08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Í tilefni af samanburði, sem gerður hefur verið á tekjum sjóðsins samkvæmt frv. og till. minni hl. sjútvn., vildi ég benda hv. þm. á og leggja áherzlu á það, að samkvæmt frv. fær sjóðurinn í tekjur 1% af öllu verði útfluttra sjávarafurða, því að nú tekur ríkissjóður 2% af verðinu í útflutningsgjald, en eftir till. minni hl. n. verður sá viðauki fiskveiðasjóðsgjalds, sem sjóðurinn fær, 3/8%. Þetta munar sjóðinn mjög miklu. Eftir till. hv. minni hl. verður vöxtur sjóðsins mjög hægur.

Ég var búinn að skrifa hjá mér ýmis atriði, sem ég ætlaði að taka til athugunar, en hv. þm.

Ísaf. hefur svarað þeim öllum. Þó vil ég, út af orðum hv. þm. V.-Húnv. um það, að tryggingar fyrir lánum til sjávarútvegsins séu miklu lélegri en tryggingar fyrir lánum til landbúnaðarins, leggja áherzlu á, að lán út á gott eikarskip er í mesta lagi til 15 ára, og verður að telja, að slíkt skip sé gott veð við 15 ára láni, því að þótt skipið farist, er féð engan veginn glatað, þar sem skyldutrygging er á því.

Það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. benti á, að fiskveiðasjóður hefur lánað á fjórðu millj. kr., en töp á þeim lánum hafa ekki orðið nema hér um bil 12 þús. kr., eða sama og ekkert. Ef hægt væri að benda á betri útkomu annars staðar, til dæmis hjá landbúnaðinum, þá væri það gott. Það má alltaf spyrja, eins og hv. þm. V.-Húnv., hvort ríkissjóður geti misst þessar tekjur, — en munar það ríkissjóð ekki meira, ef sjávarútvegurinn hrynur? Eru ekki þaðan mestar tekjur ríkisins? Það er í rauninni enginn ágreiningur um það, hvaðan þessar tekjur skuli vera, því að vitað er, að sjóðurinn á að hafa tekjur sínar eingöngu frá sjávarútveginum sjálfum. Og þegar menn eru alltaf með þennan rógkennda samanburð við landbúnaðinn, er ekki ástæðulaust að benda á, að þessi sjóður á einungis að hafa tekjur sínar frá þeirri starfrækslu, sem á að njóta góðs af starfsemi hans. Getið þið bent á aðra sjóði, sem þannig er fyrir komið? Fá þeir ekki yfirleitt tekjur sínar frá ríkinu? Og reynslan sýnir, að er margir ganga í skrokk á hinum sama, þá miðar hver við það, að engir aðrir taki þar af. Þannig er um útsvar, tekjuskatt o. s. frv., sem mætast í miðjum skrokki skattgreiðenda. Hér er nú komið margs konar útflutningsgjald á sjávarútveginn, fyrst til ríkissjóðs, í öðru lagi til fiskimálasjóðs, sem ríkissjóður hefur sölsað undir sig, í þriðja lagi til fiskveiðasjóðs og í fjórða lagi til einhverrar útflutningsn., og man ég ekki fleira í svipinn. Ég held því, að rétt sé að fara hægt í því að láta þeim fjölga, sem flá þennan atvinnuveg.