24.05.1941
Sameinað þing: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hef leyft mér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. að bera fram brtt. við 22. gr. Það er XXIX. till. á þskj. 619, um heimild fyrir ríkisstj. að kaupa Kröggólfsstaði í Ölfusi. Þessi jörð mun vera ein af allra beztu engjajörðum í Ölfusi, ef ekki sú bezta, þá önnur sú bezta þar í sveit. Nú er verið að framkvæma mikla engjarækt í Ölfusinu, þurrka forirnar og hlaða stíflugarða. Þessar framkvæmdir kosta mikið fé, en vegna þeirra koma til notkunar allstór svæði, sem engin leið hefur verið að vinna hingað til, sökum þess hvað þetta land hefur verið bleytumikið og illt viðfangs að vinna það. Nú hagar svo til í Ölfusinu, að margar jarðir hafa of litlar engjar, og hafa ábúendur þeirra fengið lánaðar engjar, bæði hjá prestinum í Arnarbæli og eins frá þessari jörð, Kröggólfsstöðum. Enn fremur er í ráði, eins og kunnugt er, að stofna nýbýli í sveitinni. Afkoma þeirra hlýtur að byggjast, næst ræktuninni heima fyrir, á engjunum niðri í Ölfusi. Það er því óumflýjanlegt, ef engin mistök eiga að eiga sér stað, að tryggja sveitinni yfirráð þessara engjajarða. Það þarf engar sérstakar ráðstafanir að gera með Arnarbæli, þar sem það er opinber eign og fullkomið samkomulag um skiptingu á engjum þar, eftir því sem ég veit bezt, en það er nokkuð öðru máli að gegna með þessa jörð, Kröggólfsstaði, ef eigandinn þar selur hana. Nú veit ég til þess, að honum leikur hugur á að selja þessa jörð. Samkv. landslögum á að vísu sveitarfélagið forkaupsréttinn, en ég þekki gerla til þess, að það mun vera nokkrum erfiðleikum bundið fyrir sveitarfélagið að kaupa jörðina, bæði verður þar um verulega fjárhæð að ræða og það er engin trygging fyrir því, þó að það vildi nota forkaupsréttinn, að það treysti sér til að standa straum af kaupunum. Hins vegar er fyrir þetta sveitarfélag, bæði bændurna, sem búa á jörðunum í kring, og ekki síður fyrir þau nýju býli, sem í ráði er að byggja í sveitinni, þetta svo þýðingarmikið atriði, að ekki má láta undir höfuð leggjast að tryggja sveitinni yfirráð yfir þessu landi. Bæði þarf þetta fólk að geta notað landið, og þá er ekki síður á það að líta, að það opinbera hefur lagt mikið af mörkum til umbóta á þessum engjalöndum. Það er því verulega illa farið, ef svo tækist til, ef jörðin yrði seld ef til vill manni úr fjarlægu héraði, sem gæti orðið til þess, að sveitin hefði lítil eða engin not af þessum löndum. Af þessari nauðsyn og brýnu þörf er það, að þessi till. er framborin, og vil ég vona, að þingið líti sömu augum á þetta og við flm. og vilji gera sitt til þess að tryggja þeim mönnum, sem þarna búa og hafa landsins mikla þörf, að það komi þeim til nota. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till.

Ég á till., sem ég hef borið fram ásamt hv. samþm. mínum. Hún er nú í prentun og hefur því enn ekki verið útbýtt. Veit ég því ekki, hvort hæstv. forseti leyfir mér að fara nokkrum orðum um hana nú. (Forseti: Jú, jú). Fyrst hæstv. forseti vill það, mun ég nota mér leyfi hans. Þessi till. er um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán fyrir Sandvíkurhrepp, Eyrarbakkahrepp og Stokkseyrarhrepp til að koma upp rafmagnsleiðslum frá Sogsvirkjuninni niður í þessar sveitir. Undirbúningi þessa verks er nú alveg lokið. Þó að telja megi, að nú sé eigi mikið rafmagn aflögu við Sogsstöðina, þá er þessi notkun svo lítilvæg, að stöðina munar ekkert um það afl, sem þarf til að lýsa þessa staði, en kostnaðurinn er það mikill við þessa leiðslu, að án lánstrausts er þessum sveitarfélögum ómögulegt að koma henni á. Ef það stæði í valdi þessara sveitarfélaga að koma rafmagninu heim til sveitarbúa frá Sogsstöðinni, mundu þeir fyrir löngu hafa verið búnir að því, en bæði er það, að þeir geta ekki af eigin rammleik leitt rafmagnið heim til sín og einnig er það kunnugt, að á þessu tímabili hefur verið svo mikill gjaldeyrisskortur, að ekki hefur verið hægt að fá gjaldeyri til að kaupa það efni, sem hefur þurft til þessarar leiðslu. Nú hefur að vísu orðið stórkostleg hækkun á því, sem þarf til þessara hluta. Fyrir stríð mun kostnaðurinn ekki hafa verið nema um 300 þús., eða tæplega það. Nú mun hann vera orðinn nærri því þrefalt meiri, svo að ef ætti að hafa líka tilhögun á þessu og ég sé, að lagt er til á þskj. 622 í till. um ábyrgðarheimild fyrir rafvirkjun fyrir Ólafsvík og Sand og Neshrepp utan Ennis, þá mundi þessi ábyrgðarheimild nema 720 þús. kr. Það er talsvert fjölmenni og iðnaður á þessum þrem stöðum, og vitanlega mundi iðnaður þar vaxa mikið, ef kauptúnin hefðu yfir þessu afli að ráða í þennan iðnað. Ég þarf ekki að tala langt mál um það fyrir hv. þm., því að þeir munu vafalaust vera á einu máli með okkur flm. um þá miklu þörf, sem er fyrir þessa menn að fá þetta afl til umráða. Ég vona því, að Alþingi sjái sér fært að verða við þessari beiðni, þar sem hér er um að ræða línu, sem hefur verið undirbúin til fulls fyrir mörgum árum, aflið hefur verið látið ónotað, en aðeins skort fé og framkvæmd til að leiða rafmagnið niður til kauptúnanna. Fólki í þessu byggðarlagi er þetta auðvitað mjög mikið áhugamál, og það væri ekkert undarlegt, þó að það furðaði sig á því, ef Alþingi synjaði nú um ábyrgðarheimild fyrir þessa tiltölulega litlu fjármuni, sem þarf til þess að koma rafmagninu niður í þetta byggðarlag, þegar það hefur á undanförnum árum gengið í ábyrgð fyrir svo tugum milljóna hefur skipt fyrir önnur byggðarlög og bæjarfélög til þess að leysa þessi mál fyrir fólkið þar.

Ég mun þá ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vona, að hv. þm. geri það bezta, sem þeir treysta sér frekast til í þessu efni, en ég er fyrirfram fullviss um það, að svo framarlega sem farið verður að sinna þessum málum, þá verður þessi lína eitt af því fyrsta, sem framkvæmt verður til þess að koma rafmagninu út um sveitir landsins.

Ég vil svo að endingu til viðbótar við það, sem ég hef tekið fram, benda á það, að öll sú mikla raforka, sem hér um ræðir, er tekin í héraðinu sjálfu, og íbúarnir hafa ljósin fyrir augum sér á hverju kvöldi, þegar dimma fer, og það segir sig náttúrlega sjálft, að það eykur ekki lítið á óskir þeirra og þrá að fá þetta ljós og þetta afl leitt heim til sín.