15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

79. mál, landnám ríkisins

Steingrímur Steinþórsson:

Mig langar til að segja örfá orð um þetta mál. Þar sem um stórt mál og nýmæli er að ræða, er ekkert undarlegt, þó að það sé töluvert rætt og mótmæli séu borin fram gegn vissum atriðum þessa frv. Þó að ég hafi að vísu staðið hér upp til að mæla með frv. eins og það liggur fyrir, mun ég vera fús til að ræða breytingar, sem fram kunna að koma í þessu sambandi. En það eru viss atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem mig langar til að minnast lítillega á, þótt hv. þm. Mýr. hafi gert þau að umtalsefni í sinni ræðu. Ég skal taka það fram, að það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að hér er raunverulega um tvenns konar mál að ræða, landnám í sveitum og landnám við sjó. Hv. þm. virtist vinsamlegur gagnvart smábýlahúskap við sjóinn, og ég skal taka fram, að það er ég líka. En frá mínu sjónarmiði ber jafnmikla nauðsyn til að hrinda þessum málum í framkvæmd, hvort sem um er að ræða landnám við sjó eða í sveitum. En auðvitað verða nýbýlin að byggjast á öðrum grundvelli og aðrar reglur að gilda, eftir því hvor staðurinn er. Með nýbýlabyggingum við sjóinn er gert ráð fyrir, að landbúnaðurinn verði sem hjálparatvinna fyrir þá menn, sem stunda önnur störf, svo sem sjósókn o. fl. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að þau þorp eru bezt stæð fjárhagslega, þar sem menn hafa getað ræktað landið og notfært sér afrakstur þess sem stuðning við aðalatvinnu sína. Með þessu frv. er ætlunin að koma skipulagi á þennan möguleika til betri afkomu fólksins, á þann hátt, sem reynslan hefur sýnt, að vel hafi heppnazt. Það hefur vakað fyrir framfærslumálanefnd, að fyrirkomulagið verði þannig, þar sem slík byggðahverfi væru reist við þorp, að húsin séu byggð hvert á sínum landskika, og myndist þannig dreifbýli, gagnstætt því, sem nú er í öllum okkar sjávarþorpum, að húsunum er klesst svo mikið saman, að menn verða að taka land til ræktunar alllangt frá. En það gerir þeim óþægilegra að stunda landbúnaðinn í hjáverkum sínum. Að reisa íbúðarhús svona dreift í þorpum hefur að vísu vissa erfiðleika í för með sér, vatnsleiðslur, vegir o. fl. verður dýrara að koma upp í fyrstu, t. d. þarf meiri girðingar og fleiri vatnsleiðslur. En allt eru þetta yfirstíganlegir örðugleikar, og nánari rannsóknir munu leiða í ljós, hvað bezt verður. — Ég mun nú ekki ræða þessa hlið málsins frekar.

Hvað snertir hitt atriðið, að taka land til ræktunar í stórum stíl upp til sveita, vil ég segja það, að ég tel tvímælalaust, að við eigum nægilegt land til þeirra hluta og þurfum því ekki að óttast skort á því sviði, þó að þess gætti í hugleiðingum hv. 5. þm. Reykv. um frv. Slíkt getur ef til vill haft við rök að styðjast með nokkra staði á landinu, séð frá vissum sjónarmiðum, en ef málið er tekið almennt, höfum við miklu meira landrými heldur en nú er fullnotað. Mikið af mýrardrögum og flóum er nú með öllu gagnslaust, nema sem beitiland fyrir vissan búpening nokkurn hluta ársins. Með því að þurrka þetta land upp breytist það með tímanum í harðvelli. Allir þekkja, hve mikil verðmæti eru fólgin í slíku landi.

Ég get tekið undir það með hv. 5. þm. Reykv., að ástæða sé til að rannsaka, hversu mikinn búpening sé óhætt að setja á landið, svo að landið verði ekki ofsetið og lendi í örtröð. Ég get gefið þær upplýsingar, að nú þegar eru grasafræðingar farnir að rannsaka, hvaða áhrif beit hefur á gróðurlandið í heild sinni og einstakar tegundir jurta, ef skepnum er beitt þar að staðaldri. En þessar rannsóknir munu taka langan tíma, enda er hér um stórt viðfangsefni að ræða. En ég álít það hina mestu fjarstæðu, að við höfum nú almennt svo mikinn búpening á beitilöndum okkar, að ógerlegt sé að fjölga búpeningi af þeim orsökum í framtíðinni. Væri harla óglæsileg framtíð sveitanna og landbúnaðarins, ef svo væri í raun og veru. Þegar fólkinu svo fjölgaði í landinu, umfram það, sem nú er, yrðum við að flytja inn þær landbúnaðarvörur, sem skilyrði eru þó góð til að framleiða í landinu, vegna ónógs landrýmis. Ef hugleiðingar hv. þm. væru réttar, þá hlyti að þessu að reka, en ég tel það mestu fjarstæðu, eins og áður hefur verið bent á.

Hvað snertir nýbýlamálin, hafa þau nýbýli, sem byggð hafa verið, gefizt nokkuð misjafnlega. Þó hafa aðeins orðið eigendaskipti á 4 eða 5 nýbýlum af þeim ca. 250, sem reist hafa verið síðustu 5 árin. Fleiri hafa ekki gefizt upp þessi fyrstu ár, sem unnið hefur verið eftir föstu plani að stofnun nýrra býla. Má þó búast við, að einhverjir fleiri bætist við, og þó einkum á þeim stöðum, sem einhver mistök hafa orðið um val á landi til nýbýlanna. En slíkt hefur því miður skeð í nokkrum tilfellum — og þá eingöngu vegna þess, að nýbýlastjórnin hefur ekki fengið að öllu leyti réttar upplýsingar. Á nokkrum stöðum eru nýbýlin reist á svo litlu landi, að ekki nægir til að framfleyta einni fjölskyldu. Mun það stafa af því, að erfitt er að fá land til nýbýla, þó að nægilega stórt landrými sé til. Bændur eru fastheldnir á þessu sviði, og virðast margir þeirra hafa sama hugsunarháttinn og hv. 5. þm. Reykv., að lönd þeirra séu nú þegar fullsetin. Ef þeir eru beðnir um að láta af hendi land til nýbýlamyndunar, tíma þeir sumir ekki að sjá af nema litlum skika, enda þótt þeir hafi fleiri hundruð ha. af arðlausu landi, en ræktunar hæfu, sem þeir aldrei nota.

Mörg nýbýlanna hafa reynzt ágætlega. Í einni sveit á Norðurlandi, þar sem ég þekki til, hafa mörg slík smábýli verið reist á undanförnum árum, og er óhætt að fullyrða, að menn lifa þar mjög sæmilegu lífi. Þeir hafa garðrækt jafnframt kvikfjárræktinni, og afkoma þeirra er góð, þrátt fyrir lítið landrými, enda hefur fólki fjölgað í þessari sveit, en ekki fækkað. Ég vil undirstrika það, sem hv. þm. Mýr. sagði um áhrif þéttbýlisins á fólkið, að það unir sér bezt þar, sem þéttbýlið er mest. Ég get tekið hér Mývatnssveitina sem dæmi. Þar hefur býlum fjölgað mjög ört og fólkinu fjölgað mjög, og nú búa sums staðar 3–4 fjölskyldur á sama bænum, þar sem áður var aðeins ein. Hefur fólkinu fjölgað um 100 manns á tiltölulega skömmum tíma í Mývatnssveit, en þar var heimkynni mitt í æsku. Verður ekki annað séð en fólk lifi þar góðu lífi og uni sér vel í þéttbýlinu, enda hafa risið þar upp mörg nýbýli undanfarin ár. Mætti nefna fleiri sveitir á landinu, þar sem fólkinu hefur fjölgað og ekki flutt burt, enda er það úr strjálbýlu sveitunum, sem fólkið flytur.

Ég er sammála hv. 5. þm. Reykv., að það væri stórkostlegt tjón fyrir íslenzka landbúnaðinn, ef allar okkar stóru jarðir yrðu bútaðar sundur í smábýli. Ég tel mjög heilbrigt, að til séu stór býli, þar sem hægt er að framleiða í stórum stíl og gera tilraunir með einstakar greinar landbúnaðarins. En eins og nú er, virðist fólkið flytja mest frá hinum stóru jörðum strjálbýlu sveitanna.

Þá komum við að því, sem er þungamiðjan í frv. og ætlað er til að ráða bót á þessu mikla böli, en það er að byggja nýbýlahverfi á ýmsum stöðum í landinu, þar sem aðstaðan er góð, þannig að það myndist þéttbýl hverfi, þar sem nokkuð af fólksfjölgun sveitanna gæti setzt að og lifað góðu lífi, í staðinn fyrir að flytja úr sveitunum. Í þessum hverfum þarf að vera fjölbreytt framleiðsla, svo að íbúarnir geti verið sem mest sjálfum sér nógir. Jafnframt kvikfjárræktinni gætu þeir haft garðrækt, alls konar smáiðnað, sem mundi ef til vill koma af sjálfu sér, þegar margt fólk byggi svo þétt saman. Það þyrfti þá ekki að vera upp á náðir kaupstaðanna komið, þó að það þyrfti að fá saumuð föt eða smíðuð húsgögn og amboð, eins og nú á sér víða stað í sveitum. Fólksfæðin er svo mikil, að bændur hafa ekki tíma til að smíða ýmsa hluti til heimilisnota, jafnvel þó að lagtækir menn séu. En þegar svo þéttbyggð hverfi rísa upp, skapast þar iðnaður fyrir allt umhverfið, og ég lít svo á, að í slíkum hverfum þurfi ekki að einskorða atvinnu manna við landbúnað, heldur geti þeir haft jafnframt tekjur af ýmsum öðrum greinum.

Ég tók fram áðan, að ég tel ekki mikinn mun á því, hvort heppilegra sé að reisa slík hverfi við sjó eða í sveitum. Báðar hliðar málsins eru jafnnauðsynlegar, og bezt er að framkvæma það á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. En vitanlega er hér um fjárfrekar framkvæmdir að ræða, sem mun jafnframt taka langan tíma, og fyrstu árin færu eingöngu í undirbúning.

Við verðum að hafa í huga, að þess er ekki langt að minnast, að við höfðum áhyggjur af, hvað ætti að gera fyrir fólkið, svo að það gæti lifað og hefði eitthvað að starfa. Nú hefur þetta breytzt svo fyrir óheppilega rás viðburðanna, að ekki er hægt að fá menn í vinnu, hvorki til sjós eða lands. Við vonum, að ástand það, sem nú ríkir, haldist ekki lengi og þá mun sækja í sama horfið og áður var. Ég lít svo á, að þessi leið, sem farin er í frv., að reisa býli og ræsa fram landið, svo að það verði betra til einhverra nota, sé bæði sjálfsögð og nauðsynleg.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en er fús til að ræða breyt. á ýmsum smáatriðum frv.