04.04.1941
Neðri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti! Frv. þetta er flutt af sjútvn. þessarar d. Mér þykir rétt að fylgja frv. úr garði með nokkrum orðum sögulegs eðlis, því hér er um mjög merka og gamla stofnun að ræða.

Fiskveiðasjóður Íslands var stofnaður fyrir 36 árum, eða árið 1905, og var tilgangur sjóðsins sá að styðja fiskveiðar Íslendinga með hagkvæmum stofnlánum til skipa og stofnana, er vinna fyrir sjávarútveginn.

Þingmenn vita, að sjávarútvegurinn var þá ekki orðinn eins mikill þáttur og ekki eins góð undirstaða eins og hann er nú í afkomu þjóðar vorrar. Þó er eftirtektarvert, hversu farið var myndarlega af stað með sjóðinn.

Strax voru fengnar 100 þús. kr. úr ríkissjóði. Aðrar tekjur stofnsjóðs skyldu vera 1/3 af sektarfé fyrir landhelgisbrot og 1/3 af andvirði upptæks afla og upptækra veiðarfæra vegna landhelgisbrota.

Þá var gert ráð fyrir, að sjóðurinn yrði um 8 millj. kr., og var það stór upphæð í þá daga, þegar þess er gætt, að á þeim tímum var skipastóll landsmanna til fiskveiða mestmegnis árabátar.

Vélbátar þekktust varla og þilskipin voru aðeins til vélalaus. L. voru óbreytt til 1907. Þá var stofnuð sérstök lánadeild fyrir sjóðinn. Jafnframt var ákveðið, að ríkisstj. hefði sjóðinn undir sinni vernd, en úthlutun lána var sett undir 2 menn, er ríkisstj. skipaði. Ætlazt var til, að lánaðar yrðu allt að 40 þús. kr. í eitt skip. L. þessi stóðu til 1930. Þá var gerð veruleg breyting á þeim. Sjóðurinn var fenginn í hendur Útvegsbanka Íslands, sem þá hafði ný skipt um nafn frá því að heita Íslandsbanki.

Þessa milljón króna átti að greiða eftir samkomulagi, og var það á þá lund, að greiða skyldi 100 þús. kr. árlega og upphæðin vera að fullu greidd hinn 1. júní 1941. Lánstíminn var lækkaður niður í 12 ár, svo að lánin hvíldu nú þyngra en áður á lántakendum, og lánsupphæðin var lækkuð svo, að sami lántakandi mátti ekki fá meira en 30 þús. kr. Er sjávarútvegurinn hafði blómgazt mjög um undanfarið 25 ára skeið og fært út kvíarnar, voru þannig smækkaðar kröfurnar honum til handa.

Nú eru liðin 11 ár síðan þessi breyting var gerð, en sjóðurinn hefur orðið fyrir því óhappi að lenda í skuld, vegna starfsemi Útvegsbankans. Var þó hans hluti svo lítill, miðað við þær fjárhæðir, sem hér komu til greina, að við verðum að telja, að kröfurnar hafi verið mjög litlar fyrir hönd sjóðsins, er hann var gerður svo afskiptur. Til dæmis hefur ekki verið fram fylgt kröfunni um greiðslu milljónarinnar frá ríkinu fastar en það, að einar 96 þús. kr. hafa verið greiddar. Varð því sjóðurinn að taka einnar milljónar króna lán í Danmörku. Útlánsvextir sjóðsins voru mjög háir eftir 1930, eða 6¼%, auk 1% lántökugjalds. Þegar allt þetta er athugað, er óhugsandi, að sjóðurinn geti fullnægt þörfum atvinnuvegarins, eins og fyrirkomulag hans er nú. Framan af hagnýtti Útvegsbankinn sér mjög þessa dönsku milljón, og lá mikið af henni á vöxtum hjá bankanum, en hann lánaði aftur út með 7½% vöxtum.

Árið 1938 var l. sjóðsins breytt eftir harða baráttu, og voru nú vextirnir lækkaðir niður í 5½% úr 6¼%, en lántökugjaldið var afnumið. Hæsta lán mátti nú nema 40 þús. kr., eins og var fyrir rúmlega 30 árum, og var þetta þó á síðasta þingi rýmkað svo, að lána mátti 50 þús. kr.

Eignir sjóðsins eru nú, eftir 35 ára starf, ekki nema rösklega 2 millj. kr., en ættu að vera orðnar 8 millj. Þegar athugað er, hverjar framfarir hafa orðið hér á landi á þessu 35 ára tímabili, sem liðið er frá stofnun sjóðsins, og það, hvernig skipastóll landsmanna hefur breytzt að stærð og dýrleik, verður að telja þessar eignir ótrúlega litlar.

Ef menn vilja kynna sér nánar, hver þörf muni vera fyrir stofnun, sem láni stofnfé til útgerðarinnar, þá verður að athuga tvennt: stærð fiskiflotans og það, hvar hægt sé að fá stofnlán til þess að koma upp skipum. Um síðustu áramót voru vélskip hér á landi 1069 og svo 60 árabátar. Auk þess voru svo 50–60 járnskip: línuveiðarar og togarar. Tréskipin, rúmlega 1000 að tölu, eru þau, sem fyrst og fremst þarf að sjá fyrir endurnýjun. Lán til skipasmíða hafa nær eingöngu verið fengin erlendis, og hafa menn orðið að veðsetja fleyturnar til þess að geta fengið lánin. Er ákaflega leiðinlegt til þessa að vita, þar sem um er að ræða svo mikilsverð framleiðslutæki þjóðarinnar. En svo ber að athuga það, að nú er ekki lengur kostur á erlendum lánum til að endurnýja skipastólinn, og er það aðalorsökin að framkomu frv. Vélskip okkar hafa aðallega verið smíðuð á Norðurlöndum, og hafa þá skipasmíðastöðvarnar alltaf lánað talsverðan hluta af skipsverðinu. Ég hef ekki glöggar tölur um það, hve mikið þarf að endurnýja af skipaflotanum árlega, en ég veit, að skip þau, sem tryggð eru hjá Samábyrgð Íslands, eru ekki nema um 500, og koma á þau hér um bil 300 slys og óhöpp á ári, mest smábilanir að vísu, en nokkur skipanna farast þó með öllu. Það má yfirleitt gera ráð fyrir því, að tréskip fyrnist á 20 árum, en fyrningartíminn er auðvitað styttri að meðaltali, ef tekið er tillit til þess, hve mörg skipin farast. Lánsþörfin er því áreiðanlega mikil og hefur vaxið við verðbreytingar þær, sem orðið hafa að undanförnu, enda verður að krefjast þess, að til sé nægilegt lánsfé handa aðalatvinnuvegi landsmanna, eða þeim atvinnuveginum, sem ber að minnsta kosti langmest í þjóðarbúið, þar sem eru 9/10 hlutar af öllu verðmæti, sem út er flutt.

Undirbúningur frv. hefur verið sá, að uppkast þess var tilbúið löngu fyrir þetta þing. Ég fór að undirbúa till. til breyt. á 1. um fiskveiðasjóð, þegar ég sá, að hverju dró um innilokun okkar. Var það ætlun mín, að sjóðurinn gæti orðið svo öflugur, að hann gæti lánað fé til smíða á öllum þeim skipum, sem bættust í fiskiflota okkar. Ég ætlaðist til þess, að hæstv. atvmrh. mælti með frv., en hv. sjútvn. flytti það, en vegna anna hæstv. ráðh. gat ég aðeins rætt það við hann í flaustri. Varð það úr, að hinn 6. marz lagði ég fram frv. á fundi sjútvn. og bað hana að flytja það, eftir að hún hefði gert á því þær breytingar, er henni þættu nauðsynlegar, og hefur hún nú gert þetta. En svo komu til n. tvö önnur frv. frá hv. þm. Borgf., annað um breytingu á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, en hitt um hækkun á fiskveiðasjóðsgjaldi. Höfum við tekið ýmis atriði úr frv. hv. þm. Borgf. upp í þetta frv.

Aðalatriði þessa frv. er um tekjuöflun fyrir fiskveiðasjóð. Ef sjóðurinn á að geta staðið undir öllum stofnlánum til skipaútgerðarinnar, verður að gera ráð fyrir því, að hann hafi allverulegar tekjur. Um þetta vorum við alveg sammála. Eftir þessu frv. á aðaltekjuvon sjóðsins (auk rekstrarteknanna) að felast í því, að hann fái helming af útflutningsgjaldi af hvers konar sjávarafurðum. Ég hafði áður, oftar en einu sinni, farið fram á það í frv., sem ég hafði flutt, að fiskveiðasjóður fengi allt útilutningsgjaldið, að minnsta kosti í nokkur ár, þar til hann væri orðinn fær um að standa undir starfslánum til allra skipa. Þetta hefur ekki þótt fært, því að ríkið þóttist ekki geta misst þessar tekjur. En nú er farið bil beggja og lagt til í frv. því, sem hér liggur fyrir, að sjóðurinn fái helming þessara tekna. Er í þessu fólginn aðalmunurinn á frv. sjútvn. og frv. hv. þm. Borgf., því að samkvæmt hans frv. áttu tekjur sjóðsins aðallega að byggjast á hækkun fiskveiðasjóðsgjalds. Hafa þó tveir hv. nm., þeir hv. þm. A.-Sk. og hv. þm. N.-Þ., áskilið sér rétt til að koma fram með brtt. um þetta. Vilja þeir, að fiskveiðasjóðsgjald sé hækkað úr 1/8% upp í ½%, en sjóðurinn fái þá ekkert af útflutningsgjaldinu.

Annað atriði, sem við erum ekki sammála um, eru útlánsvextirnir, þó að við séum að vísu sammála um það, að lán, sem greiða á innan skamms tíma, hvíla svo þungt á lántakanda, að ekki er hægt að hafa vexti mjög háa. Í þessu frv. er lagt til, að vextirnir verði lækkaðir svo,

að þeir nemi ekki nema 4%, en í frv. því, sem ég samdi upphaflega og bað sjútvn. fyrir, gerði ég ráð fyrir 3% vöxtum, og var þá raunar ekki gert ráð fyrir því, að sjóðurinn tæki lán, heldur gæti lánað fyrir eigið fé. En samkomulag varð um það í n. að heimila sjóðnum að taka allt að 4 millj. kr. lán., og var þá ekki hægt að hafa útlánsvexti svo lága. Stungum við því upp á að hafa þá 4%. Hins vegar töldu hv. þm. N.-Þ. og A.-Sk. ekki fært að hafa vextina lægri en 4½%, og urðum við ekki sammála um þetta, en töldum rétt, að Alþ. skæri úr um það. Um vaxtaatriðið greinir okkur því aðeins á um ½%.

Sjútvn. hefur haft til athugunar greiðslu ríkissjóðs á þeim hluta framlags síns, sem ógreiddur er. Í l. er gert ráð fyrir, að milljónin skuli að fullu greidd fyrir 1. júní þessa árs. Hefur náðst samkomulag við hæstv. fjmrh. um það, að skuld þessi verði greidd, svo sem 1. mæla fyrir, þannig, að ríkissjóður taki að sér það, sem eftir er af danska láninu, um ½ millj. kr., .en hinn hlutinn sé tekinn á fjárl. Ég geri ráð fyrir því, að hv. fjvn. mæli með þessari greiðslu, enda er ekki hægt annað en standa í skilum með lögboðnar greiðslur. Við í sjútvn. litum svo á, að nægileg heimild fyrir ríkisstj. fælist í því, ef þetta væri sett á 22. gr. fjárlfrv.

Ef fiskveiðasjóður fær þetta greitt og fær svo aukatekjur á þessu ári af útflutningsgjaldinu, gerum við okkur vonir um, að hann vaxi brátt, og ef hann kemst fljótlega upp í 8 millj. kr., eins og ætlað var fyrir 35 árum, væri ekki mikið við því að segja, þó að hann tæki nokkurt lán og starfaði með því fé. Það mundi þá ekki þurfa að hækka útlánsvexti mikið eða draga úr vaxtatekjunum.

Vil ég svo mælast til þess við hv. d., að hún afgreiði málið sem fljótast, svo að það geti orðið að 1. þegar á þessu þingi. Legg ég til, að því verði nú vísað til 2. umr., en málið er nýkomið frá n., svo að óþarft er að vísa því til n.