08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Það eru komnar hér fram við þetta frv., sem sjútvn. hefur flutt, brtt. frá 2 mönnum úr sjútvn. Mér skilst, að þessar brtt. gangi út á það að rýra mjög verulega tekjur sjóðsins frá því, sem ætlazt var til í því frv., sem ég flutti hér á öndverðu þingi um þetta efni. Enn fremur virðist mér það ganga út á það að rýra líka að nokkru þær tekjur, sem sjóðnum eru ætlaðar samkv. því frv., sem sjútvn. hefur flutt um þetta efni, en það frv. eflir þó engan veginn fjárhagsaðstöðu sjóðsins neitt svipað því, sem gert var samkv. tillögum mínum. En þessar till., sem þeir hv. þm. A.-Sk. og N.-Þ. flytja, eru alveg á sömu leið og ganga í sömu átt og þær till., sem ég hef áður flutt um þetta mál, — að auka skattinn, sem ganga á til fiskveiðasjóðs, fríi því, sem nú er ákveðið að lögum, þ. e., að hann verði ½% í staðinn fyrir að nú er hann ekki nema 1/8% — en samkvæmt tillögum mínum átti hann að verða 2%. Mér virðist, að sú úrlausn, sem þetta mál fengi samkv. þessum till., mundi vera ákaflega ófullkomin miðað við þær kringumstæður, sem nú eru fyrir hendi í þessu efni. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þær fela í sér tiltölulega mjög ófullkomnar umbætur á starfsemi sjóðsins. Eins og fyrsti flm. þessara till. tók fram, mundu tekjur sjóðsins af þessu, miðað við venjulegt árferði, vera um 200 þús. kr., en samkv. þeim till., sem ég flutti, hefðu tekjur sjóðsins orðið um 800 þús. kr. eftir sama mælikvarða. Það liggja hins vegar ekki fyrir upplýsingar um það, hverjar tekjur sjóðsins mundu verða samkv. frv. sjútvn., en ég hygg, að þær mundu nema 3–400 þús. kr. á ári.

Ég lít svo á, að þetta sé ákaflega ófullnægjandi og get því ekki undir neinum kringumstæðum fallizt á þessa brtt. eins og hún liggur fyrir, þó að ég sé stefnunni samþ. eins og till. mínar benda til. Það er alveg rétt, að í frv. mínu taldi ég það vera langöruggast og bezt fyrir sjóðinn að fá tekjurnar einmitt með þessum hætti, þó ber að sjálfsögðu að sníða stakk eftir vexti og ganga ekki lengra í skattaálögum í þessu skyni en líkur væru til, að sjávarútvegurinn geti undir staðið.

Þá er það náttúrlega rétt fram tekið hjá hv. þm. A.-Sk., að það eru engan veginn jafnvissar eða öruggar tekjur fyrir sjóðinn, að hann fái hluta af skatti ríkissjóðs af útfluttum sjávarafurðum. Það mundi geta farið svo, að gripið yrði til þess, ef ríkissjóði yrði tekjuvant, að fella niður greiðslu til fiskveiðasjóðsins og láta allan skattinn renna til ríkissjóðs. Ég fellst á það, að að þessu leyti sé þessi úrlausn, sem felst í frv. sjútvn., ekki eins trygg og hin leiðin, að hækka útflutningsgjaldið eins og ég lagði til og gert er í tillögum þm. A.-Sk. og þm. N.-Þ. En tillögur þeirra ganga svo skammt, að það verður að telja alveg ófullnægjandi lausn þessa máls. Kýs ég því þann kostinn heldur, þar sem sýnt er, að mínar tillögur til úrlausnar þessu máli fá ekki byr, að fylgja heldur frv. sjútvn. eins og það er.

Svo var það fyrirspurn, sem ég vildi bera hér fram til hv. sjútvn. viðvíkjandi 2. gr. frv., þ. e. a. s. 2. lið gr., þar sem talað er um, að tekjur sjóðsins séu helmingur þess útflutningsgjalds, sem ríkissjóður tekur árlega af hvers konar sjávarafurðum, hvort þar sé ekki innifalinn sá hluti af þessu gjaldi, sem á að ganga til fiskimálanefndar. Þetta skiptir náttúrlega dálitlu máli fyrir fiskveiðasjóð, sem á að njóta þessara tekna. Annars benti ég á það, þegar ég talaði fyrir mínu frv. hér á dögunum, að ég teldi, að það mál horfði þannig við nú, að vel gæti komið til mála að leggja niður starfsemi fiskimálanefndar. Þar með gætu niður fallið þau fjárframlög, sem til hennar ganga nú. Það væri eðlilegra að efla eina lánsstofnun, eins og t. d. fiskveiðasjóð, til þess að inna af hendi lánastarfsemi til skipabygginga, kaupa á skipum og verksmiðju- og frystihúsabygginga, heldur en að hafa þetta í tvennu lagi, þar sem hvorug stofnunin nær nema skammt til þess að sinna þessum störfum. Auk þess liggur það ákaflega opið fyrir, að þau verzlunarviðskipti, sem fiskimálanefnd hefur með höndum, gangi til Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem rekur alveg hliðstæð viðskipti fyrir útgerðina, að því er snertir sölu saltfiskjar. Mér virðist, að það geti farið ákaflega vel saman, að sala þessara afurða sé undir sömu stjórn, og það því fremur, sem starfssvið fisksölusamlagsins hefur nú dregizt mjög saman við það, að saltfiskframleiðslan hefur minnkað ákaflega mikið á seinni tímum. Þess vegna hlýtur það að vera miklu hagkvæmara að haga þessu svo, að salan í hraðfrystihúsin verði lögð í hendur þeim aðila, sem útvegsmenn hafa falið sölu saltfiskjarins, en lánastarfsemin til frystihúsbygginga o. fl. verði yfirfærð á fiskveiðasjóðinn. Ég minnist þessa vegna þess, að mér virðist það falla inn í þetta mál og teldi þetta heppilega tilhögun og ákaflega eðlilega eins og sakir standa nú. Þess ber að gæta, að eftir því sem aðstaða fiskveiðasjóðs er betur efld að því er snertir sjálfseignarfé, er aðstaða hans betri og sterkari til þess að veita hagkvæm og vaxtalág lán til útgerðarinnar, sem vitanlega er nauðsynlegt fyrir jafnáhættusaman atvinnurekstur og sjávarútvegurinn hefur reynzt vera hjá okkur Íslendingum. Ég geri ráð fyrir því, að fullt samræmi sé í brtt. hv. þm. A.-Sk. og þm. N.-Þ. að því er snertir hækkun á útlánsvöxtum, ef á að byggja aukningu sjóðsins í verulegum atriðum á lántöku, að þá sé ekki hægt að gera ráð fyrir því, að sjóðurinn geti gert vægari kröfu um vexti heldur en það, að þeir væru ákveðnir 4½%, því það skiptir náttúrlega miklu máli, hvort sjóðurinn verður að taka dýr lán eða getur starfað með eigin fé. Hv. þm: A.-Sk. vildi leggja allverulega upp úr því, að sjóðurinn ætti nú í skuldaskilasjóði verðbréf, er næmi verulegri upphæð. Ég benti á það við 1. umr., að það væri ákaflega valt að reikna með þessu sem handbæru fé til slíkra ráðstafana. Það er vitað, að undir venjulegum kringumstæðum mundi ekki vera hægt að innheimta nema lítinn hluta af þeim höfuðstól, sem þarna er um að ræða. Það sýnir sig bezt á því, að öll árin, síðan uppgerð í skuldaskilasjóði fór fram, hefur fiskveiðasjóði ekki tekizt að innheimta nema nokkuð á 2. hundrað þús. kr. En á síðast liðnu ári hefur innheimtan gengið betur, sem er afleiðing þeirrar snöggu breytingar, sem þá varð á hag sjávarútvegsmanna. Eins og breytingin varð snögg til batnaðar, virðast allar líkur benda til þess, að þegar undan fæti hallar aftur, þá geti breytingin orðið jafnsnögg eða sneggri, og þá sér maður, hvaða afleiðingar þetta getur haft upp á greiðslur til sjóðsins á þessum hæpnu skuldaskilasjóðslánum. Þess vegna er mjög hæpið að byggja nema að litlu leyti á þeirri skuldabréfaeign, sem þarna er um að ræða. Auk þess var það svo, að fiskveiðasjóður bar allan kostnað af skuldaskilum, og til þess hefur vitanlega farið allmikið fé, eins og gefur að skilja. Þrátt fyrir það, þú ég viðurkenni, að flm. þessara brtt. séu að mínu áliti á réttari leið með þessum till. en þeirri, sem í frv. felst, þá álít ég, að þeir gangi svo skammt, að ekki sé við það hlítandi fyrir sjóðinn. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti till., en með frv. Og ég vil segja það sem mína skoðun, að ég lít svo á, að það viðhorf, sem nú blasir við okkur á ýmsum sviðum, sé þannig, að þegar því ógnarástandi léttir, sem við nú búum við, þá verði vitanlega fyrir hendi ákaflega mikil og brýn þörf fyrir það, bæði á sjó og landi, að auka, efla og endurbæta þau verðmæti, sem eru í þessu landi, í húsbyggingum, ræktun og öðru slíku, og þá ekki síður að því er snertir skipastólinn. Og við þurfum skilyrðislaust, –það er okkur lífsspursmál —, þegar við eigum að fara að lifa undir breyttum kringumstæðum, að búa sem bezt í haginn fyrir okkur til þess að mæta því gerbreytta viðhorfi í atvinnumálum, sem við megum vita alveg fyrir víst að bíður okkar, þegar því ógnarástandi léttir af, sem við eigum nú við að búa. Við verðum að gera það,

sem við getum, til þess að greiða götu þess, að við þá getum haldið áfram framleiðslunni, bæði á sjó og landi.