08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Jón Ívarsson:

Ég ætla ekki að fara í neinn meting um það, hversu háttað er tekjum ríkisins af landbúnaði og sjávarútvegi, en ég vil minnast á nokkur önnur atriði, sem fram hafa komið hér í umr. Á það hefur verið bent, að með till. okkar hv. þm. N.-Þ. væri stefnt að því að gera tekjur fiskveiðasjóðs rýrari. En ég hef áður getið þess, að tekjurnar væru með okkar till. gerðar öruggari, og teldum við það meira virði en hitt, að þær væru settar mjög háar í bili. Ég er enn á þeirri skoðun, og þess vegna lít ég svo á, að sjóðinum sé það betra og æskilegra, að okkar till. gangi fram en sú till. um þetta, sem í frv. felst.

Á það var minnzt hér, að ekki mætti gera of mikið úr eignum skuldaskilasjóðs, og er það rétt. Þegar ég áætlaði eignir fiskveiðasjóðs upp undir 4 millj. kr., þá reiknaði ég þetta þannig: Eignir samkvæmt eignayfirliti 2.2 millj. kr., greiðsla frá ríkissjóði tæp 1 millj. kr., óinnkomið fiskveiðasjóðsgjald frá 1940 á 2. hundrað þús. kr., eða ef til vill 200 þús. kr., og ætla ég, að eignir skuldaskilasjóðs nægi að minnsta kosti fyrir því, sem á vantar 4 millj. kr., jafnvel þó að þær væru ekki metnar nema 50–60% af því, sem upp er gefið, að þær nemi, en ég held, að þær hafi um síðustu áramót verið taldar vera um millj. kr.

Um vextina skal ég ekki vera margorður. Var nokkuð á þá minnzt í sambandi við frv. um raforkuveitusjóð, þar sem gert er ráð fyrir 3% vöxtum af lánum úr þeim sjóði. En hér liggur e:innig fyrir annað frv., á þskj. 92, sem fjallar meðal annars um lánadeild smábýla. Frv. þetta er samið af milliþn. í bankamálum, og er þar gert ráð fyrir 6% vöxtum. Við getum ekki almennt miðað við 3% eða 4%, enda tel ég, að fiskveiðasjóður verði að miða vexti sína við það, sem gerist almennt í landinu.

Á það hefur verið minnzt, að tap fiskveiðasjóðs hafi verið undarlega lítið, en á síðasta starfstímabili sjóðsins fóru fram samningar um skuldaskil, og held ég, að með því hafi starfsemi sjóðsins verið gerð öruggari. Annars er það gleðilegt, að töpin hafa ekki orðið meiri en þetta. Án þess að ætla að fara hér út í nokkur n samanburð, get ég þó sagt það, að ég veit ekki til, að töp hafi orðið af starfsemi byggingar- og landnámssjóðs eða ræktunarsjóðs.

Ég get svo að lokum, vegna þess sem fram hefur komið, getið þess, að við viljum fúslega ræða þetta mál við hlutaðeigendur, ef samkomulag gæti orðið um breytingar, og tek ég því brtt. okkar á þskj. 142 aftur til 3. umr.