08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég hafði frestað við 1. umr. þessa máls að tala um nokkur atriði, sem ég taldi málinu skyld, vegna þess að ég vissi, að þau mundu koma til umr. nú.

Eins og ég hef áður tekið fram, varð það að samkomulagi milli okkar nm. að láta þingið skera úr um ágreining í þessu máli, sem er að vísu ekki mikill. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi nú þegar athugað, hvaða leið sé bezt að fara um þessi tvö atriði. Annað atriðið, hvernig afla skuli sjóðnum tekna, er raunverulegt samkomulagsmál að mínu áliti. Ef hv. þm. eru minnugir á þessi mál, þá muna þeir eftir því, að þeir hafa oftar en einu sinni farið fram á með frv., að fiskveiðasjóður fengi allt útflutningsgjald af sjávarafurðum til endurreisnar sér og útgerðinni. En hér hefur orðið sú miðlun á, að þeir hafa gengizt inn á að skipta þessu á milli ríkissjóðs og fiskveiðasjóðs. Nú eru margir þeirrar skoðunar, sem er eflaust rétt, að útflutningsgjald af framleiðslu landsmanna er alger hugsanavilla. Það er alveg röng hugsana í því að gjalda skatt af því að framleiða vörur til þess að skapa erlendan gjaldeyri, nema því aðeins, að gróði sé af þessari framleiðslu. Það koma einstöku sinnum stór ár hjá sjávarútveginum og svo koma mörg léleg ár, sem éta upp þann gróða, sem þá hefur orðið. Það er líka enginn vafi á því, að þegar útflutningsgjaldið var ákveðið, var það hugsað sem eins konar gróðaskattur. Það var gert af því, að þetta þótti sérlega arðvænlegur atvinnuvegur þá. En hver maður getur séð það, hve heilbrigt það var að leggja þennan skatt á útgerðina í því árferði, sem var frá 1930 til '44. Á þeim árum var sjávarútvegurinn að tapa öllu, sem hann hafði áður safnað á betri árum, og í staðinn fyrir að eignir hans voru svo að segja skuldlausar, þegar þetta tímabil byrjaði, mátti heita, að ekkert fyrirtæki ætti fyrir skuldum eftir þessi ár. En á þessum árum hefur sjávarútvegurinn goldið í útflutningsgjald af framleiðslunni hátt upp undir eina millj. kr. á ári. Það er bersýnilegt, að þessi skattur var í rauninni eða, kom þannig fram, að hann var ekki annað en refsiskattur fyrir að framleiða gjaldeyrisvörur á hinum miklu vandræðatímum. Ég veit, að hv. þm. vilja ekki, að þetta endurtaki sig. Þetta er svo óheilbrigt og rangt hugsað. Nú vitum við, að það, sem aðallega stóð í vegi fyrir því, að þetta væri leiðrétt miklu fyrr, voru vandræði ríkissjóðs sjálfs. Á því ári, sem nú er nýliðið, vitum við, að þetta hefur breytzt mikið og tekjur ríkissjóðs farið verulega fram úr því, sem vonir stóðu til. Það er þess vegna aldrei tækifæri til að leiðrétta þetta misrétti og ganga af þessari villigötu inn á rétta braut, ef ekki nú. Til þess samt sem áður að fara millileið í þessu, því mjög snöggar breytingar eru oft varhugaverðar, hefur nú meiri hl. sjútvn., eins og frv. ber með sér, komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að skipta þessu útflutningsgjaldi til helminga milli ríkissjóðs og fiskveiðasjóðs. Minni hl. hefur aftur á móti talið, að ríkissjóður mætti ekki við því að missa þessar tekjur, en hins vegar hefur hann gert ráð fyrir því, að sjávarútvegurinn væri fær um að bera þyngri álögur en hann hefur núna og mætti þess vegna bæta við útflutningsgjaldið. Nú er það aldrei nema rétt, að ef tilvera fiskveiðasjóðs væri ekki miðuð við nema eitt ár, t. d. í fyrra, þá væri sjávarútvegurinn vissulega fær um það að fá ný gjöld, sem þessu svaraði. Við erum sjálfsagt allir sammála um það, að það eigi að byggja sjóðinn upp fyrir framtíðina, og þá er ekki rétt að miða tekjur hans við augnabliksástand. En þetta atriði ætla ég ekki að færa í kappræður og það er heldur ekki rétt. Það er bezt, að um það falli bara rólegur úrskurður eftir því, hvernig skoðanir hv. þm. falla um þetta atriði. Hv. þm. A.-Sk. gerði samanburð á vaxtagreiðslum þeim, sem í frv. eru ákveðnar á útlánum fiskveiðasjóðs, og vaxtagreiðslum landbúnaðarins. Sá samanburður var þannig, að af ræktunarsjóðslánum eru greidd 5% í vexti. Það er alveg rétt, að þessi sjóður tekur allt of háa vexti af útlánum sínum, og landbúnaðurinn er þess alls ekki umkominn að greiða svo háa vexti. En það réttlætir engan veginn, að aðrar atvinnugreinar séu eins leiknar. Ég vil aftur á móti taka byggingar- og landnámssjóð, sem ég tel raunar að taki of háa útlánsvexti. Hann tekur 5% í vexti af sínum lánum. Og þegar mönnum finnst of lágir vextir 4% á 15 ára láni eins og þessu, sem á að vera hámark á lánstíma, þá er það einkennilegt, þegar það er borið saman við annað frv., sem liggur fyrir þessum fundi í dag, þar sem er frv. um raforkuveitusjóð, en þar er ætlazt til, að lánin séu til 23 ára, eða 8 árum lengur en fiskveiðasjóður lengst má lána, en þó er ætlazt til, að vextirnir þar séu aðeins 3%. Mér finnst það mjög skynsamleg till. um vexti, ef hægt er að afla þeim sjóði fjár svo ódýrt, að hann standi undir þessu. En það verður að taka tillit til þess, þegar útlánsvextir eru ákveðnir til einhverra hluta, til hve langs tíma lánin eigi að vera. Stofnlán, sem eru til 15 ára lengst, eins og þessi, þau hvíla ákaflega þungt á. Þó að engir vextir væru, mundi verða mjög örðugt fyrir atvinnureksturinn í erfiðu árferði að standa í skilum með afborganir. Það verður þess vegna ætíð, þegar vextir eru ákveðnir fyrir stofnlán, að taka sérstakt tillit til þess, hvað lánið á að borgast upp á löngum tíma, og er það orðið talsvert algengt að ákveða á þann hátt vexti og afborganir í einu lagi með vissri prósentu á lánin, og er það á margan máta gott að hafa það svo, alveg eins og t. d. veðdeildin gerir og byggingar- og landnámssjóður. Það má kannske segja, að ekki sé mikill munur á því, hvort útlánsvextirnir séu 4% eins og í frv. eða 4½% eins og minni hl. n. óskar að hafa þá, en það hefur nokkuð að segja, þegar maður er búinn að teygja sig úr 3% upp í 4%, hvort enn þá er bætt ½% við. Í því frv., sem fyrst kom fram og ég lagði fyrir sjútvn., var ætlazt til að vextirnir væru 3%, svo ég er búinn að hoppa nokkuð langt í loft upp í þessu máli, þó að ég ekki fari hærra. Annars er það eins og með tekjuöflunarleiðina, þó að ég að sönnu telji þetta minna atriði, að ég ætla ekki að fara út í kappsmál út af þessu sætti mig við það, sem hv. þdm. gera í þessu efni, en vitanlega mæli ég eindregið með því, að rétt leið sé farin í þessu atriði eins og meiri hl. n. óskaði.