04.04.1941
Neðri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Ég hygg, að þéttskipaðra hefði mátt vera hér í hv. d. en er, vegna þess að mál það, sem hér er til umr., er áreiðanlega eitt af merkari málum, sem lögð hafa verið fyrir þetta þing.

Hv. frsm. n., 5. þm. Reykv., hefur nú í nokkuð ýtarlegri ræðu gert grein fyrir málinu, bæði að því er snertir hina sögulegu hlið þess og eins breytingar þær, er þetta frv. vill gera á l. Hann rakti gang málsins, skýrði frá því, er fiskveiðasjóðurinn gamli var stofnaður fyrir 35 árum, til eflingar sjávarútveginum, og gat þess, að vöxtur hans hefði orðið furðu lítill, síðan hann var stofnaður.

Á löngu tímabili, því tímabili, sem hér um ræðir, hefur hagur sjávarútvegsins sem betur fer verið allgóður. Þess vegna mun minni áherzla hafa verið lögð á það í bili að efla þessa lánsstofnun en annars og fremur að því hnigið að efla aðrar lánsstofnanir, sem þótti enn meiri nauðsyn. Ég hygg, að það vaki fyrir mörgum, meðal annars okkur í sjútvn., sem að þessu frv. stöndum, að fiskveiðasjóður geti orðið á næstu áratugum nokkuð hliðstæð stofnun fyrir sjávarútveginn eins og ræktunarsjóður hefur orðið fyrir landbúnaðinn. Það má segja, að sú starfsemi, sem fiskveiðasjóði er ætluð fyrir sjávarútveginn, sé ekki óskyld þeirri, sem ræktunarsjóði er ætluð fyrir landbúnaðinn.

Í grg. frv. er nokkuð gerð grein fyrir hag fiskveiðasjóðs eins og hann nú er. Árið 1930 voru eignir fiskveiðasjóðs kr. 69785ó.30. Á þeim 10 árum, sem síðan eru liðin, hafa eignir sjóðsins aukizt um kr. 1524258.95. Í árslok 1940 voru eignir sjóðsins því kr. 2222115.25. Vöxtur sjóðsins hefur verið mjög hægfara og skortir mikið á, að hann rísi undir því hlutverki að sjá útgerðinni fyrir stofnlánum eftir þörfum.

Með því frv., sem hér liggur fyrir,er gert ráð fyrir því, eins og hv. frsm. tók fram, að auka nokkuð tekjur sjóðsins, að lækka vexti af lánunum og lengja lánstímann. Auk þessa eru svo tvær breyt. á 1., sem má telja allmikilsverðar. Önnur er sú, að lánsheimildin handa sjóðnum er hækkuð úr 1½ milljón kr. upp í 4 millj. kr. Þannig má gera ráð fyrir því, að mjög fljótt komi að því, að það fé, sem sjóðurinn hefur undir höndum til lána, það geti numið allt að 8 millj. kr., ef lánsheimildin verður að fullu notuð, og það er ekki nema eðlilegt að hugsa sér, að ef tekjuöflunin til sjóðsins verður eitthvað svipuð og gert er ráð fyrir í frv., þá líði ekki á löngu þangað til eigið fé sjóðsins verði komið upp í 4 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir því, að hámarkið, sem verið hefur á lánveitingum til báta, verði fellt niður. Hins vegar hefur n. ekki lagt til, að hámarkið til annarra fyrirtækja verði fellt niður að svo stöddu. En ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég er ekki frá því, að til mála gæti komið að breyta eitthvað til í því efni, þó að ég vilji ekki segja neitt ákveðið um það á þessu stigi málsins. Hv. frsm. gat þess, að við 2 þm., hv. þm. A.-Húnv. og ég, hefðum haft fyrirvara um 2 atriði, og gat hann um, hver þau væru. Ég skal ekki hafa mörg orð um það. Aðeins vil ég skýra frá því, að við munum bera fram brtt. við 2. umr. frv. um þau atriði, er hann nefndi. Við teljum, að sú leið, sem hv. þm. Borgf. lagði til að farin yrði, í því frv., sem hann lagði fram fyrir nokkru síðan um þetta sama mál, að sjóðurinn fengi að taka þetta með sérstöku gjaldi, sé eðlilegri og að ýmsu leyti heppilegri til frambúðar heldur en að tekið væri af vissum tekjustofnum ríkissjóðs. Um vextina má auðvitað rökræða aftur og fram og um það deila, hvað þeir skuli vera, og mun það koma í ljós, hvað hv. þm. telja eðlilegast í því efni. En ég vil segja fyrir mitt leyti og okkar, sem, höfum gert fyrirvarann, að við teljum eðlilegast að ákveða vextina með hliðsjón af vöxtum í þeim lánsstofnunum sem hliðstæðar mega teljast. Við það munum við miða okkar brtt. og þá gera grein fyrir henni með þeim rökum, sem fyrir því liggja.

Ég vil svo að lokum taka undir það, að ég vil óska, að samkomulag náist um afgr. þessa máls, því ég tel það mikilsvert, alveg sérstaklega nú eins og sakir standa, þar sem gera má ráð fyrir, að flotinn þurfi aukningu á næstu árum.