16.04.1941
Neðri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

95. mál, lax og silungsveiði

Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Eins og segir í grg. fyrir þessu frumvarpskorni, þá hefur komið í ljós við framkvæmd l. um lax- og silungsveiði, að það eru nokkrir örðugleikar á stofnun veiðifélaga samkv. fyrirmælum l. Víða hagar svo til, að starfandi eru fiskiræktarfélög, sem hafa viljað taka upp félagsveiði. Þetta er að vísu heimilt eftir ákvæðum l., en ákvæðin þykja ekki nógu skýr og hafa orðið dómstólamál af, eins og mönum er kunnugt. Þess vegna hefur verið óskað eftir því úr ýmsum héruðum, að breyt. á þessum ákvæðum yrðu gerðar, og er þær breyt. að finna í 1. og 2. gr. frv.

Víða hagar þannig til, að á vissum veiðisvæðum sé mjög mikil silungsveiði, en ekki mikil laxveiði, og þess eru dæmi, að það svæði, sem l. kalla fiskihverfi lax, falli ekki saman, við fiskihverfi silungs. Af þessum ástæðum hefur orðið örðugt að stofna sameiginleg fiskiræktar- og veiðifélög fyrir laxveiði og silungsveiði á sama svæði. Nú er miklu auðveldara að hafa veiðifélög og félagsveiði um laxveiði aðeins heldur en lax- og silungsveiði samhliða. 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, að hið síðarnefnda sé hægt, en þó þannig, að ákvæði komi í 1. um að hægt sé að fyrirbyggja það, að með silungsveiði sé hægt að hindra félagsveiði um lax.

Í 2. gr. er tekið fram nokkuð fleira um þetta, og tel ég ekki ástæðu til að rekja það við þessa umr.

Þá hefur líka þótt rétt að taka í frv. ákvæði um að fella niður bráðabirgðaákvæði, sem fylgt hafa þessum l. frá 1932 og fela í sér, að l. hafa ekki verið framkvæmd nema að nokkru leyti. Búnaðarþing; sem haldið var í vetur, hefur samþ. áskorun um það, að þessi bráðabirgðaákvæði væru niður felld. Og okkur flm. frv. hefur þótt ástæða til, í samráði við búnaðarmálastjóra, að taka upp í 3. gr. ákvæðin um brottfall þessara bráðabirgðaákvæða.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til að rekja þetta mál. Ég býst við, að hv. þdm. muni vera það ljóst, eins og ákvæði frv. liggja fyrir. Og ég vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. landbn., þar sem sú n. hefur haft til meðferðar öll slík mál sem þetta.