06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

79. mál, landnám ríkisins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Landbn. hefur borið fram á þskj. 252 nokkrar brtt. við þetta frv. — 1. brtt. er við 1. gr. Hún er nánast formsbreyt., til þess að færa gr. til betra máls. Sama er að segja um 2. brtt., við 3. gr. Það kom fram aths. við 2. umr. frá þm. N.-Þ. út af ákvæðum 3. gr. um landnám í sveit og við sjó, hvort þetta orðalag bæri að skoða alveg bókstaflega, en það gæti valdið misskilningi. N. þótti því rétt að breyta orðalaginu „í sveit og við sjó“ í „við þorp og kaupstaði í sveitum“.

Brtt. við 4. gr. felur í sér þá efnisbreyt. aðallega, að gert er ráð fyrir því samkv. brtt., að þegar lokið er framkvæmdum samkv. 3. gr. og fasteignamat hefur farið fram, skal gefa ábúanda kost á að kaupa býlið við fasteignamatsverði.

4. og 5. brtt. eru aðeins afleiðingar af öðrum brtt.

Þá liggja hér fyrir 2 brtt. á þskj. 322, frá 4. landsk. þm. og 4. (vara)þm. Reykv. Sú fyrri er um að hækka framlagið, sem til er tekið í frv., upp í 500 þús. kr., en sú síðari um, að niður falli heimild til að verja í sama skyni hluta af fjárhæð, sem veitt kann að verða í fjárl. til framleiðslubóta. N. getur ekki fallizt á þessar brtt. Aftur á móti hefur n. orðið ásátt um að mæla með brtt. hv. 8. landsk. þm., á þskj. 231.