24.05.1941
Sameinað þing: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

1. mál, fjárlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Við 2. umr. fjárl. gat ég þess, að ég teldi mjög miður, að fjvn. hefur ár frá ári gengið meira og meira inn á þá braut að draga undan áhrifum Alþ. ýmsar upphæðir og viljað ráða ein, hvernig þeim væri varið. Þetta byrjaði, eins og ég þá lýsti, með því, að hætt var að sundurliða upphæðirnar í fjárl., heldur voru þær sundurliðaðar í nál. Svo var smám saman hætt að sundurliða upphæðirnar einnig í nál. og liðirnir settir saman í eina kássu á fjárl. Ég veit ekki, hvað á að gera við brúaféð, sem nú er á fjárl. Hvað á að gera við brúaféð? Hvað á að gera við féð til dýralækninga, sem leikmenn eiga að fá? Hvaða ólærðir dýralæknar eiga að fá það? Hvaða línur á að leggja til viðbótar einkasímum á næsta ári? Hvaða uppgjafaverkstjórar eiga að fá styrk? Hv. frsm. fjvn. gat þess í svari sínu til mín, að þetta væru misfellur, og ég vænti þess þá, að n. mundi skila framhaldsnál. og koma með sundurliðun um það, hvaða ár ætti að brúa, hvaða leikmenn ættu að fá styrk til dýralækninga, hvaða uppgjafaverkstjórar ættu að fá styrk, hvaða nýjar símalínur ætti að leggja o. s. frv. Ekkert slíkt nál. hefur komið fram, og í ræðu sinni nú hefur hann ekkert minnzt á þetta frekar. Mér finnst, að valdið um þetta eigi ekki að draga í hendur neinnar n. og að það eigi ekki að fela það fyrir hv. þm., hvað þeir eigi að . gr eiða atkv. um. Til þess að ráða nokkra bót á þessu, hef ég gert till. um, að partur af brúafénu verði látinn ganga til að byggja ákveðna brú. Ég hefði viljað sundurliða liðinn allan. En af því að ég hafði ekki. hugmynd um, hvaða ár stæði til að brúa, þá vildi ég láta það vera til samkomulags, því að það mun vera n. sjálf, sem á að ráða því, en ekki hæstv. Alþ. En brtt. mín um þetta, sem fram er komin, byggist á þeirri þörf, sem á því er að brúa þetta vatnsfall, og líka á því, að það er alveg óforsvaranleg afgreiðsla hjá hv. fjvn. að slengja svona saman liðum og fela fyrir hæstv. Alþ., hvað verið er að gera.

Þá minntist ég á það í ræðu, sem ég hef ekki fengið svarað, hve mikil nauðsyn væri á því, að unnið væri á þessu ári aukalega í ýmsum sveitum landsins, þar sem fólkið enn þá er og vantar þó atvinnu að vorinu, til þess að tryggja, að sá vinnukraftur, sem þar er fyrir, færi ekki annað til þess að leita sér atvinnu, og kæmi þá kannske ekki aftur í viðkomandi sveit. Mér skildist á umr. hv. 1. þm. Reykv. (MJ) og hv. form. fjvn. (PO), að í fjvn. væri ágreiningur um þetta, n. væri búin að skrifa hæstv. ríkisstj. eitthvað um þetta, sem hæstv. Alþ. veit náttúrlega ekkert um, hvernig er varið, því að það er líka falið. Ég veit ekki heldur, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekið í þetta mál. Ég tel höfuðnauðsyn á því í mörgum sveitum landsins nú, þar sem fólkið enn er og hefur eins og vanalega heldur lítið að gera yfir vortímann, að ríflega verði lagt fram fé til vegavinnu eða slíkra framkvæmda annarra á þessu ári, til þess að þetta fólk leiti ekki annað að atvinnu, og komi þá kannske aldrei aftur heim í sína sveit.

Brtt. á ég hér nokkrar. Ég benti á það við 2. umr. líka, að ég teldi mjög óviðeigandi að samþ. lið, sem þá var samþ. af meiri hl. hv. þm., um hafnargerð við innanverðan Faxaflóa. Því var þá yfir lýst, að þetta ætti að vera landshöfn fyrir báta, sem bátar af fjarlægum landssvæðum gætu átt víst að fá viðlegu í. En ekki var ákveðið, hvar höfnin ætti að vera. Nú mun ekki vera hægt að gera þessa höfn nema þar, sem landið er einstakra manna eign. Og þegar höfn væri byggð, mundi vegna verðhækkunar á landinu, þar sem höfnin væri gerð, hækka gjaldið fyrir þá báta, sem þar fengju að liggja. Til þess að reyna að láta þetta ekki verða eins og nú er, að viðlegugjöld þeirra báta eru svo há, að það, sem bátarnir fá meira fyrir sinn afla með því að stunda veiðar hér syðra heldur en með því að gera út þar, sem hver þeirra um sig á heima, fer í viðlegugjald, þá hef ég komið með aths. við liðinn, sem ég ætlast til, að verði til þess, ef hún verður samþ., að tryggja það í framtíðinni, að ekki verði okrað á þessum bátum, og til þess að það, sem hæstv. Alþ. hefur samþ. viðkomandi þessari höfn, verði til nota fyrir alla, sem sækja þessa höfn, en ekki fyrir þá, sem landið eiga þar, sem höfnin er sett.

Ég sé, að þrír aðrir hv. þm. hafa komið með aths. við þennan sama lið, sem mér finnst réttmæt. Ég veit ekki, hvernig þessar till. ber að við atkvgr., hvor þeirra kemur á undan. Ég fyrir mitt leyti get verið með báðum till., því að hafnarl. um þetta á að setja, og finnst mér eðlilegt, að inn í þau hafnarl. væri sett það ákvæði, þar sem þessa höfn er ráðgert að gera af ríkisfé, án þess að framlag komi þar á móti, að bátar, sem þangað leita, geti legið þar þannig, að það væri ódýrt fyrir þá. Þessir tveir liðir koma því ekkert í bága hvor við annan.

Þá minntist ég á það við 2. umr., að ég teldi réttara heldur en að samþ. þann lið, sem þá var samþ. um að koma upp safni af landbúnaðarverkfærum á Hvanneyri, að hafa það safn á Hólum í Hjaltadal. Þar er til gamall bær, og þar sem hæstv. Alþ. hefur sýnt nokkra viðleitni um að halda við gömlum bæjum til minja, vil ég benda á, að þar á Hólum er gamall bær, sem ríkið á, sem má gera góðan og hafa fyrir geymslu fyrir slíkt safn. Þessu hefur hv. fjvn. ekki viljað sinna, og liðurinn um Hvanneyri var samþ. Nú legg ég ekki til, að þetta verði tekið frá Hvanneyri. En ég legg til, að veittar verði 3000 kr. til þess að gera við þennan gamla bæ og til að byrja á að koma þar fyrir landbúnaðarverkfærasafni. Ég skil ekki annað en öllum hv. þm. þyki þessi brtt. alveg sjálfsögð. Það hafa allir hv. þm. verið með því að viðhalda gömlum bæjum, þó að ríkið ætti þá ekki, hvað þá þegar ríkið á bæinn og þessi bær er þar, sem eins margir koma eins og á Hólum. Jafnsjálfsagt er líka hitt, að koma upp safni af landbúnaðarverkfærum, og finnst mér þá alveg tilvalið að geyma það í gamla bænum.

Þá sé ég á brtt. hv. fjvn., að hún leggur til, að tekinn verði upp 10000 kr. liður til fyrirtækis, sem nefnt er „Íslenzk ull“. Ég skal ekki leggja dóm á starf þess fyrirtækis. En til þess að ekki fari eins mikið tvennum sögum af því fyrirtæki eins og nú á sér stað, vil ég, ef þessi fjárveiting verður samþ., leggja til, að fjárveitingin verði bundin því skilyrði, að ríkisstj. láti endurskoða reikninga stofnunarinnar og árlega sé gefin skýrsla um starfsemina, samþykkt af endurskoðanda eða endurskoðendum. Þetta hef ég lagt til, til þess að fénu verði ekki fleygt í þetta fyrirtæki án þess að nokkur vissa sé fyrir því, hvað um þetta fé verður.

Þá á ég brtt. á þskj. 622,V með hv. 2. þm. Skagf., um að við 16. gr. bætist nýr liður : Til tilrauna í jarðrækt og búfjárrækt samkvæmt lögum nr. 64 7. maí 1941 40000 kr. Það er búið að samþ. hér áður l. um tilraunir í þágu landbúnaðarins. Þar er tekið fram, að ríkið taki smám saman við þeim tilraunum, sem nú eru starfandi til eflingar landbúnaðinum, og víkki þær út eftir því, sem tímar líða. Nú hefur hv. fjvn. ekki fundizt nein ástæða til að taka upp till. um neitt fjárframlag í þessu skyni. Ég veit ekki, hvort hún hefur hugsað sér, að sú tilraunastarfsemi, sem nú er rekin á Sámsstöðum og hjá Ræktunarfél. Norður lands, eigi að detta niður. Ég vona, að þetta tómlæti sé ekki sprottið af því, að hv. n. bresti skilning á því, að íslenzkir bændur þurfa að byggja sinn búskap á miklu meiri tilraunum heldur en enn hafa verið gerðar. Það er beinlínis undirstöðuatriði fyrir landbúnaðinn að fá úr skorið með vísindalegum tilraunum, hvað bezt henti bæði í jarðrækt og búfjárrækt, sem búskapurinn þarf að byggjast á. Þess vegna vil ég vona, að það hafi verið gleymska, sem olli því, að hv. fjvn. hefur ekki tekið neitt upp í sínar brtt. til þessara tilrauna, en ekki hitt, að þetta hafi verið af ásettu ráði. Ég vona, að hv. fjvn. mæli með því sem heild við hæstv. Alþ., að þessu verði kippt í lag og að Alþ. sýni fullan skilning á því, hve sjálfsagt það er að viðhalda þessum tilraunum og auka þær, en ekki leggja niður.

Þá eru nokkrar spurningar út af brtt. hv. fjvn. Þar eru ætlaðar 20 þús. kr. til Norðfjarðarvegar. Hann liggur frá Eskifirði yfir um fjallið rétt fyrir ofan Vöðlavík, og er nú búið að koma honum allt til Viðfjarðar, en þaðan verður hann að liggja um ófærur inn fyrir botn Hellisfjarðar, þar sem hann þarf á mörgum stöðum að höggvast í hamra, eða sprengja verður kletta úr leið. Ef átt er við þennan veg, er ég á móti brtt.

Hins vegar er til vegur um Oddsskarð og er ekki kallaður Norðfjarðarvegur. Hann mundi kosta margfalt minna. Ef það er hann, sem nú á að skíra Norðfjarðarveg, þá er ég með till. Sá vegur er eins sjálfsagður og hinn er mikil vitleysa.

Þá eru í till. fjvn. 2 þús. kr. til Jóhanns Kristjánssonar til smíða á eldavél. Ég er í sjálfu sér ákaflega eindreginn með þessum lið. En ég er hræddur um, að ef Alþingi vill koma hér til aðstoðar, sé þessi upphæð þýðingarlaus. Sannleikurinn er sá, að Jóhann Kristjánsson er búinn að smíða eldavél, sem heldur afar lengi lifi í eldinum, er ákaflega eldiviðarspör og hitar upp hús eins og miðstöð vær í. Það, sem þarf, er að gefa honum aðstöðu til að koma upp fullkomnu verkstæði eða verksmiðju, til þess að hann geti fullnægt pöntunum, sem honum berast og mundu berast í stórum stíl, ef menn vissu, að þessar vélar fengjust smíðaðar fyrir svipað eða litlu hærra verð en aðrar eldavélar. Þetta getur hann ekki aðstæðna vegna. Mér er kunnugast um þrjár pantanir, sem um mínar hendur hafa farið, hin fyrsta í sept. s. l., og honum er ekki unnt að verða við beiðnunum. Hann þyrfti nokkuð mikið fé að láni eða með ábyrgð. Vélarnar eru þær beztu, sem kostur er á fyrir þorra manna úti um landsbyggðina. Ég skýt því til hv. fjvn., hvort hún sjái sér ekki fært að leysa á einhvern veg úr þessu máli, t. d. í sambandi við landssmiðjuna.

Hv. frsm. hefur nú lagt fyrir mig lista yfir það, hverjir eigi að fá hlutdeild í styrk til dýralækninga. Það er gott, að ég á að fá að sjá það, þó að hv. alþm. sýnist yfirleitt ekki ætlað að fá að sjá það. En honum láðist að leggja einnig fram lista yfir þær brýr og síma, sem eiga að vera í einni kássu saman, og ég vona fastlega, að hann eigi eftir að koma með hann fram í dagsljósið.