24.05.1941
Sameinað þing: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög

Jóhannes Jónasson:

Herra forseti! Við 2. umr. fjárlfrv. var felld brtt. frá hv. samflokksmönnum mínum, hv. 1. landsk. og hv. 4. landsk., við 44. lið 15. gr., þar sem lagt var til, að styrkur til lista og vísinda væri hækkaður og enn fremur að aðrir aðilar skyldu ráða úthlutun hans, Ég hef nú við þessa umr. á þskj. 619,XV leyft mér að bera fram nýja brtt. við þennan sama lið, sem er samhljóða þeirri fyrrnefndu að öðru leyti en því, að fjárhæðin er hér lægri.

Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að skýra nokkuð afstöðu mína til þessara mála yfirleitt, og þá ekki sízt þennan þátt, sem mest hefur verið um deilt á síðustu árum, nefnilega styrkveitingar til skálda og rithöfunda.

Það er nokkuð athugavert fyrirbrigði og óþægileg skýring á afstöðu Alþingis til andlegrar menningar Íslendinga, að samtímis því, sem óvenjumikið fjármagn flæðir yfir landið og óvenju ríflegar fjárveitingar eru ætlaðar til margvíslegra efnislega hluta, þá eru fjárveitingar til lista og vísinda látnar standa í stað, því að sú 10 þús. kr. hækkun, sem fjvn. hefur ákveðið við þennan lið, mun fyrst og fremst vera ætluð þremur mönnum, sem þangað hafa verið færðir. annars staðar að.

Á hátíðum og tyllidögum, þegar sanna skal tilverurétt vor Íslendinga meðal annarra menningarþjóða heims, eru þjóðmálaskörungar okkar vanir að staðfesta af miklum fjálgleik, að það séu bókmenntirnar, sem hafi tryggt oss þennan tilverurétt, og það sé hin andlega mennt, sem verið hafi fjöregg vort í hinu harða stríði aldanna, að það sé viðleitnin til listsköpunar og vísindalegrar raunhyggju, sem hafi gert oss að siðuðu fólki og merkilegu. Á slíkum stundum er það, að menn tala um það með grátstafinn í kverkunum, hvernig liðnar kynslóðir hafi vanmetið skáld sín og snillinga. Menn tala með undrun og fyrirlitningu um þann rangsnúna hugsunarhátt, sem þótti ófínt að ganga um göturnar með Jónasi Hallgrímssyni. Menn hrista höfuðið yfir meðferðinni á Bólu-Hjálmari og Sigurði Breiðfjörð. Menn eiga engin orð yfir þann nánasarskap, sem birtist í 600 krónunum hans Þorsteins Erlingssonar, o. s. frv. En um leið og þeir gráta örlög löngu liðinna merkisbera íslenzkrar menningar, gerast þau undur, að þeir standa í harðri styrjöld gegn skáldum eigin kynslóðar, svo að hér á landi hefur ekki verið barizt af meiri hita. og kappi í neinu öðru máli upp á síðkastið. Sú barátta beinist ekki fyrst og fremst að því, að hér sé svo mjög skorið við neglur sér, heldur er það úthlutunaraðferðin, sem styrinn stendur fyrst og fremst um. Eins og hv. þm. er kunnugt, hélzt sá háttur, þar til nú fyrir tveim árum, að styrkurinn til lista og vísinda var veittur beint frá sjálfu Alþingi. Þetta fyrirkomulag var að ýmsu leyti óviðunandi, og í blóra við þá staðreynd var hafin barátta fyrir því, að svokölluðu menntamálaráði væri falið að úthluta allri þeirri fjárveitingu, sem ætluð er til bókmennta, lista og vísinda. Þetta gat í sjálfu sér verið hyggileg ráðstöfun, ef til hennar hefði verið stofnað af einlægum áhuga fyrir viðgangi þessara menningargreina, án tillits til lífsskoðunar eða pólitískrar afstöðu. En því var ekki að heilsa. Baráttan var þvert á móti háð í þeim tilgangi að ná enn betur aðstöðu til algerðrar yfirdrottnunar á vettvangi þessara mála. Ég mundi ekki leyfa mér að bera fram aðra eins staðhæfingu og þessa, svo ósvífið sem innihald hennar í raun og veru er, ef réttmæti hennar hefði ekki verið margsannað af sjálfum formanni menntamálaráðs, hv. þm. S.-Þ., enn fremur af hæstv. fjmrh. við umræðu hér á hv. Alþingi í fyrravetur, þar sem hann ákærði menntamálaráð fyrir sviksemi við vilja Alþingis um það að útiloka algerlega nokkra hættulega höfunda, sem hann svo nefndi, frá styrk til bókmenntalegrar starfsemi. Hafði þó þetta ráð þá þegar sýnt allskörulega viðleitni í þessa átt. Ég ætta ekki að lýsa nánar einræðisviðleitni menntamálaráðs, sem lauk eins og kunnugt er með sigri þess, alltæpum þó. En strax við fyrstu úthlutun kom í ljós, hvert stefndi. Tveir rithöfundar vorir, sem tvímælalaust mega heita höfðingjar í íslenzkri orðlist, voru þegar lækkaðir gífurlega, annar, mesti skáldsagnahöfundur vor fyrr og síðar, lækkaði úr 5 þús. kr. niður í 1800 kr. Allir vissu, að þetta var gert vegna þess, að þessir höfundar voru sósíalistar að lífsskoðun og hafa flestum fremur beitt sér miskunnarlaust gegn öngþveiti þess þjóðskipulags, sem nú er að syngja út sinn eiginn útfararsálm.

Skal ég nú víkja lítillega að réttmæti þeirrar stefnu að ráðast með eins konar hungurárásum á róttæka rithöfunda. Það er öllum vitanlegt, sem það vilja vita, að það er eðli meiri háttar skálda og rithöfunda að skynja næmar og sárar mein samfélagsins en aðrir menn. Þeir eru eins konar brennipunktur þeirra þjáninga og óska, sem hrærast með kynslóð þeirra, þeir eru samvizka samtíðarinnar, það eru þeir, sem hrópa á þá framtíð, sem fólkið innst inni þráir. Getur nú nokkur furðað sig á, þótt slíkir menn „tali strítt“ á tímum slíkum sem þessum, þegar sjálf tilvera mannkynsins og menningarinnar er í veði, — er nokkuð undarlegt, þó að þeir prédiki fánýti þeirrar fleytu, sem hefur strandað á skeri og er að sökkva, er það nokkur furða, þó að þeir bendi á „annað skip og annað föruneyti“, ef það er sannfæring þeirra, að með því móti megi takast að bjarga lífi mannkynsins? Hið eina, sem menn þessir hafa unnið til saka, er það, að þeir eru ófáanlegir til að berja höfðinu við stein staðreyndanna. Þeir vilja endurfæðingu menningarinnar, en ekki hrun hennar, þeir vilja lifa, en ekki deyja. Byltingin, sem sumir þeirra boða, er ekki ósk þeirra, heldur blátt áfram viðurkenning á illri, en óhjákvæmilegri nauðsyn. Þeir vita, að ef svo fer sem horfir, þá hlýtur hún að koma á sínum tíma, hvort sem þeir vilja eða ekki, og þeir skoða það sem hlutverk sitt að skapa henni menningarlegt innihald og bjarga öllu því, sem bjargað verður, í stað þess að hún brjótist út sem þjófur á nóttu, blóðug og blind og tortímandi eins og einhver óviðráðanlegur náttúrufyrirburður. Fyrir þetta eru róttækir rithöfundar um viða veröld auðvaldsins rógbornir og hundeltir eins og óargadýr, ást þeirra á fegurðinni kölluð klám, ást þeirra á sannleikanum guðlast, gegnumlýsing þeirra á eðli staðreyndanna fals og lygi.

Því hæfari og listfengari sem höfundurinn er, því kappsamlegri og lævísari eru ofsóknirnar. Skýrt dæmi um það er hin íslenzka saga um Halldór Kiljan Laxness. Það er eins og þessi frábæri höfundur, sá fyrsti nútímahöfundur vor, er hafið hefur móðurmál sitt til viðurkenningar á heimsmælikvarða, hafi aldrei skrifað neitt annað en sögu eina um „lúsuga tík“ í koti, og þessa sögu á hann að hafa skrifað þjóð sinni til eilífrar svívirðingar í augum umheimsins. Hér gerist á nýjan leik ævintýrið um Bólu-Hjálmar og valdsmennina í Akrahreppi, nú aðeins í enn stórbrotnara formi, — hér er enn um það að ræða, hvort þjóðin á að fá að hlusta á rödd samvizku sinnar eða hvort hún á að þagga niður í henni fyrir fullt og allt. Og svo kemur gamall skólabróðir minn, Halldór Guðjónsson í Vestmannaeyjum, og setur Halldór Guðjónsson frá Laxnesi á kné sér og segir: Jæja, nafni minn, nú skal ég kenna þér íslenzku. Sjáðu nú til: Í síðustu bók frá þinni hendi voru 4000 villur, miðað við venjulegan barnaskólastíl. Hvað heldurðu, að verði úr málinu okkar með þessu lagi?

Er nú ekki von, að vesalings rithöfundurinn spyrji: Erum við staddir í Timbúktú?

Það er auðvitað ekkert auðveldara en að ofsækja rithöfunda fyrir lífsskoðanir þeirra, — þetta er aldagamall siður, sem valdhafar allra þjóða og alda hafa meira eða minna stundað sér til sálubóta. Það er ekkert auðveldara en að kalla þá landráðamenn, föðurlandsleysingja; klámhunda og guðlastara. Það er ekki mikill vandi að ljúga því upp á þá, að þeir lifi á erlendum áróðursmútum. Það er ekki mikill vandi að æpa: Moskva! Moskva ! — hvenær sem þeir gerast of skorinorðir um lífskjör íslenzkrar alþýðu og höggva of nærri hagsmunum sérréttindastéttanna. Hitt mun reynast örðugra, að þurrka sannleikann út úr list þeirra, en örðugast mun þó verða að koma í veg fyrir dóm sögunnar. Mér er sem ég sjái og heyri fyrirlitningu komandi kynslóða, þegar þær fara að læra þann kaflann í bókmenntasögunni sinni, sem fjallar um viðskipti íslenzkra valdhafa við skáld og listamenn þessa merkilega tímabils, sem nú stendur yfir. Þær munu meðal annars spyrja sjálfar sig undrandi þess, hvernig í ósköpunum hafi getað á því staðið, að broddborgurum vorra tíma hafi þótt jafnófínt að ganga um götuna með þeim manni, sem fegurst hefur skrifað um Jónas Hallgrímsson, hugsjónir hans og óskir, eins og samtíð Jónasar þótti ófínt að ganga með honum sjálfum. En ég vil óska þess og vona, að þær nýju kynslóðir framleiði enga broddborgara til þess að ofsækja sín skáld og listamenn.

Norður í landi búa tveir aldraðir bændur, Sandsbræður, báðir góð skáld, þótt með ólíkum hætti sé. Undanfarið hefur styrkur til annars þeirra farið hækkandi, til hins lækkandi, þar til hann var með öllu afnuminn á þessu ári. Ég skal ekki fara út í neinn samjöfnuð á list þeirra, en hitt er kunnugt, að sú hækkandi stjarnan hefur fylgt hvers konar afturhaldi fast að málum, hinn, sem horfinn er, hefur hins vegar hneigzt til róttækra skoðana.

En nú kem ég að því, sem furðulegast er í þessu máli: Mat menntamálaráðs á verðleikum höfunda virðist ekki einu sinni fara eftir stjórnmálalegum viðhorfum einum, heldur einnig stundum eftir einhverjum öðrum dularfullum duttlungum. Kem ég þar að Gunnars sögu Gunnarssonar, bónda í Skriðuklaustri. Hann er enn einn sá höfundur íslenzkur, sem engra tvímæla orkar um, — maður, sem hefur getið sér mikils frægðarorðs með framandi þjóðum og er nú nýlega fluttur hingað heim, eftir harða, en glæsilega útivíst. Honum var þá líka tekið sómasamlega fyrst í stað, heiðraður allra skálda hæst, 4000 kr. — veskú ! En Adam var ekki lengi í Paradís. Við úthlutun þessa árs kom í ljós, að þessi frægi og stórbrotni höfundur hafði fallið í verði um þúsund krónur. Enginn veit til, að hann hafi haft í frammi neins konar pólitískan áróður. Hér var svo sem ekki um neinn Moskva-mann að ræða, því síður mann, sem staðinn hafði verið að neinum sóðaskap. Ekki er sjáanlegt, að maðurinn hafi nokkurn skapaðan hlut til saka unnið, annað en það að frumrita sína fyrstu skáldsögu á móðurmálinu, og það jafnvel skáldsögu fulla af þeirri sveitarómantík, sem liggur víðsfjarri hvers konar snertingu við allan byltingarhug.

Hvernig á nú að skilja slíka atburði? Er það meiningin að leika sér að skáldum og listamönnum eins og köttur að mús? Er meiningin að minna þá árlega á það, að þeir séu eins konar volaðir þurfalingar, sem eigi allt sitt undir einhverri himinhárri náð og megi þakka fyrir hvern mola, sem hrýtur af borðum húsbændanna? Slíkt mætti kannske bjóða smærri spámönnunum, eins og mér og mínum líkum. En að sýna höfuðskáldum þjóðarinnar slíka og þvílíka móðgun, — það er meira en gömul bókmenntaþjóð getur leyft sér að þola. Það væri heldur ekki úr vegi að minna hæstv. Alþ. og hv. menntamálaráð á það, að það eru engir einkafjármunir þeirra manna, sem þessum styrkveitingum stjórna, sem þeir eru þar að ráðstafa, heldur fjármunir alþjóðar, sem hún hefur trúað þeim fyrir að skipta svo réttlátlega sem verða má. Enginn skal fúsari játa það en ég, að örðugt getur verið að dæma í millum verðleika manna frá hinu eina sjónarmiði, sem fært er: sjónarmiði listarinnar. En ég er þess fullviss, að íslenzk alþýða mundi krefjast þess, ef hún ætti á því tök, að fulltrúar tungu hennar og menningar séu ekki hafðir að leiksoppi og látnir hrekjast í öryggisleysi frá ári til árs, og hún mundi ekki síður krefjast hins, að þeir megi hafa og boða þá lífsskoðun, er þeir telja sannasta og réttasta og heiminum öllum til mestrar blessunar.

Nú mun sagt verða, að mér sé mál þetta of skylt til þess að viðhafa um það gagnrýni, þar sem ég sé sjálfur einn styrkþeganna, sem hér er um að ræða. En nú vill svo vel til, að persónulega hef ég ekki yfir neinu að kvarta um gerðir menntamálaráðs. Í hið fyrra skiptið var mér ætluð sama upphæð sem áður frá hæstv. Alþ., í síðara skiptið, síðastl. vetur, voru að vísu klipnar 200 kr. af upphæðinni, og skoðaði ég það fremur sem meinlaust grín upp á valdbeitingu ráðsins en hegningu fyrir „hættulegar skoðanir.

Annars er þessi byltingahneigð menntamálaráðs gagnvart einstaka rithöfundum mér hreinasta ráðgáta. Ég skil formann ráðsins, hv. þm. S.- Þ., mætavel, hann hefur svo rækilega og oft gert opinbera grein fyrir sinni afstöðu til þessara hluta, og ég ætla því ekki að fara að stökkva neinu vatni á þá þjóðkunnu gæs. Það eru hinir aðrir meðlimir ráðsins, sem ég get ómögulega áttað mig á. Að vísu er til þjóðsaga um það, að þeir séu allir „í vasa Jónasar“, eins og það er orðað. En á maður að trúa slíku ævintýri? Á maður að trúa því, að jafnstórir og myndarlegir menn og háskólakennarinn í sögu, landsbókavörður, þjóðskjalavörður og rektor menntaskólans, hv. 1. þm. Skagf., komist allir fyrir í þessum eina vasa? Fyrr mætti nú vera vasinn. Og er þessi vasi þá svo djúpur, að ómögulegt sé að klifra upp úr honum og komast til forsvaranlegra ráðs? En verkin sýna að vísu merkin, því miður, — það hefur svo sannarlega verið á meirihlutavaldi þessara annars svo ágætu manna að koma í veg fyrir þá sögulegu niðurlægingu, sem hér hefur átt sér stað.

En það er einmitt vegna þeirrar sorglegu staðreyndar, sem ég hef tekið upp aftur till. flokksbræðra minna um það, að úthlutun hinna umræddu styrkveitinga verði falin nýjum aðilum : Bandalagi íslenzkra listamanna að því er skáld og listamenn snertir, en háskólaráði að því er til vísindamannanna kemur. Þetta er í fullu samræmi við hina eðlilegustu lausn málsins. Ég veit ekki, hverjir eiga að fjalla um slík mál. ef ekki þeir, sem hafa hina nauðsynlegu sérþekkingu til brunns að bera, og kemur sú skoðun algerlega heim við álit hinna 14 myndlistarmanna, er sent hafa Alþ. ávarp, þar sem þeir mótmæla aðgerðum menntamálaráðs fyrir sína hönd. Það er því óhætt að fullyrða, að brtt. þessi hefur að baki sér óskipt fylgi mikils meiri hluta íslenzkra skálda og listamanna, og vænti ég þess, að hæstv. Alþ. taki þá þýðingarmiklu staðreynd til greina. Reynist ekki svo, verður að líta þannig á, að fulltrúar þjóðarinnar hér á þessar í virðulegu samkomu virði einskis merkisbera hinnar andlegu menningar í landinu, — og hvað er þá orðið um þann tilverurétt þessarar fámennu þjóðar, sem básúnaður hefur verið við hátíðleg tækifæri? Hversu lengi streymir nýtt blóð um æðar vorar með því einu að vegsama hinn. holdsveika öreiga Hallgrím Pétursson, af því að hann er svo löngu rotnaður í gröf sinni? Hversu lengi nærist hinn andlegi meiður þjóðlífsins á því að byggja kirkjur í Saurbæ, Skálholti og á Þingvöllum, ef hin lifandi musteri listarinnar eru óvirt og brotin svo sem verða má?

Þá hef ég enn fremur lagt til, að framlagið til þessara mála verði hækkað úr 90 þús. kr. upp í 120 þús. kr. Ætti ekki að þurfa að mæla með svo lítilfjörlegri hækkun til jafnþýðingarmikillar starfsemi, en nægja að benda á það, að ef íslenzk menning á að sleppa sem ósködduðust úr því blóðuga gullregni, sem nú dynur yfir þessa þjóð, þá kann ég aðeins eitt ráð að margfalda umhyggjuna fyrir hinum andlegu verðmætum í landinu.

Ég skora á hæstv. Alþ., sem ber ábyrgð á kosningu til menntamálaráðs, að sjá svo um, að þetta stríð gegn listinni verði niður lagt og nýr og sæmilegri háttur upp tekinn. Ekki þó sá háttur að semja frið um ósómann, heldur sá, að leyfa samvizku þjóðarinnar að tala, hversu sáryrt og miskunnarlítil, sem hún kann að verða.

Ég ræð þeim, sem unna heilagri ritningu, til að yfirvega vandlega orð Gamalíels, hins lögfróða og vel metna Farísea: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim, því að ef þetta ráð eða verk þetta er af mönnum, verður það að engu; en ef það er frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá.

Íslenzk skáld, íslenzkir listamenn, íslenzkir vísindamenn munu aldrei láta kúga sig til auðsveipni, þeir munu heldur svelta. En það er yðar siðferðilega og menningarlega skylda sem fulltrúa þjóðarinnar að votta lífi þeirra og list þá virðingu og hollustu, sem vera ber, því þjóðin öll krefst þess, að helgasta tilverurétti hennar sé ekki glatað.