefur hvað eftir annað þótzt þurfa að grípa fram í og hefjast handa um bætur einmitt í þeim sökum að koma afurðum sveitanna í viðunandi verð, þannig að hægt væri að reka búskapinn. Þær búsafurðir eru kjöt og mjólk aðallega. Og allir þekkja, hve miklum erfiðleikum það er bundið að fá viðunandi verð fyrir mjólk, svo að bændur þeir, sem reka kúabú, geti haldið jörðum sínum við og komizt af á sæmilegan hátt. Menn vita líka, að það hefur orðið að flytja mikið af kjöti út úr landinu og selja það oft, ef ekki oftast, fyrir svo lágt verð, að það hefur alls ekki nálgazt það að vera kostnaðarverð, og þar af leiðandi hefur orðið með lagaákvæðum að láta neytendur í landinu borga svo mikið fyrir kjötið, að það bæri einnig uppi hið lélega verð, sem hefur verið á hinum erlenda markaði oftast nær.

Það er sem sé bersýnilega gersamlega ómótmælanlegt, að framleiðslan í sveitunum er svo mikil nú og hefur verið á undanförnum árum, að það hefur ekki verið hægt að selja afurðirnar fyrir viðunandi verð. Það kemur því ekki til nokkurra mála, að hægt sé að bæta hag sveitanna með því að fara að flytja inn í þær einhverja landnema, sem hægt væri að bæta við þar.

Ég hef heyrt sagt, að það hafi verið gert talsvert að því hjá framfærslun., með lánum og ýmsum ráðum, að setja upp stór kúabú. Það hefur átt að vera til þess að blómga sveitirnar, en hefur orðið til þess, að vandræðin hjá bændunum sjálfum hafa orðið enn þá meiri með að selja mjólkina með sæmilegu verði. Það hefur komið berlega í ljós, sérstaklega síðan búfjársjúkdómar mögnuðust hér á landi, að af afréttarlöndum þeirra sveita, sem mest hafa orðið fyrir barðinu á búfjársjúkdómum, hefur komið afurðabetra fé heldur en áður. Hin aukna eftirtekt fjölda manna um þessa hluti sýnir það, að heitilöndin eru að verða ofsetin. Landið er að verða urið og farið að blása upp, einmitt fyrir of mikinn ágang búfjár, og féð gefur miklum mun minni arð fyrir það, að of þröngt er orðið um það á beitilöndunum. Þetta er að vísu mjög lítið rannsakað efni, sem þarf að rannsaka, en líkur benda til þess, að beitilöndin séu ofsetin.

Það kemur ekki til mála, að sú ráðstöfun verði til hjálpar fólki í sveitum landsins að stofna til þess, að árlega fjölgi sauðfé á landinu um kannske nokkrar þúsundir, því að það mundi verða til þess að gera búskapinn erfiðari fyrir þeim, sem fyrir eru, alveg eins og það yrði engin úrbót fyrir þá nautgripabændur, sem eiga nú örðugt með að koma mjólkinni í verð, að fara að setja upp samkeppnisbú við fjósvegginn hjá þeim. Ég vænti, að hv. þm. misskilji það ekki, að ég hef hér aðallega snúið mér að landnáminu uppi í sveitunum sjálfum.

Ég sé, að í þessu frv. er ætlazt til þess, að ríkið taki hér sínar eigin lendur fyrst og rækti og úthluti síðan í blettum, ekki stórum, til þessara nýju landnámsmanna. Hér er tiltekið, hve stórt ræktunarlandið er ætlazt til að geti orðið, sem er aðeins 4 ha., sem ríkið ætlar samt sem áður, að mig minnir, að rækta sjálft fyrir hvert býli. Það er ætlazt til, að það sé hægt uppi í sveitum að rækta 10 ha. á býli, landið sé það stórt. Hamingjan má vita, hvernig það má komast í kring. Svo er talað um, að því skuli fylgja heitiland. En það getur því aðeins orðið, að það sé til. Svo er talað um, að þegar ríkið tekur slíkt land til ræktunar, þá skuli vera minnst sex býli saman.

Þegar maður athugar þetta landnám, tilgang þess og hvaða afleiðingar það muni hafa, þá horfir það þannig við mér a. m. k., að það muni vera ætlazt til þess, að það séu fengnir menn til þess að setjast á þessa bletti. Ríkið muni taka sínar beztu jarðir og búta þær niður fyrir þetta fólk. En ef ríkið á þær ekki til sjálft, muni það seilast til kostajarða frá einstaklingum. Það hefur heyrzt, að með þessu eigi að beina fólksstraumnum úr kaupstöðunum í sveitirnar. Tilgangurinn er kannske líka að sjá uppvaxandi mönnum og þá kannske systkinum fyrir bújörðum, en aðallega til þess að beina fólksstraumnum úr kaupstöðunum til sveitanna. Þetta fólk ætti svo að fá sæmilegt land, þótt lítið sé, eitthvert lánsfé til að reisa bú, og þarna situr svo hver á sínum kollubletti, menn, sem eru úr kaupstöðum. Vel mætti vera, að þar væru sæmilegir menn, sumir hverjir, en flestir félausir, og aðallega þeir, sem ekki hefðu getað unnið sér brauð þar, sem þeir voru, m. ö. o. heldur úrræðaminnstu mennirnir. Hvað mun svo verða úr þessum mönnum, þegar þeir fara að reka búskap þarna við hliðina á þeim, sem eru góðir bændur, sem eru að mörgu leyti vel settir og kunna allt utan að, sem gera ber við búskap, en segja samt, að þeir komist ekki af, en lenda í skuldum og sumir þeirra flosna upp af sínum góðu jörðum? Hvað mun þá verða um úrræðalausa manninn, sem situr félaus á þessum litla bletti, með miklu minni nytjum og minni möguleikum til bjargar? Það virðist bersýnilegt, hvað úr honum yrði. Strax og eitthvað misjafnt kæmi fyrir, og kannske án þess, mundi hann verða hjálparþurfi og með sinn barnahóp ómagi á sveit sinni, og sennilega mundi hann þá flosna upp og flytja aftur í kaupstað og segja sínar farir ekki sléttar. Og ef hann færi á sína sveit, þar sem hann var setztur að á sínum bletti, þá kæmi þar fram í því tilfelli hjálpin, sem átti að veita sveitunum.

Mér sýnist vera stofnað til þessa með ákaflega lítilli framsýni. Það getur varla hjá því farið, ef við hugsum um framtíð manna í sveitunum með einhverri skynsemi, að þá muni menn skilja, að höfuðatriðið er ekki það, að það séu svo mjög margir menn í sveitunum, heldur, að þeir, sem þar eru, hafi góða afkomu, að þeir séu sjálfstætt fólk, sem geti liðið bærilega og geti unað hag sínum bærilega. Hitt er ekki það eftirsóknarverða, að hver reki sig svo að segja á annars horn og enginn hafi nema lélega afkomu.

En það er ekki lítið, sem ríkið á að leggja í sölurnar til þess að framkvæma þetta nýja landnám, til þess að þessir aumingja frumbyggjar séu ekki alveg einir og hjálparlausir, — það er ekki nema hálf millj. kr. á ári; millj. úr ríkissj. beint, og svo helmingurinn af því í fé, sem veitt er til atvinnubóta á hverjum tíma, sem nú um nokkur ár hefur verið ½ millj. kr. á ári. Svo að þetta er ½ millj. kr. samtals, sem á að verja til þessa landnáms.

Nú hef ég hér aðeins minnzt á þann hlutann, sem snýr að sveitunum. En sú hlið þessa máls, sem snýr að sjávarþorpunum og kaupstöðunum, er allt annars eðlis. Og ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að það er geysimikil nauðsyn fyrir þá menn, sem byggja afkomu sína á stopulum sjósóknum, stopulli daglaunavinnu og kannske líka stopulli iðnaðarvinnu, að hafa einhverjar jarðarnytjar. Og ég er alveg sannfærður um, að þessi smábýlabúskapur getur aldrei brauðfætt það fólk, sem hann stundar, nema því aðeins, að það hafi eitthvað annað að styðjast við, svo sem nytjar af sjó, daglaunavinnu eða iðnað. Og ég vil leggja ríka áherzlu á það, áður en þetta mál er afgr., að hér er, viðkomandi fólki í kauptúnum og sjávarþorpum, um gersamlega aðrar ástæður að ræða í sambandi við þetta mál heldur en það fólk, sem eingöngu er ætlað að lifa af landbúnaði. Það er allt annað viðhorf fyrir þá menn að taka svona bletti til afnota, sem setjast á slíka kollubletti uppi í sveit og eiga ekki við annað að styðjast, heldur en hina, sem geta stundað sjó jafnframt eða daglaunavinnu eða einhvers konar iðnað, við hliðina á sínum smábúrekstri.

Ég geri nú ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ. hér við þessa 2. umr., en ég vildi mjög eindregið mælast til þess, að hv. þm. vildu athuga það mjög gaumgæfilega fyrir 3. umr., hvort ekki þarf einmitt að gerbreyta þessu frv., og hvort þetta landnám uppi í sveitum landsins er byggt á nokkru minnsta viti. Ég er alveg sannfærður um, að það bara, fjölgar ósjálfbjarga fólki í sveitunum og þrengir að og verður til meins þeim mönnum, sem þar eru fyrir. Og þó að lítil reynsla sé komin á það, þá er hún þó nokkur komin gegnum nýbýlamálið. Ég hef fylgzt með ýmsum málum í því efni og séð, að menn, sem hafa farið út í þetta, þótt duglegir séu, hafa lent í gersamlegu vonleysi og eru alveg að gefast upp. Eftir örfá ár hafa þeir komizt í basl með þennan litla búskap, sem svo fyrirhyggjulaust var stofnað til. En ég veit, að þessi kollublettabúskaparhugmynd, þetta landnám, sem kallað er hér í frv., hefur fengið miklu meiri byr hjá fólki vegna þess, að málið hefur verið ákaflega einhliða túlkað meðal fólksins, þannig að þetta væri til þess að auka ræktun í sveitum landsins, sem hljómar náttúrlega mjög fallega. En það er ekki alveg sama, hvernig sú ræktun er framkvæmd og hvernig þeir eru settir niður, sem eiga að framkvæma ræktunina og síðan að njóta hennar.

Það er ákaflega eðlilegt, að svona mál fæðist. Það er verið að skipa hér nefndir; þær vilja gera eitthvað. Hér hefur t. d. fæðzt svokölluð framfærslunefnd. Hún hefur sjálf orðið að leita uppi sín verkefni. Hún fann þau ekki strax. Hún hefur gengið með lækjum og keldum, skyggnzt og þreifað fyrir sér, hvort hún fyndi ekki verkefni. Og hún hefur fundið það, að ef hún hefði hálfa millj. kr. milli handanna, gæti hún rótað við mógröf eða eitthvað annað gert. Það er lengi eitthvað hægt að gera. En hér er byrjað á öfugum enda. Þegar vandræði eru fyrir hendi í einhverju efni, á að skipa nefndir til þess að gera till. um að leysa fyrir fram ákveðna hluti, en það á ekki að skipa nefndir til þess, að n. leiti svo að einhverju verkefni eins og saumnál til þess að skapa sér tilverurétt. Ég held, að þetta frv. sé einmitt ávöxturinn af þessu nefndafargani.

Ég skal að lokum taka það fram, að ég mun ekki greiða atkv. um þetta frv., hvorki með né móti, nú, vegna þess að hér er blandað saman töluvert ólíkum málum. En ég býst við því, ef frv. kemur ekki fram undireins aftur, að ég fái tækifæri til þess að undirbúa einhverjar brtt. við það fyrir 3. umr.